Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 23:15:23 (2471)


[23:15]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Nú gerast þau undur og stórmerki að hv. 1. þm. Vesturl. gengur í salinn og er nokkuð vel á sig kominn. Í ljósi þeirrar staðreyndar vil ég beina þeim tilmælum til hæstv. forseta hvort svo sé ástatt með hv. formann fjárln. að hann treysti sér til að ganga í þingsalinn. Það væri mér mikill heiður ef hæstv. forseti kæmi þeim boðum á framfæri því það er nú einu sinni svo að slíkt var flugið í upphafi hans ræðu, þegar hann talaði fyrir þessum brtt., að ég vissi ekki í fyrstu hvort það væri alheimsstjórn sem væri tekin við í salnum, en áttaði mig þó á því að í þeim málflutningi var ekkert minnst á Sómalíu og fannst mér það undarlegt miðað við þá staði alla aðra sem komið var við á.
    Það er nefnilega dálítið merkilegt að þegar ríkisstjórn Íslands leggur fram frv. til fjárlaga með 10 milljarða halla, þá treystir hún því að íslenska þjóðin greini það ekki hvaða tölu er verið að tala um. Að íslenska þjóðin átti sig ekki á því hvað 10 milljarðar eru mikið. Það hefur að vísu komið í ljós að þó Íslendingar séu vel læsir, eins og kom fram í könnuninni með börn í barnaskóla, að þá skortir á að einu leyti og það er að íslensk ungmenni læri að lesa úr tölum og línuritum. Og það er einmitt þegar verið er að birta slíkar tölur, eins og 10 milljarða, sem máli skiptir hvort menn skynja línurit eða ekki.
    Það stendur til að bora göng undir Hvalfjörð. Sumir eru sannfærðir um að það sé besta lausnin. Og þau göng koma ekki inn í íslensk fjárlög. Fyrirtæki í eigu ríkisins hafa ákveðið að leita eftir því að þau göng verði skrifuð hjá þeim. Grundartangaverksmiðjan og Sementsverksmiðjan eru þar inni og íslenska ríkið var fyrir stuttu síðan að leggja 200 millj. hlutafé í Grundartangaverksmiðjuna. Ég taldi það sýna jákvætt viðhorf hjá íslenska ríkinu til þessarar verksmiðju og atvinnulífsins í landinu. En þessi ríkisstjórn hefur ákveðið að láta skrifa hjá sér þrenn Hvalfjarðargöng og hún er búin að láta skrifa hjá sér átta Hvalfjarðargöng þann tíma sem hún hefur stjórnað. Á tveimur árum, átta Hvalfjarðargöng. Hvalfjörður er eins og gatasigti eftir núverandi ríkisstjórn ef skuldir hennar eru skoðaðar. Þó huga þeir líka að smámununum því að í fjárlagafrv. núna er gert ráð fyrir smáfjárveitingu í brtt. til að taka á móti ísbirninum þegar umhvrh. sendir hann vestur. Náttúrugripasafn fyrir Vestfirði, móttökunefnd til að taka á móti ísbirninum, smáfjárveiting í brtt.
    Ég verð að segja eins og er að sú ríkisstjórn sem kinokar sér ekki við að leggja til 10 milljarða fjárveitingu, er annaðhvort orðin tilfinningalega sljó, skilningslega sljó, eða þá að ósvífnin er slík að undrun sætir.
    Nú er það svo að í núv. ríkisstjórn eiga sæti samtals fjórir fjmrh., hvorki meira né minna. Þar skal fyrstan frægan telja núv. iðnrh. og viðskrh. Þar skal frægan telja núv. sjútvrh. og dómsmrh. og þar skal frægan telja núv. utanrrh. og að síðustu þann sem situr í stólnum, hæstv. fjmrh. Því það er nefnilega tímabært að þau verði notuð, orðin sem Churchill notaði forðum: ,,Tómur leigubíll kom niður að þinghúsinu og út úr honum steig Attlee.`` Það er nefnilega enginn munur á því hvort hæstv. fjmrh. situr í stólnum eða ekki. Það dugði þessari þjóð lengi vel að hafa einn fjmrh. í ríkisstjórn, sá hét Eysteinn Jónsson, og passaði upp á það að þjóðin eyddi ekki um efni fram. Skuldum ríkisins yrði ekki safnað fyrir næstu kynslóð að greiða. Þeir eru fjórir núna og hver er stefnan?
    Ég vil, með leyfi forseta, víkja að þeim ræðum sem þessir menn hafa flutt. Ég ætla að hlífa einum. Ég ætla að hlífa hæstv. viðskrh. við því að lesa upp úr hans ræðu á þeim tíma þegar hann var fjmrh., enda vita allir að þessa stundina er hann að leita að voldugum öflum í þjóðfélaginu. Hann er í gervi Sherlock Holmes að leita að voldugum öflum í þjóðfélaginu, öflunum sem ekki taka mark á því þegar hann skammar þau, öflunum sem ekki taka mark á því þegar handleiðslu er beitt, öflunum sem virðist ekki einu sinni duga handayfirlagning til þess að þau fari að vilja hæstv. viðskrh. Undir slíkum kringumstæðum er ekki skrýtið þó hæstv. umhvrh. fái sér sæti í stól frammi í sal og hætti ekki á það að vera í ráðherrastól, e.t.v. dytti hæstv. viðskrh. í hug að halda að völdin lægju þar.
