Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 18:41:23 (2450)


[18:41]
     Kristín Einarsdóttir :
    Herra forseti. Ég get tekið undir það sem fram kom í máli hv. 4. þm. Norðurl. v., Stefáns Guðmundssonar, að það er eðlilegt að ráðherrar séu viðstaddir þessa umræðu. En ég tel ekki síður mikilvægt og raunar mikilvægara að fjárln. sé viðstödd umræðuna. Ég sé engan þingmann í meiri hluta fjárln. staddan hér. Það eru aðeins tveir þingmenn úr fjárln. hér staddir sem eru báðir úr minni hluta. En það sem ég þarf fyrst og fremst að ræða eru tillögur meiri hlutans, að hluta til, sem og nokkur atriði er varða beinlínis vinnu fjárln. Mér finnst mjög óeðlilegt að hvorki formaður né varaformaður séu viðstaddir það sem ég þarf að tala og þá get ég raunar sleppt því að ræða þetta mál. Ég hef ekki mikið að ræða við ráðherra.
    ( Forseti (PJ) : Hv. formaður fjárln. hefur nú þegar gengið í salinn og forseti hefur gert ráðstafanir til að láta kanna hvort hæstv. ráðherrar hafa möguleika til að koma í þingsalinn og enn fremur aðrir forustumenn fjárln. Hér gengur hv. 1. þm. Vesturl., varaformaður fjárln., í salinn.)
    Ég þakka forseta fyrir skjót viðbrögð og reyndar formanni og varaformanni fjárln., en ég á fyrst og fremst orðastað við fjárln. Á þessu stigi málsins lít ég svo á að fjárlagafrv. sé fyrst og fremst í höndum þingsins og það sé þingið sem er að fjalla um það nú. Þess vegna tel ég mikilvægt að þegar við þingmenn höfum athugasemdir við tillögur fjárln. og meðferð fjárln. á málinu þá sé hlustað á mál okkar og ég þakka fyrir að þessir menn brugðu svo skjótt við.
    Hv. 6. þm. Vestf., Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, hefur farið ítarlega yfir fjárlagafrv. og ætla ég mér ekki að fara yfir það á sama hátt og hún gerði, þ.e. fjárlagafrv. í heild. En eins og þingmenn hafa eflaust tekið eftir þá gerir Kvennalistinn aðeins örfáar brtt. við fjárlagafrv. sem eru á þskj. 335. Ég ætla heldur ekki að gera grein fyrir þeim brtt., það mun hv. 10. þm. Reykv. gera síðar í umræðunni. Það eru önnur atriði sem ég ætla að gera að umtalsefni.
    Ég ætla fyrst að gera að umtalsefni meðferð fjárln. á áliti umhvn. á þeim hluta frv. sem umhvn. fór yfir og fellur undir fagsvið umhvn. Umhvn. fór mjög vandlega yfir frv. að því er varðaði umhvrn. Við kölluðum fyrir fulltrúa allra þeirra stofnana sem undir ráðuneytið falla. Þær eru að vísu óvanalega fáar miðað við aðrar fagnefndir, en við ákváðum að verja nokkrum tíma í þessi fjárlög. Ég tek það fram að við sjálf höfðum mikið gagn af því og töldum okkur læra mikið af því að heimsækja t.d. Landmælingar Íslands, sem við gerðum til þess að kynna okkur sérstaklega þeirra starfsemi. En allar aðrar stofnanir komu til fundar við nefndina eins og ég sagði áðan.
    Umhvn. skilaði áliti til fjárln. sem er birt sem fskj. á bls. 25, þar sem það byrjar, með áliti meiri hlutans. Það er nokkuð ítarlegt og það sem ég vona að veki athygli fjárlaganefndarmanna sem og allra annarra þingmanna er að umhvn. skilaði sameiginlegu áliti. Það voru aðeins óverulegar athugasemdir sem komu fram í lok álitsins að því er varðaði fulltrúa stjórnarflokkanna. Þeir töldu að það ætti að leggja áherslu á að fjárln. leiti leiða til að standa við samningsbundar skuldbindingar og lagafyrirmæli að því er varðaði fjárlagafrv.
    En mig langar til að gera að umtalsefni þetta álit og fara örlítið yfir það og spyrja nokkurra spurninga í því sambandi.
