Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 18:02:36 (2442)


[18:02]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. til fjárlaga sem hér er til 2. umr. undirstrikar auðvitað það að stefna núv. ríkisstjórnar í ríkisfjármálunum hefur beðið algert skipbrot. Það kom fram í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um mitt ár 1991 þegar þessi ríkisstjórn hafði nýlega tekið til starfa að hún yrði ekki eins og aðrar ríkisstjórnir sem fyrr hefðu setið að því leyti til að hún væri ekki afgreiðsluríkisstjórn heldur fyrst og fremst ríkisstjórn sem ætlaði að taka á þessum grundvallaratriðum, m.a. því að snúa þeim vandamálum sem við væri að glíma í ríkisfjármálunum og skila hallalausum fjárlögum innan þriggja ára. Nú eru þrjú ár liðin af starfstíma þessarar ríkisstjórnar og staðan er sú að --- hér eru haldnir fundir í hliðarherbergjum og það er

sjálfsagt það fjaðrafok sem var áðan um stefnu Sjálfstfl. í málefnum hjúkrunarheimilisins á Fáskrúðsfirði, en ég vildi gjarnan að hæstv. heilbrrh., ef hann má vera að hér á eftir í umræðunum, hlustaði á mál mitt því að ég hef nokkrar spurningar fram að færa sem snúa að hans málaflokki, ( Gripið fram í: Hann er að stilla til friðar.) en hann mun vera að stilla til friðar eins og stendur ( Gripið fram í: Hann er í stjórnarmyndunarviðræðum.) og ég hef sjálfsagt biðlund eftir því og gangi honum vel í þeim efnum.
    Árið 1993 stefnir í það að fjárlagahallinn muni verða í kringum 14 milljarðar kr. og það fjárlagafrv. sem hér er til 2. umr. gerir ráð fyrir því í raun þó að önnur tala sé skráð í fjárlagafrv. að hallinn verði á bilinu 15--20 milljarðar. Þrjú ár áttu að vera nóg til þess að tryggja hallalaus fjárlög án skattahækkana og var það auðvitað í samræmi við stefnu Sjálfstfl. fyrir alþingiskosningarnar 1991 sem gerði ráð fyrir því að skattar væru lækkaðir. Í landsfundayfirlýsingu Sjálfstfl. frá þeim tíma sem verður að styðjast við þegar menn meta hver var stefna þess flokks í alþingiskosningunum, var gert ráð fyrir því að skattprósentan lækkaði úr rúmum 39% niður í 35%. Þetta var fyrsta atriðið í skattayfirlýsingu Sjálfstfl. frá landsfundinum 1991 um að stefnt væri að því að skattprósenta einstaklinga væri 35%. Alþfl. lofaði í þeim kosningum að hækka skattleysismörkin upp í það sem þau hefðu átt að vera komin eða tæpar 80 þús. kr.
    Þegar menn hins vegar líta til baka og yfir loforðalista þessara stjórnarflokka sem nú hafa starfað í þrjú ár og berum saman efndirnar og vonir þær sem Morgunblaðið batt við ríkisstjórnina, þá kemur í ljós að skattprósenta sem átti að vera 35% og Sjálfstfl. lofaði er núna komin í 41,29% og mun fara hækkandi á árinu 1994, gangi þær tillögur sem núna liggja fyrir um skattkerfisbreytingar fram. Í raun hefði þessi yfirlýsing og þessi loforð sem Sjálfstfl. gaf kjósendum í kosningunum 1991 þýtt skattalækkun upp á 9.150 millj. kr. En hækkunin er 2.850 millj. bara í tekjuskattinum einum og sér. Barnabætur hafa lækkað um 500 millj. kr. Vaxtabætur hafa lækkað um 500 millj. kr., vextir í húsnæðislánakerfinu hafa hækkað og skattleysismörkin sem Alþfl. lofaði að yrðu hækkuð upp í 80 þús. kr. lækkuðu um síðustu áramót og eru nú komin niður í kringum 57 þús. kr. Þannig hefur þessum stjórnarflokkum tekist í raun og veru að snúa skattkerfinu í landinu á haus, draga úr hvata almennings til að vinna sér inn auknar tekjur vegna þess að við búum orðið nú við 70% jaðarskatt. Með öðrum orðum þýðir þetta það að af hverjum 100 kr. sem einstaklingurinn vinnur sér núna inn þarf hann fyrst að skila 70 kr. til fjmrh. áður en hann fær sínar 30. Til viðbótar þessum skattahækkunum hafa þjónustugjöld á sjúklinga og elli- og örorkulífeyrisþega hækkað. 