Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 00:28:30 (2479)


[00:28]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er kominn 10. des. líklega, en við hófum þessa umræðu snemma síðasta dags. Ég vildi við upphaf míns innleggs í þessa umræðu víkja aðeins að þessum vinnubrögðum sem hér eru tíðkuð í sambandi við 2. umr. fjárlaga og í rauninni við meðferð fjárlagafrv. og samstarf við þingnefndir að fjárlagagerð. Að þessu er vikið í upphafi meiri hluta álits fjárln. sem minnir á það að ég ítreka ósk mína framborna hér áðan um það að formaður fjárln. birtist hið snarasta í þingsal ella treysti ég mér ekki til að ræða þessi mál.
    ( Forseti (VS) : Forseti sá sem nú stýrir fundi hringdi í formann fjárln. og hann mun vera á leiðinni.)
    Við skulum vona að úr rætist, virðulegi forseti, hið fyrsta því að þetta atriði sem ég ætla hér að ræða í upphafi varðar stjórn starfsins í fjárln. en auðvitað þinghaldið í heild og alla þingflokka.
    Ég tel að þau vinnubrögð sem hér hafa verið tíðkuð auðvitað um langa hríð og enn eru tíðkuð í sambandi við meðferð fjárlagafrv. séu í rauninni engan veginn boðleg lengur hafi þau nokkurn tíma verið það. Og við þurfum nauðsynlega að gera atrennu að því í framhaldi af afgreiðslu þessa frv. að það verði annað en orðin tóm sem lesa má í upphafi að meirihlutaáliti fjárln. að í framhaldi af skyndifundi fjárln. með formönnum svokallaðra fagnefnda sem hafi sammælst um að taka þráðinn upp á nýju ári um vinnubrögðin, úr því verði gerð gangskör og raunar að sú umræða verði tengd forsætisnefnd þingsins vegna þess að hér er að mínu mati þörf róttækra breytinga. Það er ekki boðlegt að meginumræða fjárlaga fari fram með þeim hætti sem við höfum tíðkað og tíðkum hér nú. Hér erum við að ræða alla þessa mörgu málaflokka sem tengjast fjárlagagerðinni sem á auðvitað erindi við alla ráðherra en ekki hæstv. fjmrh. einan þó að hann fari með forræði þessa máls. Málaflokkarnir sem eigum við að segja fagráðherrarnir, til að nota hliðstæðu við fagnefndirnar, fara með þurfa að fá sína skilmerkilegu umræðu í þinginu sér á parti og raunar áður en kemur til 2. umr., heildarumræðu og afgreiðslu í tengslum við hana. Að mínu mati þarf vinna að fjárlagagerðinni að hefjast í byrjun árs og vera helst þannig komið áður en þinghlé er gert að vori að það liggi

fyrir, ef ekki framlagt þá a.m.k. þannig að það megi kynna það, og það geti verið til meðferðar hjá fagnefndum sem svo eru kallaðar, nefndum þingsins þá þegar til skoðunar í því fundahléi sem gert er, venjulega í maí, þannig að ráðrúm gefist til þess að fara yfir málin með einhverjum skikkanlegum hætti. Þetta er einn möguleikinn til úrbóta í þessum efnum.
    Annar möguleiki sem kannski er ekki síður til álita er það að menn í reynd hefji fjárlagagerð sem taki til ekki eins árs heldur skulum við segja þriggja ára. Það er auðvitað matsatriði yfir hversu langt atriði tímabilin teygja sig. Ég er ekki að leggja til, virðulegi forseti, að menn fari í farveg sovétsins með fimm ára áætlanir, ( ÓÞÞ: Verður ekki formaður fjárln. að koma í salinn?) Það má nú vera aðeins skemmra. Ég geri ráð fyrir að virðulegi forseti hafi vökult auga á því, enda birtist formaður fjárln. nú í fullu veldi hér í dyrunum. Hefur hans verið sárt saknað klukkutímum saman og ég vænti þess að að lokinni ræðu komi formaður fjárln. upp í stólinn og skýri það hvernig það má vera að hann skuli vera fjarverandi þessa umræðu þar sem margir þingmenn hafa notað rétt sinn til að tjá sig um málin án þess að formaður fjárln. hafi séð ástæðu til þess að vera viðstaddur. Þetta er auðvitað fyrir neðan allar hellur.