    Það vakti athygli mína og reyndar okkar allra, held ég, í umhvn., að það var lagt til af hálfu umhvrn. að framlag til Landmælinga Íslands lækkaði um rúmar 30 millj. kr. Það vekur furðu mína að umhvrn. skuli ekki leggja til meira að því er varðar Landmælingar Íslands og má taka það fram að þessi upphæð er ívið lægri heldur en framlag til Landmælinga Íslands var árið 1990. Umhvrn. hefur því lagt til verulegan niðurskurð á starfsemi Landmælinga Íslands, sem ég tel mjög miður. Starfsemi Landmælinga Íslands er mjög mikilvæg og ekki síst fyrir umhverfismálin. Í áætlanagerð í umhverfismálum er hlutverk Landmælinga Íslands mjög mikið og er raunar algjör undirstaða í öllum umhverfismálum. Ég get tekið sem dæmi starfsemi Landmælinga Íslands að því er varðar fjarkönnun sem er mjög mikilvæg og sérstaklega að því er varðar allt mengunareftirlit. Þeir eru að reyna að vinna í þessum málum. Ég tek það fram að ég ásaka ekki hv. fjárln. fyrir það að hafa ekki lagt til hærri upphæðir, það er fyrst og fremst umhvrn. sem þarna hefur ekki unnið sína vinnu að mínu mati eða alla vegna ekki lagt þær áherslur sem ég tel vera eðlilegar og ég tala nú ekki um varðandi allt skipulag sem skiptir auðvitað máli. Og kortagerð stofnunarinnar er mjög mikilvæg, ekki bara fyrir þessi atriði sem ég hef upp talið heldur einnig fyrir almenning í landinu, fyrir ferðamenn, fyrir þá sem eru að fara um fjöll og firnindi, sem auðvitað skiptir einnig miklu máli.
    Alvarlegasti niðurskurðurinn í tillögum umhvrn. er þó niðurskurður á svokallaðri DMA-kortagerð eða stafrænni kortagerð. ( Gripið fram í: Hvar eru ráðherrar?) Ráðherrar hafa sumir hverjir verið frekar lítið við hér en ég sá umhvrh. bregða fyrir fyrr í morgun. Ég vil hafa þennan formála að minni gagnrýni vegna þess að ég vil alls ekki ásaka fjárln. fyrir það sem hún á ekki skilið. Það er að segja, það er fyrst og fremst ráðuneytið sem þarna hefur ekki staðið sig, að mínu mati, og ég tek fram að það er mitt mat. Ég er ekki að vitna í umhvn. í heild sinni vegna þess að þetta ræddum við ekki sérstaklega heldur er þetta mitt mat sem ég er að lýsa.
    Í áliti umhvn. kemur fram á bls. 26, um Landmælingar Íslands að DMA-kortagerð er unnin samkvæmt samningi íslenska ríkisins við landmælingastofnun varnarmálaráðuneytis Bandaríkjamanna og segir orðrétt, með leyfi forseta, í áliti umhvn.:
    ,,Bandaríkjamenn verja talsverðu fé til þessa verkefnis og fyrir liggur að þeir munu halda verkinu áfram, enda þótt Íslendingar verði ekki aðilar að því. Það hefði þær afleiðingar að umrædd kort yrðu byggð á gömlum og jafnvel úreltum upplýsingum og væru því nánast ónothæf til dreifingar hér á landi. Forsvarsmenn Landmælinga fullyrða að þörf sé fyrir kort af þessari gerð hér á landi og óhjákvæmilegt verði að ráðast í gerð sambærilegra korta síðar. Fyrir liggur að það verk yrði a.m.k. fjórfalt dýrara en verk unnið á grundvelli umrædds samnings.`` --- Ég endurtek þetta: Það yrði fjórfalt dýrara. Þannig að það er mjög varasamt að spara með þessum hætti. --- ,,Fram kom að forsenda þess að Íslendingar fái staðið við sinn hluta samningsins er að Landmælingar Íslands fái fjárveitingu sem nemur 14 millj. kr. á ári næstu þrjú árin auk fjárveitingar til tækjabúnaðar sem nemur 12,7 millj. kr. Umhverfisnefnd telur mikilvægt að fjárveitingar til stofnunarinnar verði hækkaðar sem þessum fjárhæðum nemur þannig að unnt verði að ljúka verkefninu.``