1.000 millj. kr. lyfjaskattur hefur verið lagður á í tíð þessarar ríkisstjórnar sem felst í því að þátttaka einstaklings í lyfjakostnaði hefur hækkað úr 18% upp í 32%. Kostnaður á þá sem þurfa að sækja sér sérfræðilæknishjálp hefur hækkað um 700 millj. kr. Beinn skattur á þá sem þurfa að heimsækja heilsugæslustöðvar og nýta sér þjónustu þeirra hefur hækkað um 370 millj. kr. Beinn skattur á elli- og örorkulífeyrisþega sem settur var á á árinu 1992 var 280 millj. og þannig mætti lengi halda áfram. En þrátt fyrir þessar auknu skattálögur, sem eru gífurlegar, þá stefnir í það að fjárlagahallinn verði á þessu ári eins og ég sagði áður 14 milljarðar. Það er ekkert í fjárlagafrv. sem getur gefið mönnum vonir um það að hægt verði að standa við þau áform sem núna eru uppi um að fjárlagahallinn verði í kringum 10 milljarðar. Hann mun verða á bilinu milli 15 og 20 milljarðar kr.
    Hæstv. forsrh. hefur margoft lýst því yfir að frumskilyrði fyrir því að menn gætu lækkað vexti í landinu væri að það drægi úr fjárlagahallanum. Í umræðum um fjáraukalög fyrir dáum dögum síðan sagði hæstv. forsrh. að í tíð fyrri ríkisstjórnar hefðu verið skráðir vextir á ríkisskuldabréf sem verða 6%. Það hefðu verið falskar tölur sem þar voru settar vegna þess að bréfin seldust á allt öðru verði, á bilinu 8--9%. Þetta var hárrétt hjá hæstv. forsrh. Eftirspurnin eftir peningunum var þá svo mikil að raunvextir voru langtum hærri. Nú gorta hæstv. ráðherrar og einstakir alþingismenn af því að menn hafi náð að lækka vextina niður í 5%. Hvernig fara hæstv. ráðherrar að því að finna slíkt út? Jú, með því að skrá 5% vexti á húsbréf og ríkisskuldabréf. En þegar út á markaðinn er komið, þá bregst markaðurinn einfaldlega ekki við með þessum hætti og segir: Þessar tölur sem þarna eru skráðar eru falskar. Þær eru nákvæmlega eins falskar eins og hjá fyrri ríkisstjórn vegna þess að markaðsöflin á markaðnum, lífeyrissjóðirnir, bankakerfið og aðrir slíkir kaupa ekki þessi bréf með þeim vöxtum sem á þau eru skráð heldur á hærri vöxtum og þetta gerist bara á fyrstu dögunum og Alþfl. hefur enn ekki lokið fundaherferðinni þar sem hann er að kynna 5% vextina sem eru ekki 5% vextir lengur heldur langtum, langtum meira. Þannig að því miður, segi ég, vantar allar forsendur. Og það eru forsendur sem hæstv. ríkisstjórn átti að skapa fyrir því að hægt sé að lækka vextina og forsendurnar eru auðvitað þær að það sé hægt að draga úr fjárlagahallanum. Aðilar vinnumarkaðarins sömdu um kjarasamning til langs tíma sem skapar ró á vinnumarkaði. Það voru m.a. forsendur fyrir því að vextir gátu lækkað en það stendur enn upp á ríkisstjórnina að ganga frá þeim forsendum sem hún átti að skapa.
    Þegar sá hluti ríkisstjórnarinnar sem stóð að fjárlagafrv. lagði fram fjárlagafrv. fyrir árið 1994 þá var gert ráð fyrir því að sparnaður í heilbrigðis- og tryggingamálum yrði 2,4 milljarðar kr. Hvernig átti að ná þessum sparnaði? Í stórum dráttum var áætlað að sparnaðurinn kæmi þannig fram:
    1. Hætt yrði rekstri barnaheimila á ríkisreknum sjúkrastofnunum og sveitarfélögum gefinn kostur á að taka við rekstrinum og þannig var áætlað að spara 200 millj. kr.
