Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 18:29:36 (2443)


[18:29]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér gefst mér ekki tími né tóm til að fara yfir þær rangfærslur sem hv. þm. Finnur Ingólfsson fór með varðandi meginstoðir fjárlagafrv. og tillögur heilbrrn. í þeim efnum. Það er alrangt, svo ég taki dæmi í þessum efnum, að aftur hafi verið teknar hugmyndir um kerfisbreytingu á leikskólum sjúkrahúsanna. Þar verður sparnaðar 130 millj. kr., farið verður hægar í sakir en upphaflega var ráð fyrir gert en engu að síður kerfisbreyting gerð.
    Í annan stað eru ígrundaðar kerfisbreytingar og sparnaðaraðgerðir gagnvart kerfinu sem slíku mjög gaumgæfðar og traustar hvað varðar sjúkratryggingaútgjöld, rannsóknakostnað, röntgenkostnað, læknakostnað og út af fyrir sig væri hægt að ganga lengra í því og það kemur kannski fram við 3. umr. fjárlaga.
    Varðandi eingreiðslurnar sem hér komu til tals þá liggur það fyrir að næsta greiðsla samkvæmt samningum er í júní á næsta ári. Það verður farið í viðræður samkvæmt yfirlýsingu forsrh. við framlengingu kjarasamninga í þær viðræður nú strax eftir áramót. Við spyrjum að leikslokum í þeim efnum.
    Varðandi nokkur þau atriði sem hann gerði að umtalsefni og bendi til mín fyrirspurnum. Í fyrsta lagi hér yfirlýsingu hv. þm., sem var nú raunar aðstoðarmaður fyrrv. hæstv. heilbrrh., um magasárslyfin þá

væri fróðlegt fyrir þingmanninn að kynna sér útgjöld í þeim efnum og samanburð við Norðurlönd ef það er rétt sem hv. þm. hélt fram að þetta hefði bjargað og dregið úr kostnaði við innlagnir þá kann maður að spyrja hvers vegna er það ekki gert á öðrum Norðurlöndum? Hvað er svona sérstakt við notkun þessara lyfja hér á Íslandi? Við ætlum að taka á þessu máli með sértækum hætti.
    Í annan stað hefur verið staldrað hér við 15 millj. sparnað í greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar varðandi innlagnir aldraðra einkanlega vegna langlegu. Hér er alls ekkert verið að ræða um að lækka þessa lágu upphæð sem við getum verið sammála um að er í hlutfalli lág. Hins vegar ætlum við að ganga eftir því og tryggja að þeir einir njóti sem rétt eiga á.