    Hæstv. núv. sjútvrh.- og dómsmrh. talaði fyrir fjárlögum og ætla ég að lesa hér upp örlítinn kafla úr þeirri ræðu sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Fjárlög eru ein veigamesta undirstaða í efnahagsstjórn ríkisins. Niðurstöðutölur þeirra í heild og einstökum atriðum hafa ómæld áhrif á allt gangverk þjóðlífsins. Þau snúa sér ekki einvörðungu að efnahagsstarfsemi í þröngri merkingu þess orðs. Fjárlög ríkisins eru með beinum og óbeinum hætti hluti af heimilishaldi hverrar einustu fjölskyldu í landinu og hvers einstaklings. Í þeim er fólgin engu minni fjölskyldupólitík en efnahagspólitík, ef menn vilja greina viðfangsefnið þannig sundur. Afgreiðsla fjárlaga á Alþingi markar því hverju sinni ákveðin þáttaskil. Fjárlög eru allt í senn, spegilmynd af efnahagslegum aðstæðum, ákvörðunum fyrri þinga og pólitík þeirrar ríkisstjórnar er í hlut á. Þannig eru fjárlögin mikilvægur áttaviti.`` --- Takið eftir, fjárlögin eru mikilvægur áttaviti segir hæstv. sjútvrh.- og dómsmrh. --- ,,Fólkið í landinu, atvinnufyrirtækin eiga að geta ráðið nokkuð af þeim hvert stefnir, tekið ákvarðanir um eigin fjárhagsmálefni með tilliti til þess. Nauðsynlegt er að slíkur áttaviti taki rétt mið af umhverfi öllu og aðstæðum.``
    Hvert skyldi núverandi áttaviti benda örinni? Norður og niður, hæstv. umhvrh.
    Ég ætla að taka hér næstu fjármálaræðu sem hæstv. sjútvrh.- og dómsmrh. flutti. Ég vona að ég sé ekki vændur um það að velja óhagstæða kafla úr þeim ræðum sem ég er hér að vitna í. Ég hef reynt samviskusamlega að finna það gáfulegasta í þessum texta.
    Herra forseti. Þessi fjárlagaræða var við fjárlögin 1987 og vil ég lesa hér örstuttan kafla, með leyfi forseta:
    ,,Ég hef kosið að draga fram í þessari ræðu þau atriði og þær meginlínur sem mestu máli skipta í ríkisbúskapnum og huganlega er pólitískur ágreiningur um. Fjárlög eru ekki ein saman talnabálkur, þau eru miklu fremur umgjörð mannlífs og menningar í landinu, en umfram allt eru þau hluti af þjóðarbúskapnum og hafa að því leyti mikil áhrif á framvindu efnahagsmála. Það mikilvægasta við fjárlagafrv. er þetta. Það skilar okkur verulega áleiðis að hallalausum ríkisrekstri, þótt því marki verði ekki náð á næsta ári.``
    Á næsta ári. Hvenær er þetta sagt? 1987. Skyldi nú næsta ár vera komið, herra forseti? Skyldi næsta ár á eftir vera komið eða hvenær kemur næsta ár? Er það kannski með næsta ár eins og morgundaginn? Hann kemur aldrei vegna þess að þegar sá dagur kemur, þá er það líka dagurinn í dag. Er það þannig sem hæstv. ráðherra hugsaði þetta næsta ár?
    Með leyfi forseta, vil ég halda áfram lestrinum:
    ,,Það tryggir jafnframt heldur minni þátt hins opinbera í þjóðarbúskapnum og veitir öðrum þar með meira svigrúm. Jafnframt markar það þau mikilsverðu þáttaskil að opinberir aðilar eru nú í fyrsta skipti í áraraðir að grynnka á erlendum skuldum. Þjóðhagsstofnun gerir einnig ráð fyrir að jöfnuður eða því sem næst geti náðst í viðskiptum við önnur lönd á næsta ári. Með minnkandi halla er þannig stefnt að áframhaldandi jafnvægi í efnahagsmálum.

    Þetta frv. er ekki dæmigert fyrir fjárlagafrumvörp sem lögð eru fram á síðasta vetri fyrir kosningar. Í því eru engin ábyrgðarlaus yfirboð, hvorki útgjalda- né teknamegin. Ég ætla að láta stjórnarandstöðunni eftir að mæla fyrir ábyrgðarleysi sínu. Það er létt verk en ekki að sama skapi merkilegt að æsa upp nýjar útgjaldakröfur og kalla á skattalækkanir sem ekki er möguleiki á að hrinda í framkvæmd við núverandi aðstæður. En stjórnmálamenn og ríkisstjórnir verða á endanum dæmdar af verkum sínum. Þessi ríkisstjórn hefur á ferli sínum gætt aðhalds, án þess að reiða öxina til höggs og þetta frv. endurspeglar þau sjónarmið.``
    Það eru tvö atriði í þessum texta sem rétt er að höggva eftir. Annað er það að hæstv. sjútvrh.- og dómsmrh. gerir ráð fyrir því að á kosningaári megi eiga von á ábyrgðarlausum fjárlögum, það sé reglan. Samkvæmt þessu getur íslenska þjóðin ekki vænst þess að fjárlög næsta árs verði með meiri ábyrgð en þau fjárlög sem nú eru. Það er sá kaldi veruleiki sem blasir við að í vor eru sveitarstjórnarkosningar. Er það þess vegna sem hallinn er boðaður svo hrikalegur sem hann er? Er verið að segja að íslenskir stjórnmálamenn séu svo huglausir að þeir þori ekki að gera það sem þeir vita að er rétt þegar fer að nálgast kosningar.
    En það kemur fram í þessari ræðu, sem allir vita, að minnkandi halli ríkisútgjaldanna er nauðsyn. En hafi hún verið nauðsyn 1987, hver er þá nauðsynin nú miðað við þá siglingu sem verið hefur?
    Herra forseti. Ég ætla að yfirgefa tímabil hæstv. núv. dómsmrh. sem fjmrh. Hann náði aldrei að gera drauma sína að veruleika. Hann náði því aldrei sem hann ætlaði sér og boðaði.
    En víkjum að næsta. Það var hæstv. utanrrh. sem tók við, Jón Baldvin Hannibalsson. Og það verður að segjast eins og er að ég efa að öllu þykkari fjárlagaræða finnist í þingtíðindunum. Hér hefur ekki skort orðagnótt til að tala fyrir þeim texta sem átti að gera að lögum. Ég ætla að hlífa þingi og þjóð við því að lesa upp nema það sem mér sýnast vera sérstakir kjarnakaflar í þeim texta sem ég hef hér fyrir framan mig.
