Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 21:57:01 (2465)


[21:57]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er alveg rétt að það tekur langan tíma að byggja upp háskólastofnun og þess vegna þurfum við að einbeita okkar fjármagni að því sem við erum að gera á hverjum tíma en ekki dreifa því um of. Hv. þm. sagði að þetta tæki langan tíma en ég sé hins vegar hvernig á að stytta sér leið til þess að skapa hinn vísindalega grunn í þessari rannsókna- og þróunarstarfsemi í Vestmannaeyjum, því að í viljayfirlýsingu um þetta verkefni segir, með leyfi forseta, um hvernig stjórnin sé skipuð á þessari stofnun. Frá Vestmannaeyjum eiga sæti fulltrúi Vestmannaeyjabæjar, einn fulltrúi Rannsóknastofnana og Náttúrugripasafns Vestmannaeyja og einn fulltrúi frá fiskvinnslu og útgerð. Frá Háskóla Íslands eiga sæti fulltrúar Líffræðistofnunar, Sjávarútvegsstofnunar og einn fulltrúi tilnefndur af háskólaráði. Og svo kemur, virðulegur forseti, hvernig á að stytta sér leið að hinum vísindalega grunni og hinu akademíska starfi: Stjórnin hefur samráð við Árna Johnsen alþingismann. Ég hygg að það sé algert einsdæmi að í plaggi sem þessu sé sett inn klásúla sem hér er og ber nú satt best að segja ekki vott um mjög vísindaleg vinnubrögð.