    Það gladdi þess vegna hjarta mitt sérstaklega þegar sé sá að fjárln. hafði lagt til hækkun um 6 millj. kr. til stafrænnar kortagerðar, þ.e. tækjabúnaðarins, sem við höfðum að vísu lagt til að yrði 12,7 millj. Ég veit ekki hvernig það nákvæmlega kemur út, en það ætti að vera möguleiki á því að Landmælingar Íslands gætu komið sér upp þeim tækjabúnaði sem þarf til þess að taka þátt í þessu verkefni svo viðunandi sé. Ég fagna því að tillaga er gerð um að þessi liður hækki og auðvitað hljótum við öll sem erum í umhvn. að fagna því sérstaklega. En það verður auðvitað að vera hægt að nota tækin líka. Það verður að fást fé til þess að vinna með þessi tæki. Ég skora á hv. fjárln. milli 2. og 3. umr. að líta sérstaklega til þessa liðar, þannig að það sé mögulegt að standa við þennan samning sem Bandaríkjamenn og Íslendingar hafa gert. Þessi kort sem þarna er verið að gera eru mjög mikilvæg og þau munu verða gerð, þ.e. Bandaríkjamenn munu gera þessi kort, en þá bara eftir eigin höfði, þ.e. þau eru fyrst og fremst gerð í hernaðarlegu tilliti. Til þess að við getum notað kortin og það sé hægt að selja þau hér á landi þá þurfa Íslendingar að koma að þessu máli. Þau verða ónothæf Íslendingum ef við gerum þetta ekki. Ég legg því höfuðáherslu á að reynt verði að sjá til þess að hægt sé að vinna að þessu máli þannig að þetta verði ekki dýrara fyrir okkur þegar fram í sækir. Þannig munum við spara. Með því að veita fé í þetta núna þá munum við spara þegar til lengri tíma litið og það tel ég að sé mjög mikilvægt. Ég er viss um að fjárln. í heild sinni mun líta jákvætt á þetta mál miðað við það hvað tekið var vel undir það og setja fram tillögur um að auka fjárveitingu til þessa liðar um 6 millj. kr. Þess vegna fagna ég því að fram er komin tillaga á þskj. 340 frá hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifi Guttormssyni, um að Landmælingar Íslands fái þarna 14 millj. til þess að hægt sé að vinna að þessu máli. Ég er alveg sannfærð um að hægt er að sameinast um það að reyna að standa við þennan mikilvæga samning sem þarna var gerður að því er varðaði kortagerð á Íslandi. Þau kort sem þarna er um að ræða eru í mælikvarðanum 1:50.000 og það er byrjað á þessum kortum en þetta er spurningin um að ljúka vinnunni á næstu þrem árum.
    Ég vona því að hæstv. umhvrh. leggist á árar með umhvn. og fjárln. við að vinna að því að Landmælingar Íslands geti unnið starf sitt sómasamlega og þó sérstaklega að því er varðar þennan lið.
    Ég endurtek það að ég vonast til þess að fjárln. muni líta jákvæðum augum á þetta svo vel sem hún hefur litið á þennan lið til tækjakaupanna.
    Það er annað atriði sem ég vil benda á og því vil ég sérstaklega beina til fjárln. og varðar Náttúrufræðistofnun Íslands. Eins og fram kemur í áliti umhvn. þá gerum við ekki neinar beinar tillögur um hækkun þar. Við náðum ekki saman um það, enda ákváðum við að gera bara fáar tillögur og ekki vera með neinar frekari tillögur, enda var ekki samstaða í nefndinni um það. En ég vek athygli á því sem segir í áliti umhvn., en þar er tekið sérstaklega fram og bent á að samkvæmt 2. gr. laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, sem samþykkt voru 20. maí 1992 --- ég sé að það er prentvilla í þskj., þetta á að vera í 2. gr. þeirra laga þá segir, með leyfi forseta:
    ,,Stofnunin getur byggst upp á allt að fimm setrum sem hvert um sig hefur sjálfstæðan fjárhag.``
    Í athugasemdum við þessa grein á sínum tíma þegar frv. var lagt fram þá var tekið sérstaklega fram að það þýddi að það væri ætlast til þess að þetta yrði sér fjárlagaliður í fjárlögum. Umhvn. benti á þetta og leggur áherslu á, eins og segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Umhverfisnefnd leggur áherslu á að tekið verði tillit til þessara ákvæða við frágang fjárlaga.``
    Nú erum við aðeins við 2. umr. þannig að enn þá er tækifæri til að breyta þessu og vona ég að fjárln. taki tillit til þess við framsetningu þegar til 3. umr. kemur að ósk fjárln. og í raun lít ég svo á að það sé ákveðið með lögum nr. 60/1992. Þetta er það sem ég vildi taka fram að því er varðaði Náttúrufræðistofnun Íslands.