    Herra forseti. Þessi texti er úr umræðum um fjárlög 1988:
    ,,Að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum á næstu þremur árum en vegna vaxandi útgjaldaþenslu seinustu mánuði er nauðsynlegt að herða tökin og stíga þetta skref til fulls þegar á næsta ári eins og boðað er. Að ljúka heildarendurskoðun á tekjuöflunarkerfi ríkisins fyrir mitt kjörtímabil þannig að skattkerfið verði einfaldara, réttlátara og skilvirkara.``
    Hér var ekkert hik. Hlutirnir skyldu framkvæmdir. Þrjú ár, hvaða ár skyldi það nú vera sem hann taldi í síðasta sinn að ætti að vera hallalaus fjárlög sem hæstv. ráðherra kæmi nálægt? Er það ekki 1991? Það virðist hafa tognað úr því ári allharkalega. Hæstv. ráðherra virðist hafa farið yfir áramót tvisvar án þess að átta sig. Það hefur aldeilis verið glaumur og gleði ef það getur gerst án þess að menn fylgist með því að nýtt ár byrji. En það er fleira í þessari gagnmerku ræðu og þó eru hinar blaðsíðurnar miklu fleiri, herra forseti, sem ég tel ástæðulaust að hér séu lesnar upp. Hér segir, með leyfi forseta:
    ,,Næstu skref í endurskoðun laga um tekjuskatt og eignarskatt eru annars vegar lagaákvæði um eignartekjur og hins vegar ákvæði um skattlagningu fyrirtækja. Unnið er að undirbúningi í báðum þessum málaflokkum, en nokkuð er enn í land að tillögur liggi fyrir. Eignatekjur einstaklinga eru samkvæmt núgildandi lögum að verulegu leyti undanþegnar tekjuskatti. Tekur það til vaxta, affalla og gengishagnaðar af innstæðum í bönkum og sambærilegum stofnunum, svo og af verðbréfum, víxlum og sambærilegum kröfum. Einnig er arður af hlutabréfum skattfrjáls hjá móttakanda að ákveðnu marki auk þess sem arðgreiðslan er frádráttarbær hjá fyrirtækinu einnig að vissu marki. Enn fremur eru kaup á hlutabréfum að tiltekinni fjárhæð frádráttarbær frá skattskyldum tekjum. Þessar reglur íslenskra skattalaga eru mjög verulega frábrugðnar þeim sem almennt eru ríkjandi hjá grannþjóðum okkar. Aðrar tekjur sem eru í eðli sínu eignatekjur að fullu eða að hluta til eru hins vegar skattlagðar að fullu, svo sem leigutekjur, ýmsar arðgreiðslur, söluhagnaður o.fl. Endurskoðun á skattlagningu eignatekna mun óhjákvæmilega snerta mjög skattlagingu eigna, skattlagningu fyrirtækja og skattlagningu einstaklinga með rekstur. Meginsjónarmið við umfjöllun eignatekna er að meðhöndla allar tekjur eins án tillits til þess hvaðan þær koma. Slík sjónarmið stangast hins vegar á við sjónarmið þeirra sem vilja nota þennan þátt skattanna til þess að þjóna öðrum markmiðum en tekjuöflun, svo sem að hvetja til sparnaðar eða örva eignamyndun í einu formi fremur en öðru. Þessi sjónarmið þarf að vega og meta, bæði með tilliti til þess hvort skattkerfið hafi í þessu efni raunveruleg áhrif þegar litið er til langs tíma og með tilliti til þess hvort þau áhrif eru þess virði sem þau kosta, bæði í sköttum sem taka þarf þá með öðrum hætti og með flóknara skattkerfi þar sem hætta á skattaívilnunum er meiri en ella væri. Verði farið út í almenna skattlagningu eignatekna að hætti flestra grannþjóða okkar verður ekki undan því vikist að koma á upplýsingamiðlun frá bönkum og öðrum fjármálastofnunum, svo og öllum sem versla með hvers lags verðbréf og fasteignir til skattyfirvalda og mætti þar gjarnan fara að bandarískum hætti. Án slíkra upplýsinga yrði öll skattheimta af þessu tagi óörugg og eftirlit óframkvæmanlegt.
    Ákvæði skattalaga um fyrirtæki eru í endurskoðun. Um þau gilda að mörgu leyti sömu meginsjónarmið og um skattlagningu einstaklinga, þ.e. að undanþáguákvæði, sérreglur og misræmi veldur erfiðleikum í framkvæmd og takmarkar möguleika til virks eftirlits. Auk þess sem skattaákvæði um fyrirtæki í heild er í endurskoðun eru tiltekin atriði í sérstakri athugun, m.a. með tilliti til þess hvort rétt sé eða e.t.v.

nauðsynlegt að gera á þeim breytingar áður en að hinni almennu endurskoðun kemur. Að hluta til er um að ræða atriði sem tengjast þeirri breytingu sem gerð hefur verið á skattlagningu einstaklinga en önnur eru þess eðlis að ekki er í sjálfu sér þörf á að bíða heildarendurskoðunar.
    Eitt þeirra atriða sem snerta skattlagningu einstaklinga er skatthlutfall fyrirtækja. Jaðarskattur fyrirtækja er nú 51%. Mismunur á því hlutfalli og því sem einstaklingur greiðir af jaðartekjum sínum er orðinn of mikill og getur leitt til tekjutilfærslna sem byggjast eingöngu á skattalegum forsendum. Til athugunar er að lækka hlutfall þetta jafnframt því að felld yrðu niður skattfríðindi framlaga í varasjóð og fjárfestingarsjóð og útborgun arðs.