    Ég var að víkja hér, virðulegur formaður fjárln., að breyttum vinnubrögðum í sambandi við meðferð fjárlagafrv. og varpa þeirri hugmynd fram að fjárlagagerðin hefjist af alvöru ekki síðar en í byrjun ársins áður en fjárlög skulu taka gildi og liggi fyrir til umfjöllunar helst þegar að vori, þannig að fjárln. og fagnefndir geti þá þegar farið að skoða málin. Þetta er einn möguleiki til þess að laga vinnubrögðin og síðan verði það tryggt eftir að þing kemur saman og fjárlagafrv. liggur þá fyrir í þeim búningi sem fjmrh. vill leggja það fyrir, þá gefist ráðrúm til þess svipað og tíðkast í nágrannalöndum okkar að einstakir þættir fjárlaga verði til sérgreindrar umræðu við ráðherra viðkomandi málaflokka. Það verði hægt að eiga hér viðræðu við hæstv. menntmrh. sér á parti og tekinn í það einn dagur, einn sólarhringur ef vill til þess að fara yfir þau efni og þannig þræði menn sig koll af kolli í gegnum málin og 2. umr. fjárlaga til afgreiðslu á brtt. við frv. verði sem áfangi, burðugur áfangi að lokinni slíkri yfirferð þingsins þar sem ráðherra standi skil sinna mála og þingheimi gefist í reynd og fagnefndum þingsins gefist kostur á að vinna í málunum og eiga orðastað við einstaka ráðherra um það efni.
    Ég held einnig að til álita eigi að vera að fjárlagagerðin taki yfir lengra tímabil en tíðkað hefur verið og nefndi það áðan, t.d. yfir þriggja ára tímabil. Það gæfi færi á því að hafa ákveðna samfellu í umfjöllun mála og þá væru í raun fjárlög þar næsta árs í sigti og til meðferðar jafnhliða svipað og menn eru að byrja að fikra sig inn á og hafa reyndar gert um skeið í sambandi við einstaka málaflokka eins og t.d. við vegamál og fleiri málaflokka þar sem menn eru að reyna að taka ákvarðanir tvö ár fram í tímann og ekki skemmra eða fjögur ár og endurskoða með vissu millibili. Ég segi þetta hér, virðulegur forseti, vegna þess að mér finnst að umræður þessa dags og þær aðstæður sem við búum við, ráðherraliðið er út og suður. Það telst til tíðinda að það sitji hér einn, ég tala nú ekki um tveir samtímis í þingsal og forustan í fjárln. lætur ekki sjá sig tímunum saman. Þetta getum við ekki látið bjóða okkur og það hlýtur að vera sameiginlegt hagsmunamál að lagfæra þetta, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, þingsins vegna, málefnisins vegna og eðlilegra vinnubragða sem hér er þörf á.
    Ég ætla svo ekki, virðulegur forseti, að eyða mikið fleiri orðum að þessu en minni aðeins á að við ættum í þessu samhengi að fara yfir umræður um þingskapalögin frá 1991 þar sem menn vildu taka stærra skref en er í núverandi þingsköpum. Margir vildu það, gera það að skyldu að vísa málum til fagnefnda og ætla þeim skilmerkilegri hlut en reyndin varð á. Hér er aðeins um heimild að ræða í núgildandi þingsköpum en það var gert ráð fyrir því í drögum að frv. að það væri skylda að gera það að vísa málum til fagnefnda og kveða fastar á um málsmeðferð heldur en reyndin varð. Það voru hins vegar ýmsir mjög hikandi. Nú þurfum við að reka af okkur slyðruorðið í þessum efnum og gera hér á róttækar breytingar á þessum afleitu vinnubrögðum sem hér hafa tíðkast allt of lengi í sambandi við þessi mál.
    Mitt aðalerindi hér, virðulegur forseti, eins og ég ætlaði með þátttöku í þessari umræðu var að fjalla um nokkrar brtt. sem ég flyt hér, sumpart í eigin nafni og einn eða með öðrum hv. þm. Alþb. sem standa að tillögum með mér. Hver þeirra getur gefið tilefni til nokkurrar orðræðu og skýringa af minni hálfu og ég skal reyna, virðulegi forseti, vegna þess hvar við eru stödd á sólarhringnum og hér er fjöldi enn á mælendaskrá, að þjappa því saman í ekki mjög langt mál. Ég vil þó nefna nokkur atriði í stuttu máli áður en ég kem að þessu.
