Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 21:21:34 (2461)


[21:21]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Ég skal svara því. Það kom fram á einhverju stigi fjárlagavinnunnar að í Bandaríkjunum hefði verið, ef ég man rétt, nú gæti kannski einhver fjárlaganefndarmaður hjálpað mér, mig minnir að það væri um 90.000 dollarar sem hefðu verið þar á reikningi vegna sölu einhverra eigna og við gerðum ósköp einfaldlega athugasemd við það að þetta kom hvergi fram á reikningum. Það er akkúrat það sem ég var að tala um, það kom ekki fram. Auðvitað hafa sendiráðin eins og gefur að skilja fé inni á bönkum í smærri stíl þó ekki væri nema rekstrarfé sendiráðanna. En þarna var um að ræða umtalsverða upphæð sem okkur þótti kyndugt að ekki skyldi koma fram. Ég veit að hv. 2. þm. Austurl. man þetta betur en ég. Það var það sem ég átti við. En fyrst og fremst var ég að tala um það reiðileysi sem hefur ríkt í málefnum sendiráðanna, menn vita ekki frá degi til dags hvort sendiráð er á þeim stöðum þar sem þeir eru staðsettir. Þessu er umturnað án samráðs við það fólk sem best þekkir til þannig að öll sú starfsemi einkennist af sérkennilegri hentistefnu sem enginn skilur og enginn hefur fengið neinn botn í, satt að segja. Og ef ég man rétt voru yfirlýsingar hæstv. utanrrh. í garð sendiráðsfólks með slíkum endemum, alla vega í upphafi ferils hans, að flestir Íslendingar hneyksluðust.