    Af öðrum atriðum sem eru í sérstakri athugun má nefna afskriftareglur og flýtifyrningar, tap á útistandandi viðskiptaskuldum og mat á vörubirgðum. Enn fremur einkaneysla og fríðindi eigenda og starfsmanna sem látin eru í té á kostnað fyrirtækja, draga úr skattgreiðslum þessum og eru ekki talin njótendum til tekna. Stefnt er að því að hluti þessara breytinga geti tekið gildi á næsta ári og jafnframt verði þá ekki séð til þess að þær auknu tekjur af sköttum fyrirtækja sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir skili sér.
    Ónefnt er eitt mál tengt skattareglum fyrirtækja þar sem eru fjármunaleigur. Sýnt þykir að uppgangur slíkra fyrirtækja á síðustu mánuðum stafi a.m.k. að hluta til af því að þjónusta þeirra er boðin og seld á þeim forsendum að notandinn hafi af því verulegt skattahagræði hvort sem það hagræði er til lengdar og aðeins í bráð, þ.e. skattfrestun. Er óeðlilegt að skattfríðindi séu notuð sem söluvara og þessu formi fjárfestingar gert hærra undir höfði en öðru. Hins vegar á ekkert heldur að mismuna gegn þeim.``
    Það vantar ekki að hér brenna hugsjónaeldar jafnaðarmennskunnar á fullu. En hverjar eru efndirnar? Hverjar eru efndirnar á þessum yfirlýsingum sem hér eru settar fram? Hafa menn orðið varir við að þetta væri framkvæmt? ( Gripið fram í: Brunarústirnar, maður.) Það eru brunnar rústir, hugsjónirnar hafa verið settar í ruslafötuna en hæstv. ráðherrann situr í stólnum.
    Með leyfi forseta vil ég halda hér áfram lestrinum: ,,Söluskatturinn er nú 25%. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að freistingin til undandráttar frá þessum skatti sem er svo hár er allnokkur og er rétt að rifja upp að smá voru skrefin í fyrstu þegar menn lögðu á viðreisnarárum á 3% söluskatt. Við þetta bættist að undanþágur frá skattinum eru svo fjölskrúðugar að eftirlit með innheimtu og jafnvel álagningu þessa skatts er illframkvæmanleg. Undaþágur frá sköttum eiga vafalaust flestar rétt á sér þegar þröngt er skoðað hver einstök fyrir sig. Það er hins vegar mannlegt að leita að smugum í skattkerfinu. Undanþágufarganið og smugurnar verða um síðir svo margar og flóknar að brestir myndast í skattkerfinu í heild. Þannig er fyrir löngu komið fyrir söluskattskerfinu. Við þetta bætist að vegna uppsöfnunaráhrifa söluskatts er kerfið orðið dragbítur á framþróun og verkaskiptingu í atvinnulífi og á viðskipti milli landa og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Brestir núverandi söluskattskerfis eru svo alvarlegir og ágallarnir svo augljósir og svo miklir að ekki er um annað að ræða en byggja upp nýtt kerfi og taka upp virðisaukaskatt.
    Virðisaukaskattur hefur á síðustu árum og áratugum verið tekinn upp í flestum löndum Vestur-Evrópu. Kostir þessa skattkerfis eru einkum þeir að skatturinn er hlutlaus gagnvart atvinnurekstri og neysluvali. Hann hvorki ívilnar eða íþyngir einstökum aðilum. Frv. til laga um virðisaukaskatt hefur þrívegis verið lagt fyrir Alþingi en ekki náð fram að ganga. Efnisleg umfjöllun um málið hefur hins vegar verið lítil á stundum, m.a. á seinasta þingi þegar frv. þessa efnis var lagt seinast fyrir. Þá sættu umfang og eðli hliðarráðstafana verulegri gagnrýni sem og skatthlutfallið sem þá var ráðgert 24%. Við undirbúning málsins er nú byggt á fyrra frv. en miðað við að skatthlutfallið verði mun lægra eða á bilinu 21--22% og verði 0,5--1% lægri en skatthlutfall í söluskatti. Upptaka virðisaukaskatts markar þriðja og síðasta skrefið í umskipan söluskattskerfisins samkvæmt verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar.``
    Það fer ekki á milli mála að hæstv. ráðherra hafa verið ljósir gallarnir á söluskattskerfinu og þeim ótal smugum sem þar voru. En hvað er hæstv. ríkisstjórn að gera? Er hún að loka smugunum í virðisaukaskattskerfinu eða er hún að opna þær? Hvort er hæstv. ríkisstjórn að gera? Eru hugsjónirnar settar í ruslaföturnar, það sem hæstv. ráðherra taldi rétt? Er það sett í ruslafötuna en það framkvæmt sem þarf að framkvæma til að mega sitja í stólnum? Er það staða málsins? Það er svo sannarlega staða málsins. Kaupgjald gæfunnar virðist vera það að allt það sem hæstv. ráðherra hefur sagt varðandi skattamál og ríkisfjármál hefur verið sett í ruslafötuna til þess að ráðherra mætti sitja í stólnum. Með leyfi forseta ætla ég að lesa hér örlítið áfram:
    ,,En ríkisstjórnin væntir þess að öðru leyti að gott samstarf megi takast við aðila vinnumarkaðarins um undirbúning þessara ráðstafana. Í þessu sambandi kemur auðvitað sérstaklega til athugunar lækkun skatta í staðgreiðslukerfi`` --- lækkun skatta í staðgreiðslukerfi, taki menn eftir, ,,hækkun barnabóta og barnabótaauka sem eru tekjutengdar og persónuafsláttur af. Með staðgreiðslukerfinu opnast nýir möguleikar til tilfærslna til þeirra sem við rýrust kjör búa. Tekjutilfærslur um kerfi óbeinna skatta til tekjulágra þjóðfélagshópa munu alltaf missa marks að stórum hluta. Miklu vænlegra er að slíkar tilfærslur fari fram um tekjuskattskerfið eða fjölskyldubætur.``
    Hafa menn orðið varir við það að tekjuskatturinn á einstakingunum væri lækkaður í landinu? Hafa menn orðið varir við það að þetta væri framkvæmt? Hvert einasta atriði í þessum hugsjónum sem hér koma fram hefur verið sett í ruslafötuna til þess að mega sitja í stólnum.