    Það lifa aðeins um þrjár vikur til áramóta. Þá er gert ráð fyrir því af flestum að svonefndur samningur um hið Evrópska efnahagssvæði taki gildi. Fyrir ári síðan eða svo var þessi samningur um hið Evrópska efnahagssvæði talinn hið mikla ljós í myrkri sem ætti að tendrast í íslenskum efnahagsmálum ekki síst, öllum til mikilla hagsbóta og menn muna nú eftir því hvernig hæstv. utanrrh. túlkaði það mál og hvernig hann fór með tölur í því sambandi. Það var ekki sparað við sig í janúarmánuði sl. þegar þessi mál voru hér til afgreiðslu, að vísu ekki lokaafgreiðslu en til afgreiðslu samt af hæstv. utanrrh. Og ég held að fjmrh. hafi heldur ekkert sparað sig í þessari umræðu.
    Nú kveður hins vegar við annan tón, virðulegur forseti. Nú heyrist nánast ekkert minnst á þennan samning þar sem við erum þó komin á þröskuldinn ef marka má orð og samþykktir þinga þeirra landa sem að þessum samningi standa. Það er bara ekkert á málið minnst. Út af fyrir sig þarf það ekki að vera

harmsefni okkar sem höfum varað við þessum málum og varað við þessum samningi að þetta er staðreyndin. En hitt er þó alvörumál og mikið alvörumál að þegar þessi samningur gengur í gildi þyrftu Íslendingar að vera með einhverjum hætti undir það búnir, íslenskt atvinnulíf þar með og aðrir sem koma til með að búa við þennan samning og þar sem þessi samningur mun hafa mikil áhrif. Og hann mun ekki aðeins hafa áhrif að því er varðar harðnandi samkeppni og aukið atvinnuleysi í þessu landi að líkindum ( ÓÞÞ: Það er þögn yfir sóknarfærunum.) heldur mun hann jafnframt fyrr en varir hafa mikil áhrif á fjárlagagerð á Íslandi. Þó að fjárlög hvers lands séu ekki með beinum hætti tengd inn í samninginn, þá mun hann óhjákvæmilega fyrr en varir fara að setja mark sitt á fjárlagagerð, svigrúm ríkisins til tekjuöflunar og hvernig á þeim málum er haldið. Þess vegna er ástæða til að minnast á þennan samning hér. Hvort hurð skellur að stöfum varðandi þennan samning um áramótin eða eitthvað seinna skiptir kannski ekki öllu máli. Í blöðum allra síðustu daga lesum við að það kunni nú svo að fara að þetta verði ekki 1. jan. Til þess að það skilyrði sé uppfyllt verða öll kurl að vera komin til grafar á þriðjudaginn kemur. Þá verða staðfestingarskjölin að vera komin í ákveðið hólf og öll ættu þau að geta verið það ef vilji stendur til, en það er ýmislegt að gerast í heiminum annars staðar en hjá okkur og atriðið sem tengja annars staðar en í Evrópubandalagin og á EES-svæðinu svokallaða. GATTsamningarnir koma einnig inn í þetta samhengi og hafa sín áhrif, hugsanleg áhrif á vilja aðildarríkja EES-samningsins á það að skila skjölunum fyrir miðvikudaginn kemur.
    Í Dagens Nyheter 7. des. er að því vikið að Frakkar íhugi að draga það við sig að skila inn sínum skilríkjum, sínu staðfestingarskjali, hugsanlega sem hefndaraðgerð gagnvart Svíum út af Renault/Volvo samningnum en líka af ástæðum sem varða stjórnarhætti í Evrópubandalaginu sjálfu og samskipti við ríki utan þess, m.a. í Austur-Evrópu. Þannig er getum að því leitt að sérstakur fríverslunarsamningur Evrópubandalagsins við Búlgaríu hafi hleypt efasemdum Frakka sérstaklega af stað og þeir taki undir hugmynd um það að framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins fái valdið til þess að bregðast við ef grípa þurfi til viðskiptapólitískra aðgerða gagnvart þriðja landi og að það verði ekki einstök ríki sem fái valdið heldur verði það afhent framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins í heild sem stofnun. En við skulum bíða og sjá. Ég nefni þetta hér vegna þess að það er talað um það svona eins og nokkurn veginn fullvissu að þessi samningur verði orðinn staðreynd 1. jan. og gott ef hæstv. utanrrh. er ekki á leið úr landi til þess að annast ljósmóðurstörfin um miðjan þennan mánuð. Ég hef heyrt að hann verði fjarverandi komandi viku, það er hugsanlegt og kannski tekst honum að hjálpa til að þetta verði fæðing þótt tangarfæðing verði fyrir 15. des. En það eru fleiri atriði í gangi sem hafa valdið erfiðleikum, m.a. flutningar á fiski, samningar þar að lútandi milli Norðmanna og Evrópubandalagsríkja sem valda þarna urg og tregðu. Það er sem sagt mál sem mun skýrast og ég ætla ekki að rekja hér frekar þó að ég nefni það þegar þennan stóra samning ber á góma.
