Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 18:32:09 (2444)


[18:32]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nú reynar grafalvarlegt þegar hér kemur í stólinn hæstv. heilbr.- og trmrh. og veit ekki hvað stendur í því fjárlagafrv. er hann leggur fyrir Alþingi. Ég bendi bara hæstv. ráðherra á að lesa á bls. 329 aftur að bls. 333 í fjárlagafrv. þar sem hann hefur lýst því nákvæmlega hver áformin voru um sparnað. En hitt er sýnu alvarlegra þegar hæstv. ráðherra gerir ekki greinarmun á mismunandi bótaflokkum hjá Tryggingastofnun ríkisins og talar hér um sjúkradagpeninga eins og vasapeninga til þess fólks sem er inni á stofnununum. Á þessu er grundvallarmunur. Þetta er sinn hvor bótaflokkurinn. Og er það virkilega svo, hæstv. rásherra, að tillögur þínar hér séu ekki betur ígrundaðar en það að þú sért að rugla hér saman tveimur algjörlega óskyldum bótaflokkum. Annars vegar sjúkradagpeningum til þess fólks sem er í veikindum tímabundið úti á vinnumarkaðnum og svo vasapeningum til þess fólks sem er inni á stofnununum. Þetta er náttúrlega svo alvarlegt ef menn eru að fjalla hér um fjárlagafrv. og gera engan greinarmun á því hvað í þessu tvennu felst. Á þessu er grundvallarmunur, hæstv. ráðherra, og menn þurfa að lesa örlítið betur heima áður en þeir koma hér í ræðustól og fara að fjalla um hlutina með þessum hætti. En ég spyr aftur hæstv. ráðherra: Hvernig á að taka með sértækum hætti á magasárslyfjunum einum og sér og skera þar niður kostnað?