    Herra forseti. Ég á stutt eftir ólesið upp úr þessari ræðu. En lokaorðin mættu vera ærið umhugsunarefni. Hér stendur, með leyfi forseta:
    ,,Íslenska þjóðin á mikið undir því komið að sú grundvallarstefna sem boðuð er með þessu fjárlagafrv. um aðhaldssemi í ríkisfjármálum, um jöfnuð í ríkisrekstri nái fram að ganga. Ég vænti þess að ríkisstjórnin og þeir þingflokkar sem að baki henni standa sem og alþingismenn allir reynist reiðubúnir að axla þá ábyrgð sem á þeim hvílir. Menn verða að hafa pólitískt þrek til að vera sjálfum sér samkvæmir``, takið eftir, þetta er vel orðað hjá hæstv. utanrrh., ,,menn verða að hafa pólitískt þrek til að vera sjálfum sér samkvæmir.`` ( Gripið fram í: Hvar er hann?) Þessi orð féllu þegar hæstv. utanrrh. var fjmrh. þessarar þjóðar.
    Herra forseti. Ég held áfram lestrinum.
    ,,Það stoðar ekki að gjalda jáyrði við nauðsyn aðhaldsaðgerða en setja síðan ótal fyrirvara og flytja endalausar tillögur um hundruð millj. kr. aukaútgjöld sem ekki verða fjármögnuð nema með auknum erlendum lánum. Hér duga engir fyrirvarar, enginn undansláttur eða pólitískt kjarkleysi. Það dugar ekki að gagnrýna nauðsynlega tekjuöflun en flytja á sama tíma tillögur um stóraukin útgjöld. Lykilorðin eiga að vera ráðdeild og aðhaldssemi hvar sem því verður við komið án þess að reiða öxina að rótum trésins sem er það velferðarríki fólksins sem við viljum festa í sessi í okkar landi.``
    Enn brennur hugsjónaeldur. En hvert fór þetta allt, hvert einasta atriði þessarar ræðu, þessarar stefnumörkunar, þessarar sannfæringar um hvað ætti að gera? Það fór í ruslafötuna til þess að mega sitja í ráðherrastólnum.
    Hæstv. núv. fjmrh. flutti fjárlagaræðu við fjárlög 1992. Með leyfi forseta vil ég lesa hér örstutta kafla úr þeirri ræðu. Ráðherrann hefur gagnrýnt að nokkru fyrirtækin þegar hann kemur að þessu:
    ,,En það er ekki hægt að skella skuldinni alfarið á atvinnulífið. Kannski skiptir mestu máli að stjórnvöld hafi ekki brugðist rétt við. Stjórnvöld hefðu fyrst og síðast átt að grípa til almennra aðgerða til að tryggja stöðugleika, litla verðbólgu, lága vexti og yfir höfuð svipuð rekstrarskilyrði og í öðrum löndum. Það er ekki gert, þvert á móti. Í stað þess að halda aftur af útgjöldum ríkisins og skapa atvinnulífinu þannig aukið athafnafrelsi gerist hið gagnstæða. Ríkisbáknið þandist út sem aldrei fyrr. Aukin útgjöld kölluðu á meiri og meiri skattahækkanir og þegar það dugði ekki til var gripið til þess ráðs að slá lán jafnt innan lands sem utan. Afleiðingin birtist í óðaverðbólgu og óheyrilega háum vöxtum. Samt tókst ekki að ná endum saman í ríkisrekstrinum.``
    Hérna fullyrðir hæstv. ráðherra að það sé verkefni stjórnvalda að tryggja lága vexti. Það er athyglisvert. Það er eins og maður hafi heyrt það síðan að það sé markaðurinn sem eigi að ráða og markaðurinn er ekki stjórnvöld. Annaðhvort hefur hæstv. ráðherra fipast í framsögninni eða hann hefur trúað því þá að það væru stjórnvöld sem réðu vöxtunum ef þau vildu ráða vöxtunum.
    Herra forseti. Þá held ég áfram lestrinum. Nokkru síðar: ,,Við verðum að hleypa nýju lífi í íslenskt efnahagslíf til að geta staðið straum af kostnaðinum við þá samfélagsþjónustu sem við viljum veita og njóta. Þetta kallar á róttækar breytingar í hagstjórn. Gömlu úrræðin duga ekki lengur. Skattar á Íslandi eru of háir. Vextir á Íslandi eru of háir. Við verðum að lækka skatta og við verðum að lækka vexti. En slíkt gerist ekki með tilskipunum stjórnvalda eða yfirlýsingum á tyllidögum.`` --- Merkilegt er það með jafn vel lesinn mann eins og hæstv. viðskrh. ef hann hefur ekki lesið þennan texta áður en hann fór að burðast við að skipa lífeyrissjóðunum fyrir. Hér stendur að tilskipanir dugi ekki. --- ,,Eina leiðin til þess er að draga úr umsvifum ríkisins og stöðva hallarekstur og lántökur opinberra stofnana og sjóða. Við vitum það öll að hér á landi eru til stjórnmálaflokkar sem eru tilbúnir til að hækka skattana upp úr öllu valdi til viðbótar við það sem þeir hafa gert á undanförnum árum og fara ekki dult með þá skoðun sína. En ríkisstjórnin hæstv. hefur kosið að fara aðrar leiðir. Hún hafnar skattahækkunarleiðinni.