    Annað atriði sem ég vildi aðeins koma að er spurningin um afdrif þessa frv. hér, stuðning stjórnarliða við þetta frv. Ég segi það vegna þess að hér var hæstv. félmrh. dreginn upp í stólinn, það átti að gefa yfirlýsingu. Það er óskað eftir afstöðu til frv. og því nefni ég það að ég undrast það mjög að einhverjum skuli hafa komið það til hugar að hæstv. fémrh. ætlaði að bregða einhverjum fæti fyrir þetta fjárlagafrv. Það bæri nú eitthvað við ef hæstv. félmrh. færi að standa við hótanir sínar í garð starfsfélaga í ríkisstjórn. Hvenær hefur það gerst? Hvenær hefur það gerst að hæstv. félmrh. allar götur frá 1987 hafi staðið við einhverjar hótanir gagnvart þeim ríkisstjórnum sem hún hefur setið í? Ég minnist þess ekki. En enn eru menn að taka það alvarlega þó hæstv. félmrh. hafi uppi einhver illyrði í garð samstarfsaðila í ríkisstjórninni og stórra mála eins og fjárlagafrv. Nei, þá þyrfti mikið að gerast, enda mátti heyra það að hæstv. félmrh. var að undirbúa lendinguna með orðum sínum í þessum ræðustól á síðasta sólarhring og vildi hafa það að það hefði svo margt breyst til bóta í þessu fjárlagafrv., margt tekið breytingum að þetta gæti nú allt svona smollið saman. Það hefði verið gaman að fá þær skýringar hjá ráðherranum hvaða atriði það væru sem hæstv. ráðherra nefndi sérstaklega og tíundaði í septembermánuði sl. sem hefðu tekið þeim stakkaskiptum eins og brtt. líta út núna við fjárlagafrv. Hvaða atriði skyldu það vera? Alþfl. og ráðherrar hans hvort sem þeir heita Jóhanna eða Jón eru ekkert á þeirri leið að bregða fæti fyrir eitt eða annað í þessum efnum heldur taka þessu öllu fagnandi og vilja samkvæmt yfirlýsingum í rauninni ganga miklu lengra í niðurskurði í sambandi við fjárlagafrv. jafnhliða því sem þeir taka þátt í að skerða tekjurnar og kistuleggja áformin um skattlagningu á fjármagnstekjur og að gera einhverja alvöru úr hátekjuskattlagningu og öðru slíku til tekjuöflunar. Það væri jafnvel frekar að þúfu eins og hv. 3. þm. Austurl., væri trúandi til að velta hlassi með því að koma eigin flokki og samstarfsaðilum í uppnám út af tveimur millj. kr. Það væri miklu líklegra en að hæstv. félmrh. færi að bregða einhverjum fæti fyrir þetta frv. Ég held að aðilar hvort sem þeir eru innan þings eða utan, ég tala nú ekki um fjölmiðlana, ættu nú að hætta að taka það alvarlega þegar hæstv. félmrh. þykist vera í ólund út af tillögum í ríkisstjórninni og ætli sér að gera eitthvað með málin.
    Virðulegur forseti. Ég á hlut að brtt. á þskj. 344 við fjárlagafrv., þar sem tillaga er gerð um breytingu á tekjuhlið fjárlagafrv. þannig að tekjurskattur félaga verði ekki lækkaður heldur haldi því stigi sem nú er og tekjuhliðin verði sem svarar rösklega hálfum milljarði hærri en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Ég mun

ekki fjalla efnislega um þessa tillögu sérstaklega, ég er ekki 1. flm. hennar, það mun sá hv. þm. gera, mæla fyrir því. En til ráðstöfunar á þessum hálfa milljarði eða þar um bil gerum við með þessari tillögu ráð fyrir því að virðisaukaskattur sem lagður hefur verið á farþegaflutninga með innanlandsflugi og með almenningsfarartækjum sem og virðisaukaskattur á bækur verði felldur niður með breytingu á lögum þar að lútandi. Þetta er mjög þýðingarmikið mál, þetta er byggðapólitískt mál og þetta er sanngirnismál fyrir þá sem nota almenningsfarartæki hér á aðalþéttbýlissvæði landsins og þetta er stórt menningarmál að því er varðar útgáfu og kaup á bókum í landinu.