    Næst vil ég víkja að Skipulagi ríkisins, þ.e. aðeins einu atriði. Þann 7. maí á þessu ári samþykkti Alþingi breytingu á skipulagslögum þar sem ákveðið var að sett yrði á stofn samvinnunefnd til að gera tillögur að skipulagi miðhálendis Íslands. Þetta tel ég vera mjög mikilvægt mál, þ.e. að skipulag miðhálendisins komist í viðunandi horf. Það þarf varla að lýsa því fyrir þingmönnum hversu skipulag miðhálendisins hefur verið í miklum ólestri og nánast ekkert verið þar sem þyrfti þó að gera. Umhvn. lagði til að 2,5 millj. kr. yrði varið til þess að þessi nefnd gæti starfað og vil ég spyrja hv. formann fjárln. hvers vegna ekki hafi verið tekið tillit til þessarar tillögu umhvn. Hvort það hafi e.t.v. verið einhverjar upplýsingar sem ég hef ekki undir höndum eða umhvn., að því er varðaði það að ekki ætti að setja þessa nefnd á stofn eða það hafi skapast einhverjir fjármunir sem umhvn. er ókunnugt um sem ætti að setja í þetta verkefni. Þetta verkefni er mjög mikilvægt og samkvæmt þeim upplýsingum sem umhvn. fékk frá skipulagsstjóra þá vantar fé til þessarar nefndar.
    Þó að ég telji að fjárveitingar til Náttúruverndarráðs séu auðvitað allt of lágar og er þar fyrst og fremst, að mínu mati, við umhvrn. að sakast, þá lagði umhvn. ekki til neinar beinar tillögur um hækkun á þeim lið, en ég tel auðvitað að það sé allt of lágt. Ég tók einnig eftir að fjárln. gerir tillögu um að 10 millj. kr. þjónustugjöld sem átti að setja á innanlandsflug, að sá liður falli niður og er það vel. Ég held að það hafi verið óraunhæft að láta sér detta í hug að það væri hægt að innheimta þá upphæð og hefði getað komið niður á öryggi í innanlandsflugi, þannig að ég lít svo á að þarna hafi verið tekin skynsamleg ákvörðun.
    Ég vil taka það fram að fulltrúar minni hlutans í umhvn. töldu að það væri gert ráð fyrir allt of lágum fjárveitingum til umhvrn. í heild og vil ég lesa upp það sem fulltrúar stjórnarflokkanna í nefndinni létu bóka, með leyfi forseta:
    ,,Varðandi álit umhverfisnefndar um Landmælingar Íslands og Skipulag ríkisins leggja fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl. áherslu á að fjárln. leiti leiða til að standa við samningsbundnar skuldbindingar og lagafyrirmæli innan þeirra marka sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir.``
    Þetta vil ég taka fram til að forðast misskilning. Þeir lögðu ekki til að um hækkun yrði endilega að ræða á heildarliðum fjárlaga.
    Þar sem ég er fyrst og fremst að tala fyrir sjálfa mig þá nota ég tækifærið til að lýsa vonbrigðum mínum með að ekki skyldi tekið tillit til þess þegar umhvn. kemur í heild með tillögur til fjárln.
    Á sama tíma og ekki er séð til þess að Landmælingar Íslands fyrir hönd Íslendinga geti staðið við samning sem gerður er við Bandaríkin, að því er varðar stafræna kortagerð, þá er verið að gera samninga um ný verkefni, sem út af fyrir sig eru örugglega ágæt. Ég get tekið eitt dæmi um ný verkefni sem eru sett inn, sem meiri hluti fjárln. gerir tillögu um. Það er undir menntmrn., liður 201 eins og kemur fram í þskj. 325 bls. 2. Það er samstarfsverkefni við Vestmannaeyjabæ, 13,8 millj. kr. og þar af er miðað við að 12 millj. kr. séu ætlaðar til kaupa og endurbóta á húsnæði í Vestmannaeyjum. Ég er alveg viss um að þetta getur verið ágætis verkefni, en er nú alveg rétt að leggja þetta til af hálfu meiri hluta fjárln.?