    Mér hefur orðið nokkuð tíðrætt um þau vandamál sem við blasa í efnahagslífi okkar Íslendinga. Þetta er ekki að ástæðulausu, því það er forsenda þess að við getum unnið okkur út úr erfiðleikunum að við gerum okkur glögga grein fyrir ástandinu, hvar við stöndum og hvert okkur ber að stefna.
    Mig langar til að fara nokkrum orðum um þær leiðir sem ríkisstjórnin hæstv. telur færar út úr ógöngunum. Í örstuttu máli má segja að meginmarkmið efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar séu:
    að draga úr ríkisumsvifum,
    að tryggja lága verðbólgu og stöðugt gengi,
    að stuðla að frjálsum viðskiptum milli landa,
    að tryggja atvinnu og aukinn kaupmátt þegar til lengri tíma er litið.``
    Hérna er í fyrsta lagi boðað að það eigi að koma hjólum atvinnulífsins til að snúast. Hérna er það boðað að tryggja eigi atvinnu. Hefur þetta verið framkvæmt? Það er nú öðru nær. Afturförin blasir við. Gjaldþrotastefnu, hávaxtastefnu hefur verið beitt. Fyrirtækin hafa verið þjóðnýtt í stórum stíl í þágu opinberra sjóða og banka og þeir eru hættir að tala um að tryggja atvinnu. Það er algerlega búið að leggja það markmið á hilluna eins og kemur fram síðar þegar farið er yfir ræður hæstv. ráðherra.
    Rétt er að minnast á það líka. Hæstv. ráðherra talar um að það eigi ekki að hækka skattana. En hafi nokkur ráðherra hækkað tekjuskattinn á Íslandi þannig að undan svíður er það núv. hæstv. ráðherra.

Hækkanir skattanna blasa við en árangurinn er enginn. Með leyfi forseta vil ég halda áfram lestrinum:
    ,,Samhliða fyrstu aðgerðum til að draga úr hallanum á ríkissjóði verður að halda áfram umbótum á sviði skattamála. Fram undan eru ýmis mikilvæg verkefni, bæði að því er varðar álagningu skatta og framkvæmdir. Mig langar að nefna það helsta sem er á döfinni en vísa að öðru leyti til athugasemda fjárlagafrv. og starfsáætlunar hæstv. ríkisstjórnar um frekari umfjöllun.
    Hæstv. ríkisstjórn ætlar á næstu tveimur árum að ná jafnvægi í ríkisfjármálum án þess að hækka skatta.`` --- Á tveimur árum ætlar hún að ná jafnvægi þegar þetta er sagt. Það er merkilegur hlutur. Það er búið að gjörbreyta stefnunni í dag. --- ,,Lokatakmarkið á sviði skattamála er að létta skattbyrðina á fyrirtækjum sem og einstaklingum.`` --- Hér er ekki farið dult með það að markmiðið sé að lækka skattbyrði einstaklinganna. --- ,,Jafnframt er réttlætismál að draga úr því misræmi sem fyrirfinnst í mörgum tilvikum í skattkerfinu í dag. Um einstaka skatta er það að segja að hæstv. ríkisstjórn ætlar þegar á næsta ári að spara einn milljarð króna með því að lækka endurgreiðslur og fækka undanþágum í skattkerfinu. Á öðrum sviðum er gert ráð fyrir að það taki lengri tíma að undirbúa aðgerðir, jafnvel þótt nú þegar sé hafin á vegum fjmrn. víðtæk endurskoðun á skattkerfinu.
    Eitt brýnasta verkefni hæstv. ríkisstjórnar í skattamálum er að samræma skattlagningu eigna og fjármagnstekna.`` --- Þetta er sagt við fjárlagaumræðu 1992. --- ,,Samræmingin er liður í því að draga úr misræmi í skattkerfinu. Það er óréttlátt að skattleggja sumar tekjur á meðan aðrar eru skattfrjálsar. Þetta misræmi þarf að leiðrétta. Ég vil taka það fram að óháð því hvaða leið verður fyrir valinu er þessari samræmingu ekki ætlað að skila ríkissjóði auknum tekjum heldur tryggja sanngjarna og samræmda skattheimtu. Af öðrum skattabreytingum sem koma til athugunar á næstunni vil ég nefna eftirfarandi.
    Hlutfall tekjuskatts einstaklinga og fyrirtækja þarf að lækka samhliða minni ríkisumsvifum og fækkun undanþága og endurgreiðslna.`` --- Hafa menn orðið varir við að skattar einstaklinganna hafi verið lækkaðir eins og hér er verið að boða? ( Gripið fram í: Hver sagði þetta?) Þetta er úr ræðu hæstv. núv. fjmrh. sem hann flutti 1992. Þá boðaði hann lækkun tekjuskatts einstaklinganna. Með leyfi forseta held ég áfram:
    ,,Virðisaukaskattur er hærri hér á landi en annars staðar. Hann þarf að lækka, m.a. með fækkun undanþága og hertu skatteftirliti.`` --- Hafa menn orðið varir við það að virðisaukaskattsprósentan hafi verið lækkuð eins og hér er verið að tala um? Hæstv. ráðherra gerir í þessari ræðu grín að hinum gömlu leiðum.
    ,,Þetta er gamalkunn leið. Við sjáum afleiðingar hennar víða í löndunum í kringum okkur þar sem skattbyrðin er orðin ógnvænleg, atvinnulífið í lamasessi og erlendar skuldir hrannast upp, hagvöxtur er enginn og atvinnuleysi vaxandi.`` --- Hagvöxtur enginn og atvinnuleysi vaxandi, það er niðurstaðan af stefnu núv. ríkisstjórnar. það er stefnan sem verið er að framkvæma, stefnan sem ráðherrann tekur sig til og gerir grín að. Enginn hagvöxtur, aukið atvinnuleysi.