    Á tveimur þskj. er ég einnig flm. að brtt. Á þskj. 339 stend ég að brtt. ásamt þremur öðrum þingmönnum Alþb. þar sem lagt er til að nýr liður komi inn á fjárveitingu til Hafrannsóknastofnunar, nýr liður sem beri heitið Klak- og hrygningarrannsóknir á þorski, að upphæð 14 millj. kr.
    Í athugasemdum hv. sjútvn. við fjárlagafrv. segir m.a., örstutt tilvitnun. --- Hvar skyldi nú formaður fjárln. vera? Hefst ekki hv. formaður fjárln. við í þingsal loksins þegar hann er kominn til þings heldur stendur á skrafi hér í hliðarsölum? Ef hv. formaður fjárln. gæti nú viðbundist aðeins og hlýtt á mál manna því ég er að víkja hér að brtt. sem skiptir talsverðu máli og kannski meira máli en sýnist fljótt á litið. Ég tala nú ekki um upphæðina 14 millj. kr. sem ekki er há, sem lagt er til að færist til Hafrannsóknastofnunar til rannsókna á klaki og hrygningu þorskstofnsins.
    Sjútvn. segir um þetta, með leyfi forseta:
    ,,Fram kom að gert er ráð fyrir nánast óbreyttum fjárlögum frá því sem var á þessu ári. Nefndin bendir á að fjárframlög til rannsókna voru skorin niður á fjárlögum þessa árs`` --- þetta varðar sem sagt Hafrannsóknastofnun --- ,,sem er hættuleg þróun og gera þarf allar hugsanlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þessi niðurskurður endurtaki sig. Nefndin gerir þó engar tillögur til breytinga á frv. að svo stöddu.``
    Ekki er kveðið fastara að og ekki er skýrt hvort brtt. sé að vænta á milli umræðna eða í tengslum við þetta frv. en það er greinilegt að það er gengið á þófum í kringum þetta mál, þessa hættulegu þróun sem sjútvn. er sammála um að nefna svo og það er sannarlega ekki of fast að orði kveðið.
    Ég ætla aðeins að ræða þetta mál. Það tengist tillögum sem ég flutti við síðustu fjárlagagerð fyrir árið 1993. Þá var þróunin kannski ekki alveg eins hættuleg eins og hún virðist vera nú. Þá var kannski meiri von um að hægt væri að fjármagna þessar rannsóknir með öðrum hætti en að til kæmu framlög frá ríkinu á fjárlögum. En þeim tillögum var í engu sinnt heldur. Þá var beðið um 10 millj. kr. Svo var beðið um 5 millj. kr. og allt saman fellt.
    Um þetta mál segir Hafrannsóknastofnun í erindi til fjárln., með leyfi forseta. Að vísu eru það tvö atriði sem ég ætla að koma að sem snerta stofnunina en fyrst þetta:
    ,,Hrygningar- og klakrannsóknir voru t.d. styrktar í rúmt ár af hagsmunaaðilum í sjávarútvegi. Þessi hagsmunasamtök hafa hins vegar gert okkur ljóst að ekki verði um frekari styrki að ræða.`` --- Hafa gert okkur ljóst að ekki verði um frekari styrki að ræða. --- ,,Markmið þessa verkefnis er að kanna ýmsa eiginleika hrygningar og klaks hjá þorski við Ísland og auka þannig skilning okkar á þeim þáttum sem segja til um nýliðun og lífsafkomu þorskungviðis. Áhersla er lögð á að meta framlag einstaka stærðar (aldurshópa til hrygningarinnar) með því að bera saman lífslíkur hrogna og lirfa þessara hópa. Þessar rannsóknir hafa aðeins staðið í tvö ár en nauðsynlegt er að halda þeim áfram enda virðast þær vera að varpa nýju ljósi á þennan mikilvæga þátt í ævi þorsksins. Þannig benda niðurstöður til að líkurnar á að fá góða nýliðun aukist ef margir hlutfallslega gamlir árgangar eru til staðar í hrygningarstofninum. Áframhaldandi rannsóknir munu því m.a. leiða í ljós hvort elstu árgangarnir leggja meira af mörkum til að viðhalda stofninum heldur en þeir árgangar sem eru tiltölulega nýkomnir inn í hrygingarstofninn. Slíkar niðurstöður mundu hafa mjög mikil áhrif á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um nýtingu þorskstofnsins.``
