Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 19:18:14 (2455)


[19:18]
     Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigbjörn Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka formanni umhvn. sem og öðrum nefndarmönnum fyrir afar vel unnið álit sem barst fjárln. og þar var farið yfir álitið. Þar eru frómar óskir eins og flestar þær óskir sem til nefndarinnar berast. Ég vil hins vegar vekja athygli á að það er ekki mögulegt að verða við öllum þeim óskum sem til okkar berast, því miður, en tekjurammi sá sem skapaður er, þær tekjur sem reikna má með að ríkissjóður hafi yfir að ráða hljóta að ráða útgjöldum næstu ára. Ég vil hins vegar taka undir það að það er afar brýnt, bæði á sviði umhverfismála sem og annars staðar, að forgangsraða verkefnum og á það tel ég hafa skort og kom reynar að þeim atriðum í ræðu minni fyrr í dag.
    Varðandi Landmælingar Íslands þá vil ég vekja athygli á texta á bls. 356 í grg. með fjárlagafrv. þar sem segir um Landmælingar: ,,Lækkun stafar af því að umfangsmiklum tilraunaverkefnum í stafrænni kortagerð lýkur á yfirstandandi ári. Nú er unnið að framtíðarstefnumörkun á þessu sviði í umhvrn. Áhersla er lögð á að þeir aðilar sem sjá sér hag í þessari þjónustu fjármagni uppbyggingu hennar.``
    Ég vil hins vegar einnig benda á að meiri hlutinn leggur til nokkra hækkun við þennan fjárlagalið, eins og fram hefur komið, og í samtali við forstöðumann stofnunarinnar hefur hann tjáð mér að hann muni geta haldið þessari starfsemi gangandi fyrir þessa fjármuni. Það er óskandi að mögulegt hefði verið að gera betur en svo var ekki.