    Herra forseti. Þá er hér komið að fjárlögum 1993. Og nú er rétt að fá upp stefnuna. Það er ekki víst að kompásinn sé sá hinn sami og eins að menn fái nú að vita stefnuna. ( Gripið fram í: Þeir kunna ekki á kompásinn.) Herra forseti. Ég hef hugsað mér að lesa hér með leyfi forseta úr ræðu núv. hæstv. fjmrh. sem hann flutti fyrir fjárlögum 1993:
    ,,Stefna ríkisstjórnarinnar tekur mið af erfiðum aðstæðum í þjóðarbúinu og boðar uppstokkun á flestum sviðum efnahagslífs. Erfiðleikarnir gera það enn brýnna en ella að rekstrarskilyrði atvinnulífsins verði bætt. Þrátt fyrir að ekki blási byrlega í atvinnumálum okkar þessa stundina megum við ekki missar sjónar á helstu markmiðum efnahagsstefnunnar og hrekjast út í gagnslausar skammtímalausnir. Þær leysa engan vanda. Við verðum að beita almennum aðgerðum. Það eru engar töfralausnir til.
    Við þurfum að beita öllum ráðum sem duga til að örva atvinnustarfsemina. Aðeins þannig getum við dregið úr atvinnuleysi.`` --- Örva atvinnustarfsemina. Aðeins þannig er hægt að draga úr atvinnuleysinu. Það var samþykktur einn milljarður og hvert fór hann? Fór hann í skammtímalausnir eða fór hann í varanlegar aðgerðir? Hafi einhver frétt af því að hann hafi farið í varanlegar aðgerðir þá vænti ég þess að sá hinn sami komi og geri grein fyrir því svo að ég halli ekki réttu máli. Þessi milljarður fauk út í veður og vind í skammtímaaðgerðir. Að vísu er hann ekki allur fokinn en hæstv. ráðherra segir að það megi treysta því að það sem eftir er af milljarðinum fjúki líka út í veður og vind.
    Með leyfi forseta koma hér nokkur atriði enn síðla í ræðunni til að undirstrika stefnuna:
    ,,Aðgerðir okkar verða að miða að því að fá hjól atvinnulífsins til að snúast hraðar.`` --- Sama stefna og fremst í ræðunni. --- ,,Án þess að koma hjólum atvinnulífsins af stað er ekki hægt að auka atvinnuna í landinu.`` Svo boðast hér áfram: ,,Það er gangverkið sem knýr þjóðarskútuna áfram.`` --- Hér talar ekki maður sem ætlar að leggja þjóðarskútunni flatri fyrir veðri og vindum. Hér talar maður sem ætlar að sigla henni. --- ,,Við erum öll að tryggja kjör þeirra lakast settu og draga sem mest úr áföllum. Hinir sem betur mega sín verða að leggja meira á sig í þeim boðaföllum sem yfir okkur ganga um sinn.`` --- Nú er ekki verið að vorkenna stóreignamönnunum í Sjálfstfl. að borga skatta. Það er sagt beinum orðum að þeir verði að leggja meira á sig um sinn. --- ,,Við skulum setja stefnuna á mið frjálsræðis,`` --- kompásinn stilltur --- ,,og opnunar í viðskiptum en þau hafa í tímans rás verið fengsælust í lífskjarasókn

þjóðanna. Ef við höfum þessi þrjú atriði í huga er ég sannfærður um að okkur farnast vel í átökum við þá erfiðleika sem að okkur steðja og þjóðin hefur falið falið okkur að leysa.``
    Enn er kjarkurinn til staðar. Enn er áræðið til staðar. Enn skal skútunni siglt. Þetta er ekki karl sem er að gefast upp.
    Svo kemur enn fjárlagaræða flutt á þessu hausti og það furðulega er að í byrjunarorðum er inngangur allur orðinn miklu styttri. Hér í byrjunarorðum kemur enn: ,,Meginboðskapur fjárlagafrv. er að draga úr hallarekstri ríkissjóðs án þess að hækka skatta.``
    Miðað við þann texta sem ég er búinn að lesa finnst mér skrýtið að þetta skuli enn vera í upphafi ræðunnar, atriði sem hefði fyrir löngu átt að vera búið að leysa. En svona er þetta nú samt. Með leyfi forseta vil ég lesa hér áfram. Nú er bjartsýnin nefnilega farin að bila.
    ,,Atvinnuleysi og hallarekstur á ríkissjóði eru ekki einungis vandamál hér á landi því í flestum nágrannaríkjum er við svipaðan vanda að stríða. Þar líkt og hér á landi má rekja hallann til minnkandi hagvaxtar og skipulagsvanda í efnahagslífinu, jafnt í opinberum rekstri sem einkarekstri.``
    Þetta er í fyrsta skipti sem það er talað um skipulagsleysi í einkarekstrinum. Ég vil biðja menn að taka eftir því. (Gripið fram í.) Það er alveg magnað að það skuli vera komið inn í textann á sama tíma og einkavæðingin á að vera á fullu. --- ,,Þó er óhætt að fullyrða að óvíða hefur samdráttur verið meiri en hér á landi síðustu tvö árin.`` Fari það nú í logandi. Árangurinn að láta hjólin snúast, setja á fulla ferð og gefa hvergi eftir. Niðurstaðan: Hvergi verra ástand en hér.
    ,,Viðbrögð stjórnvalda hafa einnig verið svipuð. Hvarvetna hefur verið gripið til aðgerða til að styrkja atvinnulífið og örva hagvöxt. Skattar á fyrirtæki hafa verið lækkaðir, framlög til opinberra framkvæmda aukin tímabundið og sérstakar ráðstafanir verið gerðar til að draga úr áhrifum samdráttarins á hag hinna lægst launuðu.``
    Það er nú svo. Ekki er ég viss um að hinir lægst launuðu skrifi alveg undir þetta. Það er nefnilega farið að sverfa allóhugnanlega að í þessu þjóðfélagi. Það er farið að sverfa það óhugnanlega að að hæstv. fjmrh. mætti gjarnan yfirgefa Stjórnarráðið eina dagstund til þess að fá sér gönguferð og kynnast kjörum almennings í þessari borg ekki síður en annars staðar úti á landi.