    Ég leyfi mér að endurtaka þetta og bið hæstv. fjmrh. einnig að leggja við hlustir. Það varðar hugsanlega niðurstöðu þessa verkefnis sem hefur staðið í tvö ár og ég veit að varaformaður fjárln. hlustar því hann hefur sýnt áhuga á fiskirannsóknum og virðist gera sér ljósa þýðingu þeirra miðað við hans málafylgju hér í þinginu. Þarna segir: ,,Slíkar niðurstöður mundu hafa mjög mikil áhrif á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um nýtingu þorskstofnsins.`` Þetta eru stór og ákveðin orð sem hér eru töluð. Getur þingið leyft sér það í ljósi þessarar áherslu frá ráðgjafarstofnun sinni, Hafrannsóknastofnun, að hunsa beiðni stofnunarinnar um fjárveitingu í þessum efnum? Beðið var um 26 millj. kr. Ég var nú ekki svo bjartsýnn að ætla mönnum að samþykkja það fyrst fjárln. tók þetta ekki upp í heild sinni. En legg hér til ásamt fleirum sem flytja þessa brtt. 14 millj. kr. eða rétt röskan helming til þessa verkefnis sem fjárveitingu í von um að það megi þrátt fyrir allt fá aðra aðila til að leggja til þessa verkefnis eða að fá eitthvert fjármagn úr svokölluðum upptökusjóði sem sjútvrn. fer með og sem hugsanlega gæti miðlað einhverju fjármagni til hafrannsókna nú eins og stundum áður.
    Ég vil biðja hv. formann fjárln. og varaformann nefndarinnar um að líta til þessa máls við áframhaldandi umfjöllun því ég ætla mér ekki að láta þetta mál ganga hér til atkvæða við 2. umr. ef vart verður við einhvern vilja til að skoða málið frekar.
    Það eru fleiri þættir sem varða Hafrannsóknastofnun sem þingið þyrfti að taka á með öðrum hætti heldur en raun ber vitni og þar nefni ég viðhald hafrannsóknaskipanna. Skipin tvö hin gömlu góðu hafrannsóknaskip, Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson, eru komin á þriðja tug ára, reyndar Árni Friðriksson 26 ára gamalt skip og Bjarni Sæmundsson 23 ára og og kostar að sjálfsögðu verulegt viðhald árlega og stofnunin hefur sótt þar um ákveðið fjármagn, fór fram á tæpar 50 millj. kr. en er afgreidd með litlum 30 millj. kr. Hvers konar afgreiðsla er þetta af hálfu þingsins? ( SigG: Það er engin afgreiðsla enn þá.) Það verður dýrt að kaupa nýtt skip þegar að því kemur og það kemur fyrr að því ef ekki er staðið þokkalega að viðhaldi í sambandi við skipin. Formaður fjárln. greinir hér frá því utan úr sal að engin afgreiðsla liggi enn þá fyrir varðandi málið og það er vel. Ég bið hann að taka einnig á þessu máli til þess að þarna verði orðið með eðlilegum hætti við þessari tillögu því að ég held að þarna sé ekkert ofætlað af hálfu stofnunarinnar þegar um viðhaldið er að ræða.
    Ég tók eftir að hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir tók vel undir þessa tillögu sem ég hef verið að ræða varðandi klak og rannsóknir og ég veit að það verður hægt að fá hér liðsinni úr mörgum áttum í þinginu, það er í reynd stuðningur við þetta mál og ég treysti einnig hæstv. fjmrh. til að hjálpa til við að þetta lífshagsmunamál okkar allra að auka vitneskju í brýnustu þáttum okkar þjóðarbúskapar að við það verði staðið þegar ekki er nú farið fram á meira heldur en raun ber vitni.