    Ég veit og það segir í nál. meiri hluta fjárln. að þetta sé vegna samnings og auðvitað á maður að standa við samninga. En hvers vegna í ósköpunum á að hefja rannsóknir úti í Vestmannaeyjum, nýtt verkefni, þegar svo mörg verkefni eru óleyst? Hvernig í ósköpunum stendur á því að farið er að dreifa með þessum hætti rannsóknakröftum á sviði sjávarútvegs, eins og það er nú mikilvægt? Ég vil benda á það að t.d. Háskólinn á Akureyri ætlaði að hasla sér völl á þessu sviði. Það var lögð áhersla á það að sjávarútvegsbraut Háskólans á Akureyri yrði efld. Hvað var gert hér í fyrra? Jú, það var sett á stofn prófessorstaða við Háskóla Íslands, sem er út af fyrir sig ágætt mál, en af hverju er ekki lögð áhersla á einhverja verkaskiptingu úr því að við erum með tvo háskóla? Ég verð að viðurkenna að ég setti á sínum tíma ákveðið spurningarmerki við það að stofna háskóla á Akureyri. Nú erum við komin með hann og þá eigum við að efla hann. ( SigG: Það eru miklu fleiri en tveir háskólar í landinu.) Úr því að hv. formaður fjárln. segir að það séu fleiri en einn háskóli í landinu, þá vil ég taka það fram að ég geri greinarmun á skólum á háskólastigi og háskólum sem starfa eins og akademía, þ.e. háskólar sem þurfa að stunda rannsóknir og eru æðri menntastofnanir á sama hátt og ég tel að Háskóli Íslands eigi að vera. Og ég tel að mikilvægt sé, ef við erum með háskóla á Akureyri, að hann geri það líka. Ég tel allt annað mál hvort við erum með svokallaða framhaldsskóla eða skóla á háskólastigi, sem er allt annar handleggur. Þannig að ef við Íslendingar ætlum að dreifa rannsóknakröftum okkar eins og við erum að gera núna þá getur það ekki bara komið niður á okkur sjálfum heldur kemur það líka niður á allri samvinnu okkar við erlenda háskóla. Ég hef stundað rannsóknir í lífeðlisfræði við Háskóla Íslands. Við vorum mjög fá, en vorum þó öll á sama stað. Þannig að það er mjög mikilvægt að dreifa ekki rannsóknakröftum á Íslandi allt of mikið. Ég skora því á hv. fjárln. að endurskoða þessa tillögu sína, draga hana til baka til 3. umr. alla vega og endurskoða hvort ekki sé rétt að verja þessum fjármunum á skynsamlegri hátt en hérna er verið að leggja til. Það getur vel verið að Háskóli Íslands hafi lagt þetta til og vilji hafa þetta sem forgangsverkefni, en ég á ákaflega erfitt með að trúa því að þetta hafi verið forgangsverkefni af þeirra hálfu. En allt í lagi, ef þeir hafa gert það þá finnst mér að við eigum að taka fram fyrir hendurnar á þeim og segja: Þetta er ekki sú stefna sem við viljum fylgja, það er miklu skynsamlegra að reyna að efla það rannsóknastarf sem við höfum nú þegar á sviði sjávarútvegsmála, eins og ég tel það mikilvægt.
    Ég tel að með þessu lagi sem hér er verið að leggja til, þá séum við í raun að skemma fyrir. Með því er ég ekki að draga úr mikilvægi Náttúrugripasafnsins í Vestmannaeyjum og hvernig hægt væri að nota það á ýmsan hátt. En eins og ástandið er núna þá verðum við að setja okkur ákveðna forgangsröð, við höfum ekki peninga í allt. Sérstaklega ekki í rannsóknaþáttinn.
    Þetta vil ég segja við formann fjárln. sem sagði að við yrðum að hafa einhverja ákveðna forgangsröð og ættum ekki að reisa okkur hurðarás um öxl. Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að þegar við erum búin að setja á stofn rannsóknarstöðu og stofnun á einum stað í viðbót, þá kostar það auðvitað rekstur áfram. Þetta er ekki bara einu sinni, þetta þýðir áframhaldandi fjárútlát. Mér finnst mjög mikilvægt að við tökum þetta í heild, þ.e. Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Og hvað ætlum við að gera með rannsóknir í landinu?
    Ég skora enn og aftur á fjárln. að skoða þessi mál vel og vandlega milli 2. og 3. umr.
    Áður en ég lýk umfjöllun minni um þetta þá ætla ég að endurtaka að ég lýsi ánægju minni með þá hækkun sem fjárln. gerði tillögu um, hækkun á fjárlagalið til stafrænnar kortagerðar og tækjakaupa. En ég vil enn og aftur vekja athygli á því að þetta verður að vera ljóst, við verðum að passa að við getum staðið við þennan samning og reynum þá frekar að ljúka þeim verkefnum sem við erum búin að taka að okkur, þetta er þriggja ára verkefni, og byrjum ekki á nýjum og verðum svo með hálfkák alls staðar.