    Ég held að sá ráðherra sem flytur þessa ræðu sé búinn að gefast upp. Ég held að sá ráðherra sem flutti fjárlagaræðuna fyrir þetta ár sé búinn að gefast upp, ( Gripið fram í: Hann er líka farinn.) hann sé fyrst og fremst að reyna að réttlæta það fyrir sjálfum sér og þjóðinni hvers vegna honum mistókst, hvers vegna ráðin dugðu ekki, hvers vegna dæmið gekk ekki upp. Eitt er víst, að hæstv. ráðherra hefur ekki tekið sig til og flutt inn í sali þingsins breytingartillögurnar við fjárlögin sem gáfaðasti maður Sjálfstfl. utan þings hefur skrifað skipulega upp í blaði sem hann hefur gefið út. Efst á baugi, heitir ritið. (Gripið fram í.) Efst á baugi, heitir ritið. ( Gripið fram í: Hver skrifar þetta?) ( Gripið fram í: Gáfaðasti maður Sjálfstfl.) Það er nú svo að þrátt fyrir að búið sé að breyta þingsköpunum hér á Alþingi og stjórnarskránni gegnum tíðina þá er enn sá fyrirvari á að þeir einir sem hér eru inni, ráðherrar eða þingmenn, mega flytja mál á Alþingi. Og þess geldur þessi gáfaðasti maður Sjálfstfl. utan þings. Hann getur ekki flutt þjóðinni bjargráðin í tillöguformi á Alþingi. En hann leggur það á sig að gefa út sérstakt rit því að þetta er forsíðugrein, tillögurnar um niðurskurðinn upp á 50 milljarða. Okkur duga tillögur upp á 10 ef þetta er rétt útbúið. En er það þá tilfellið að sá skoðanaágreiningur sé orðinn uppi á milli hæstv. núv. fjmrh. og hins lærða manns við Háskóla Íslands sem þáv. menntmrh. skipaði án kennsluskyldu að það sé ekki hægt að nota neitt af hugmyndunum? Þó er það nú svo að íslenska þjóðin lifði þokkalegu lífi þegar sumar þær stofnanir sem hér er þó ekki lagt til að skera niður nema af hálfu voru bara ekki til í þessu landi. Samt er það svo að hæstv. fjmrh. telur að himinn og jörð séu í hættu ef eitthvað af tillögunum verði teknar og notaðar. Slíkur er nú skoðanaágreiningurinn á milli mannsins sem boðaði frjálshyggjuna svo grimmt að jafnvel amman var verðlögð, sett á markaðinn og metin. (Gripið fram í.) Nú brestur mig stórkostlega þekkingu til að vita hver hún var.
    Hæstv. fjmrh. kemur með eina afsökun. Hann ber það á aðila vinnumarkaðarins að þeir hafi beygt ríkisstjórnina og það skaði fjárlögin um 5 milljarða. Þrátt fyrir það að Sjálfstfl. sé í samstarfi við Alþfl. undir forustu núv. utanrrh. sem sagði sem fjmrh. á sínum tíma að pólitískt hugleysi ætti ekki við. Engu að síður er það nú svo að gamall maður, formaður Alþýðusambands Íslands, ásamt framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins liggja undir þeim áburði að hafa beygt núv. ríkisstjórn og skaðað fjárlögin um 5 milljarða. Er nú sanngjarnt að hlaupa frá og segja: Þeir eyðilögðu þetta? Ábyrgðin á fjárlögunum getur aldrei verið annarra en þeirra sem sitja í þessum sal og greiða hér atkvæði. Það þýðir ekkert að bera það á nokkurn annan mann að hann beri ábyrgðina. En ég ætla, með leyfi forseta, að vekja athygli á því að það var felldur dómur í Félagsdómi sem er að vissu leyti tímamótadómur og mjög merkur dómur. Dómurinn lýsir verkfall ólöglegt vegna þess að þeir sem kröfðust verkfallsins og vildu koma því á voru í reynd að mati dómsins ekki að deila um kaup og kjör við þann sem þeir vildu fara í verkfall við. Þeir vildu fá að ráðskast með aðra hluti. Þeir vildu fá að ráðskast með það hvort íslensk áhöfn væri á erlendu leiguskipi. Og verkfallið var dæmt ólöglegt. Það er nefnilega orðið umhugsunarefni fyrir hæstv. ráðherra Íslands og fyrir alþingismenn að gera sér grein fyrir því að lögin sem verkalýðshreyfingin starfar eftir og Vinnuveitendasambandið starfar eftir ætla þessum aðilum visst verksvið í þessu þjóðfélagi. Þau ætla þeim að semja um kaup og kjör sín á milli. Þau ætla þeim ekki það vald að láta þriðja aðilann greiða. Og Alþingi Íslendinga má aldrei lúta svo lágt að það líti svo á að það sé nothæf afsökun að segja: Þessir aðilar beygðu okkur til þess að hafa fjárlögin allt öðruvísi en við töldum að þau ættu að vera. Það er pólitískt hugleysi. Það er villan stóra. Það er að þora ekki að standa við sannfæringu sína í þeim slag sem hér þarf að heyja.
    Herra forseti. Ég hef ekki flutt brtt. til hækkunar á þessum fjárlögum. Mér er ljóst að ef ég hefði átt um að véla hefði ég skipað mörgu með öðrum hætti. En allt eru það smærri hlutir, miklu smærri hlutir en sú stórkostlega alvara sem blasir við að tvenn síðustu fjárlög hafa skilað 25 milljarða halla. Þessi fjárlög ætla að bæta 10 milljörðum við en verði tekið mið af reynslunni þá er það sennilega nær að þau bæti 20 milljörðum við og mættu nú sumir, sem ganga sofandi um salinn, fara að vakna.