    Virðulegur forseti. Þá kem ég að brtt. sem ég flyt á þskj. 340 í fjórum liðum. Þar er í fysta lagi farið fram á fjárveitingu til Orkusjóðs til jarðhitaleitar í Austur-Skaftafellssýslu, framlag 3 millj. kr. Á þessu svæði hefur það ánægjulega gerst nú að undanförnu við rannsóknir, sem studdar hafa verið með vissum hætti af opinberri hálfu en heimamenn hafa einnig lagt til allmyndarlega þar á meðal frá Höfn í Hornafirði og einstaklingar sem hafa lagt til þessara rannsókna, að við þær hefur komið í ljós að á þessu svæði er að finna jarðhita, von um jarðhita, sem gæti hugsanlega verið nýtanlegur til hitaveitu fyrir þéttbýlið á Höfn í Hornafirði svo og til nota fyrir bændur til heimilisnota og atvinnurekstrar á nokkrum öðrum svæðum í sýslunni. Þarna er um að ræða, að því er virðist við þær rannsóknir sem komnar eru, þrjú svæði aðallega. Eitt í Nesjum, aðallega við Hoffell og Miðfell í Nesjum og þar er nú verið að bora og þar eru vísbendingar allar jákvæðar. Síðan er það í Suðursveit og einnig í Öræfasveit. Og með þessari fjárveitingu ætlast ég til að heimaaðilum gefist færi á að leita eftir styrkjum á móti eigin framlagi til stuðnings við jarðhitaleit til örvunar í þessu áhættusama fyrirtæki sem það vissulega er. Þar er mikið við að glíma allt frá byrjun, yfirborðskönnunum og grunnum borunum að ekki sé talað um nýtingu hugsanlega í framhaldinu.
    Það er eðlilegt og sjálfsagt að af opinberri hálfu sé stutt við slíka viðleitni og það auðvitað víðar heldur en á þessu svæði sem hér er þó tekið sérstaklega vegna þess að þarna hefur fundist vísbending um jarðhita meiri en annars staðar sem gæti orðið til nytja en sem betur fer erum við vel á veg komin að nýta jarðhitann í sambandi við húshitun í þéttbýli víða um land. Ekki meira um þessa tillögu.
    Þá flyt ég tillögu í öðru lagi um litla eina millj. kr. til Náttúruverndarráðs. Nánar tiltekið vegna friðlands á Lónsöræfum. Þetta er svæði sem hefur verið afskaplega lítill sómi sýndur þótt það hafi verið friðlýst með auglýsingu menntmrn. 1977. En þangað streymir nú æ meira af ferðafólki enda hefur þetta svæði upp á alveg óvenjulega mikla náttúrufegurð og fjölbreytni að bjóða. Hér er lögð til fjárveiting sérmerkt til þessa verkefnis nánar til tekið til skipulags á svæðinu, merkinga, leiðbeininga og landvörslu. Þarna er búið að reisa þrjá ferðamannaskála en að öðru leyti er svæðið afar illa undir það búið að taka við þeim straumi ferðamanna sem gert er ráð fyrir inn á svæðið og það varðar bæði náttúruverndina en einnig öðryggisatriði fyrir ferðafólk. Svæðið er flókið, hættusamt fyrir ókunnuga og þá sem ekki eru vanir að ferðast í íslenskri náttúru þar sem hún er hvað stórbrotnust. Og það hefði nú verið gaman fyrir hv. fjárln. að koma á þetta svæði, líka fyrir landbn., sem lagði land undir fót, á síðasta sumri eins og rómað var og nokkuð umrætt. Þannig að þetta svæði svíkur engan sem það sækir heim. En það þarf líka að búa þannig um hnúta að svæðið þoli aukinn ágang og að öryggismál séu þar í viðunandi horfi.
    Þá er í þriðja lagi tillaga sem ég flyt um framlag til skipulagsstjóra ríkisins vegna skipulags miðhálendis landsins 2,5 millj. kr. Um þetta efni er fjallað í áliti umhvn. til fjárln. og með þessum hætti, virðulegur forseti, ef ég má vitna aðeins í þetta álit:
    ,,Í máli skipulagsstjóra ríkisins kom fram að verkefni Skipulags ríkisins munu aukast á næsta ári, m.a. með gildistöku laga nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum. Þá liggur fyrir að sértekjur stofnunarinnar munu lækka vegna samdráttar í nýbyggingum. Í skýringum með fjárlagafrv. kemur fram að auknum kostnaði skuli mætt með skipulagsbreytingum og hagræðingu í rekstri. Umhvn. vill sérstaklega vekja athygli á að í lögum nr. 73/1993, um breytingu á skipulagslögum, nr. 19/1964, er kveðið á um vinnu við skipulag miðhálendis Íslands. Ekki er gert ráð fyrir fjárveitingu til starfsemi miðhálendisnefndar sem þessi lög gera ráð fyrir í frv. til fjárlaga fyrir árið 1994. Umhvn. leggur áherslu á mikilvægi þess að tryggð verði fjárveiting til að standa straum af kostnaði við störf nefndarinnar, miðhálendisnefndar, en hann hefur verið áætlaður 2,5 millj. kr.``
    Til hvers er það, virðulegur forseti, að afgreiða og samþykkja fyrir forgöngu ríkisstjórnar sérstakt lagafrv. um skipulagsmál miðhálendisins og ætla síðan ekki fjárveitingu til þess að tryggja að á grundvelli þeirra laga verði unnið og ætti þó öllum að vera ljós nauðsyn þess að taka á skipulagsmálum þeirrar gersemi sem miðhálendið er.