    Virðulegi forseti. Ég get ekki stigið úr stólnum nema að minnast á aðeins eitt atriði er varðar fjárlagaliði til Reykjavíkur. Það var þannig að í pósthólf mitt kom bréf, að ég held á mánudaginn var, sem var merkt ,,Áríðandi`` og innihélt blöð að því er varðaði fjárlagatillögu til Reykjavíkur. Ég vissi því miður aldrei hver sendi mér það plagg, en ég átti von á því að við þingmenn Reykjavíkur yrðum kölluð saman til þess að fjalla um fjárlagatillögur til Reykjavíkur, en svo varð því miður ekki. Þess vegna lagði ég blað til formanns fjárln. og reyndar 1. þm. Reykv., sem er hæstv. forsrh. Ég gerði það að vísu mjög seint vegna þess að ég gerði mér ekki grein fyrir að við mundum ekki fjalla um þessa tillögu, þannig að tillögur meiri hluta fjárln. komu fram stuttu eftir að ég afhenti bréfið. En það vakti hins vegar athygli mína og því vil ég beina til fjárln. að varðandi viðhald framhaldsskóla í Reykjavík þá er allt of litlu fé varið til þess liðar. Og það sem vekur sérstaka athygli mína er að t.d. Iðnskólinn í Reykjavík er ekki einu sinni á blaði. Ég skil ekki

af hverju. Ég á mjög erfitt með að skilja hvernig stendur á því að Iðnskólinn í Reykjavík, sem er búinn að berjast í bökkum hvað varðar þennan lið í mörg undanfarin ár, er ekki á blaði. Það er búið að vera erfitt fyrir þá að fá nægilegt viðhaldsfé. Þeir hafa fengið af óskiptum lið frá ráðuneytinu, alla vega í fyrra og ég held reyndar áður líka, en núna er skólinn ekki á blaði. Á sama tíma er lagt til að til skóla í Borgarholti, sem er nýr skóli, verkmenntaskóli, sem ég tel mjög af hinu góða, verði sett 121 millj. í byggingarframkvæmdir þar. En væri ekki eðlilegt að það yrði tekið eitthvert fjármagn í að halda við þeim skóla sem er svo mikilvægur að því er varðar verknám, áður en við förum að byggja nýjan? Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að sá skóli mun ekki taka til starfa fyrr en kannski 1998, eða eftir 3--5 ár, og þess vegna verður að reyna að gæta þess að það sé búið þannig að Iðnskólanum að hann geti sinnt þeirri kennslu sem honum ber, svo mikilvæg sem hún er.
    Ég vil einnig vekja athygli á því að tækjakaupafé Iðnskólans er allt of lítið. Þetta er mjög mikilvægur skóli sem hefur yfir 50 verkstæði og verknámsstofur og þeir fá ekki nema 8,8 millj. til að kaupa tæki og búnað á næsta ári, en tveir aðrir skólar, bóknámsskólar, sem eru með álíka nemendafjölda fá 5,4 millj. kr. Ég tel að þetta séu rangar áherslur og tel mjög mikilvægt að fjárln. líti á það hvort ekki sé rétt annaðhvort að hagræða þarna eitthvað eða það sem væri best, að reyna að fá aukningu til Iðnskólans. Ég sé að það eru fleiri skólar, ég tek það fram, sem ekki eru með neitt viðhaldsfé. En ég tek þennan sérstaklega út sem dæmi vegna þess að verið er að leggja til að byggður verði nýr verknámsskóli.
    Ég hef einnig ýmsar athugasemdir við heilsugæsluna í Reykjavík, en þar sem ég tel það miklu flóknara og stærra mál og kannski eðlilegra að þingmenn Reykjavíkur í samráði við yfirvöld borgarinnar færu ofan í þau mál nánar, þá ætla ég ekki að gera þau að umtalsefni. Ég vil bara gera athugasemd við það að gert sé ráð fyrir lækkun um 1 millj. til heilsugæslu í Reykjavík, þ.e. úr 21 millj. í 20 millj., sem ég sá á því blaði sem ég hef undir höndum. Þetta vil ég gera athugasemd við, en að öðru leyti ætla ég ekki að gera athugasemdir við fleiri liði að svo komnu máli.