    2. Framlög til áfengismeðferðarstofnana áttu að lækka um 90 millj. kr.

    3. Útgjöld vegna lífeyristrygginga átti að lækka um 525 millj.
    4. Útgjöld til sjúkratrygginga áttu að lækka um 703 millj.
    5. Ná átti fram hagræðingu í rekstri sjúkrahúsanna og spara þannig 735 millj.
    6. Gera átti breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem áttu að spara 120 millj.
    Þegar menn líta hins vegar til baka og líta yfir það hvað núna stendur eftir við 2. umr. fjárlagafrv., bæði þær breytingar er hv. fjárln. hefur gert og eins hvaða yfirlýsingar hjá hæstv. heilbrrh. standa nú eftir af því sem menn fóru af stað með, þá ætla ég með leyfi forseta að fara hér yfir nokkur atriði í þeim efnum.
    Það er ljóst að hæstv. ríkisstjórn hefur hætt við að spara af þessum 2,4 milljörðum a.m.k. 1 milljarð. Í fyrsta lagi hefur verið ákveðið að halda áfram rekstri leikskólanna í óbreyttri mynd. 200 millj. kr. sparnaðurinn sem þar átti að nást verður í kringum 100 millj., kannski rétt rúmlega 100 millj.
    Í öðru lagi átti að spara í lífeyristryggingum 525 millj. kr. Samkvæmt yfirlýsingu hæstv. heilbrrh. og ríkisstjórnarinnar í heild hefur verið hætt við að eignatengja lífeyrisgreiðslur. Því munu ekki sparast 200 millj. kr. sem áætlað var að með því mundu sparast. 200 millj. kr. átti að spara með því að afnema eingreiðslur að hluta til, þ.e. greiðslur til elli- og örorkulífeyris þeirra er snúa að orlofsuppbót, desemberuppbótt og láglaunabótum eins og allir launþegar fá. Nú spyr ég hæstv. heilbr.- og trmrh.: Hvað líður þeim samningum sem lýst er í fjárlagafrv. að séu í gangi við aðila vinnumarkaðarins um skerðingu á þessum bótum? Ef ekki verður samið um þessa skerðingu og þannig náist þarna 200 millj. kr. sparnaður þá er ljóst að af 535 millj. kr. er hæstv. heilbrrh. hættur við að spara 400 í lífeyristryggingunum. Í sjúkratryggingunum var áætlað að spara 730 millj. en nú liggur það fyrir að hætt hefur verið við heilsuskortin sem áttu að skapa sjúkratryggingunum sértekjur upp á 400 millj.
    Í fjórða lagi átti að spara með hagræðingu í rekstri sjúkrahúsanna 735 millj. kr. Nú kom það fram í máli hv. 1. þm. Vesturl. áðan að umræðu um sjúkrahúsin hefur verið frestað til 3. umr. en hann lýsti því jafnframt yfir, hv. 1. þm. Vesturl., að nauðsynlegt væri að gera breytingar á ýmsu því er snýr að rekstri sjúkrahúsanna og hygg ég að það sé hárrétt hjá hv. þm.
    Í fimmta lagi var gert ráð fyrir því að spara 90 millj. með því að gera breytingar á áfengismeðferðarstofnununum. Heilbrrh. hefur lýst því yfir að áformuð breyting á Gunnarsholti sé ekki lengur inni í myndinni en það kemur fram í þeim nefndarálitum sem hér liggja fyrir að menn hafa ekki fallið frá gjaldtökunni á áfengismeðferðarstofnunum þannig að þegar á þetta er litið í heild er það a.m.k. einn milljarður kr. sem þarna mun ekki sparast af áætluðum eða áformuðum sparnaði. Hins vegar hafa komið fram nýjar tillögur sem ég kem hér örlítið að á eftir eða um 180 millj. kr. sparnaði í sjúkratryggingunum.