    Það væri þess virði, virðulegur forseti, að ræða hér um stöðu mála að því er varðar umhverfismálin, umhvrn. sérstaklega. Ég hef ekki lagt á mig að kalla eftir hæstv. umhvrh. sérstaklega, vegna þess að hér er auðvitað ekkert tækifæri til þess að ræða þessi mál eins og þyrfti að vera. Til þess þyrftum við alveg sérstaka umræðu í reynd, ef vel ætti að vera. En staðan er sú í fjárveitingum á vegum umhvrn. að þar er um lækkun að ræða frá því sem var á síðasta ári í málaflokki þar sem þörfin er jafnbrýn og ætti að vera augljóst, í málaflokki sem alveg nýlega hefur verið sameinaður í einu ráðuneyti, á meðan víða í löndunum í kringum okkur hefur verið tekið myndarlega á og fjárveitingar stórauknar til þessara mála. Þar er eitthvað skemmra á milli orða og efnda, orðs og æðis, heldur en hér gerist, þar sem menn eru í hátíðarræðum og þess utan að skreyta sig með lofsyrðum um framsækna stefnu og mikinn hug í umhverfismálum. Ríkisstjórnin kemur með skýrslu um hvernig hún ætli að standa að þeim málum með fögrum fyrirheitum, en þegar kemur til áherslna við fjárlagagerð þá sjást ekki mikil merki um þetta í reynd, því miður. Og satt að segja er hörmulegt að vaskur maður, eins og ég vil halda að hæstv. umhvrh. geti verið, skuli láta bjóða sér þá meðferð sem þessi málaflokkur fær við fjárlagagerðina.
    En með litlu mætti þó aðeins um bæta eins og tillögur standa hér til um og kem ég þá að 4. lið í brtt. sem er um Landmælingar Íslands. Þar er gert er ráð fyrir nýjum lið undir heitinu DMA-kortagerð upp á 14 millj. kr. sem umhvn. fjallaði einnig um í sinni umsögn og tók mjög eindregið undir tillögu stofnunarinnar um fjárveitingu til þessa verkefnis. Formaður umhvn. gerði skýra grein fyrir því máli í ræðu sinni fyrr við þessa umræðu og vísa ég til þess sem þar kom fram. En sem kunnugt er þá er kortagerð, sem lengi hefur verið vanrækt hér í landinu, undirstaða undir skipulagsvinnu og öll vitræn vinnubrögð varðandi landnýtingu og landnotkun. Því ætti að vera auðunnið verk að fá stuðning við þá stefnu sem felst í því að nýta þann samning sem gerður hefur verið milli Íslands og Bandaríkjanna í sambandi við kortagerð og kort sem hafa verið hér til sölu en sem nýtast afskaplega lítið vegna þess að þau hafa ekki verið aðlöguð íslenskum aðstæðum sem skyldi. Mun það verða til kostnaðarauka fljótlega, því á nákvæmari kortum þurfum við að halda. Hér er um að ræða kort í mælikvarðanum 1:50.000 og þetta mál verðskuldar athygli og stuðning.
    Ég hef með þessu, virðulegi forseti, nefnt þær tillögur sem ég stend að, fyrir utan tillögur sem ég flyt með hv. þm. Svavari Gestssyni, sem hann mun vafalaust gera skil hér í umræðunni og ég ætla ekki að fjalla um frekar. Ég vil hins vegar fara fáeinum orðum um þrennt til viðbótar sem tengist umræðunni hér, þrjú mál sem ég vildi aðeins víkja að. Þar sem þau snerta meiri hluta fjárln. og þar á meðal þingmenn úr kjördæmum sem koma þar við sögu, þá hefði ég ekki á móti því að forseti gerði hv. 3. þm. