Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 00:22:26 (2474)


[00:22]
     Svavar Gestsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég vil nú mjög eindregið fara fram á það að hæstv. forseti svari þeim spurningum sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir bar fram áðan, þ.e. hversu lengi ætlunin er að halda þessu fundahaldi áfram. Og ég vil einnig skora á hæstv. forseta að taka til íhugunar ábendingu hennar um að fresta nú umræðu um þetta mikilvæga mál og halda henni áfram á skikkanlegum tíma á morgun. Miðað við þá mælendaskrá sem liggur fyrir má ætla að svipaður tími fari í umræður þær sem eftir eru og þær sem þegar er lokið þannig að það er útilokað í raun og veru ef umræðan hefur eðlilegan framgang að henni ljúki með skikkanlegum hætti á þessari nóttu. Og þess vegna hljótum við að leggja fram þá einlægu ósk við forsetann og forsætisnefndina að fundinum verði frestað núna. Það er komið hér inn á nýjan sólarhring, gert ráð fyrir því að hefja fundastörf í nefndum þingsins í fyrramálið, gert ráð fyrir því að hefja hér fundastörf í þinginu sjálfu kl. 10.30, ætlunin að hitta ýmsa aðila um níuleytið þar sem ýmsir þingmenn koma við sögu til þess að hitta fulltrúa Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og mér fyndist nú viðkunnanlegra að þeir sem mæta þar séu sæmilega útsofnir og geti verið fulltrúar þjóðar sinnar með sóma og reisn en ekki eins og druslur. Ég legg það til að annaðhvort verði fundinum hætt núna, hæstv. forseti, bara hætt eða þá að þeir sem eiga að vera hér í fyrirsvari, formaður fjárln., varaformaður fjárln. --- og hann geti talað en sitji ekki í forsetastóli --- og fjmrh. sitji hér inni og taki þátt í umræðunni og virði þingmenn viðlits. Það er óþolandi fyrir þingmenn að láta sýna sér dónaskap með þeim hætti sem birtist í stöðugri fjarveru ráðherra og forsvarsmanna fjárln. hér í dag.