    Hæstv. heilbrrh. hefur hvað eftir annað lýst því yfir í umræðum og núna síðast í ágætu viðtali við Mannlíf að munurinn á þeirri stefnu er núv. hæstv. heilbrrh. rekur og þeirri stefnu er forveri hans, núv. hæstv. iðnrh. og viðskrh. Sighvatur Björgvinsson, rak í heilbrigðismálum sé í stórum dráttum sá að núv. hæstv. ráðherra treystir sér ekki til þess að fara þá leið er forveri hans fór að leggja á sjúklinga og aðra aukin þjónustugjöld. Í sjálfu sér finnst mér þetta vera göfugt markmið ef við það væri staðið. Þetta ítrekar hæstv. ráðherra í Mannlífsviðtali fyrir stuttu en þegar við höfum það í huga og lítum til þess að þau áform sem uppi eru nú varðandi áfengismeðferðina þá eru um beina gjaldtöku af þeim er þá þjónustu munu þurfa að nýta sér í framtíðinni að ræða. Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað á hann við þegar hann segir að hann sé ekki tilbúinn til þess að fara gjaldtökuleiðina? Hvað á hæstv. ráðherra við þegar hann lýsir slíku yfir?
    Frá því er Alþfl. tók við heilbrrn. 1991 hafa fjárframlög til allrar áfengis- og vímuefnameðferðar lækkað úr rúmum 520 millj. kr. árið 1991, ef við miðum við það á verðlagi núna í nóvember, í 370 millj. kr. árið 1994 eða um hvorki meira né minna en 30%.
    Það er alveg ljóst að með þeirri leið sem hérna er verið að velja, að leggja þessar auknu álögur á þá sem þurfa á þessari þjónustu að halda, þá munu sárafáir geta nýtt sér þessa sjúkrahúsþjónustu sem þarna er um að ræða. Af þeim 25 millj. sem gert er ráð fyrir að SÁÁ, ef við tökum þá einu stofnun, muni taka þar inn í auknum tekjum vegna gjaldtöku á þessa sjúklinga og við göngum út frá því að innlagnirnar séu 2.600 og allir greiði jafnt. Þá þýðir þetta að kostnaðurinn við meðferðina mun verða 9.615 á hvern einstakling ef allt er greitt. Ef helmingur sjúklinganna borgar þá þýðir það að þeir sem munu greiða munu þurfa að greiða 19.231 kr. fyrir meðferðina. Ég spyr hæstv. ráðherra hvaða leið hann ætlar að fara til að innheimta þessar tekjur sem hér er gert ráð fyrir að innheimtar verði á þessum stofnunum, ekki bara hjá SÁÁ heldur hjá öðrum áfengismeðferðarstofnunum, bæði Ríkisspítölunum og líka á Borgarspítalanum.
    Hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur sent fjárln. Alþingis bréf þar sem hann lýsir því hvaða leið hann vilji fara til að spara í sjúkratryggingunum eftir að ljóst liggur fyrir að af þeim 2,4 milljörðum sem spara átti almennt í heilbrigðis- og tryggingamálum mun ekki nema brot nást. Þessar nýju tillögur ráðherrans eru:
    1. Að sparnaður verði í hjálpartækjum með útboðum upp á 50 millj. kr.
    2. Gert er ráð fyrir að spara 15 millj. kr. með því að lækka sjúkradagpeninga.
    3. Að draga úr kostnaði við magasárslyf um 100 millj. kr.
    4. Spara 15 millj. kr. með því að draga úr því að senda fólk úr landi í hjartaaðgerðir.

    Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig telur hann að hægt sé að spara 15 millj. kr. í sjúkradagpeningunum? Gerir hæstv. ráðherra sér grein fyrir því að þeir einstaklingar sem þurfa að lifa af sjúkradagpeningum hafa 526 kr. á hverjum degi til að lifa af? Kannski til að reka fjögurra eða fimm manna fjölskyldu. Hver lifir af slíku? Er einhver forsenda fyrir því að lækka þessa upphæð? Ef ekki á að lækka upphæðina, hvernig ætlar þá hæstv. ráðherra að spara 15 millj. kr.?
    Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Sparnaður upp á 100 millj. kr. með því að hætta eða ég a.m.k. gef mér að það eigi að fara mjög svipaða leið og farin var varðandi sýklalyfin því hér er ekki leitað eftir, eftir því sem ég best fæ séð, lagaheimild til að spara í magasárslyfjunum. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að spara þær 100 millj. af þeim 400 sem útgjöldin eru þar nú í heild sinni? Það verður ekki gert öðruvísi en með því að hætta greiðsluþátttöku almannatrygginga í þessum lyfjum. Staðreyndin er hins vegar sú að á undanförnum árum hafa sennilega þessi magasárslyf sparað ríkinu og þjóðarbúinu í heild sinni hundruð millj. kr. Vegna þess hversu öflug þessi lyf eru orðin þá hefur ekki þurft að leggja nærri jafnmarga sjúklinga inn á sjúkrahúsin og skera þá upp. Eins hafa þessir einstaklingar getað stundað fulla vinnu og ekki þurft að vera frá vinnu, þannig að þetta hefur sparað ríkinu og þjóðarbúinu hundruð millj. kr. Ég geri mér alveg grein fyrir því, hæstv. ráðherra, að þetta er stór útgjaldaliður í heildarútgjöldum sjúkratrygginganna og í lyfjunum í heild rétt eins og róandi lyfin og sýklalyfin voru áður. Sú leið var þar valin að taka þessi lyf út úr greiðsluþátttöku almannatrygginganna. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er það sú leið sem hæstv. ráðherra ætlar að fara?
    Í fjórða lagi er gert ráð fyrir því að spara í hjartaskurðaðgerðum 15 millj. kr. með því að hætta að senda einstaklinga til útlanda. Nú er það svo að sennilega eru aðgerðir á fullorðnu fólki sem gerðar voru erlendis á árinu 1993 teljandi á fingrum annarrar handar. Sem betur fer hafa þessar aðgerðir að öllu leyti flust inn í landið. Þær aðgerðir sem nú eru gerðar erlendis eru aðgerðir sem ekki er til tækniþekking á að framkvæma hér á landi og eru fyrst og fremst aðgerðir á börnum.
    Við höfum enn ekki getu til að framkvæma þær aðgerðir hér í landinu. Því spyr ég: Hvernig er hægt að spara 15 millj. á næsta ári með því að hætta aðgerðum erlendis sem ekki eru gerðar nema hæstv. ráðherra ætli þá að hætta að senda börnin til útlanda? Það er auðvitað mjög alvarlegt og ég trúi ekki að hæstv. ráðherra ætli slíkt. Sé meiningin að byggja þessa þjónustu upp á Ríkisspítölunum, sem ég tel að eigi að stefna að og ég þykist vera viss um að hæstv. ráðherra ætli að gera, þá trúi ég að það muni því miður ekki takast árið 1994. Að minnsta kosti þarf þá að gera verulega leiðréttingu á því sem núna kemur fram í fjárlagafrv. því að bara til þess að Ríkisspítalarnir geti haldið óbreyttri starfsemi árið 1994 þarf að hækka þann fjárlagalið þess sjúkrahúss eins um 380 millj. kr. Það verður kannski gert hér á milli 2. og 3. umr. Það væri gott. En ef það á að flytja hjartaaðgerðir barna inn í landið þá þarf sennilega að setja í það a.m.k. 100--150 millj. til viðbótar við þær 380 millj. kr., bara til þess að halda óbreyttum rekstri á því sjúkrahúsi. Óskir þessara þriggja sjúkrahúsa bara í Reykjavík til að halda óbreyttum rekstri árið 1994 eru upp á 720 millj. kr., 380 millj. á Landspítalanum, 150 á Landakotsspítala og 182 millj. kr. á Borgarspítalanum. Hæstv. ráðherra, ég hefði gjarnan viljað fá svör við því hvernig á að framkvæma nýjustu tillögur sem nú hafa komið frá hæstv. heilbr.- og trmrh. um sparnað í sjúkratryggingunum árið 1994. Ég ætlast ekki til að ráðherrann fari að svara mér því af hverju menn hafa hætt við þetta allt saman sem áformað var. Ég get vel skilið að nauðsynlegt sé að gera breytingar á frv. eins og það liggur fyrir frá því það er fyrst lagt fram og þar til það verður endanlega afgreitt en svo róttækar breytingar eins og hér hafa nú þegar verið gerðar og snúa að heilbrigðis- og tryggingamálunum lýsa auðvitað bara því að málið var algerlega óhugsað þegar það var lagt fram í upphafi.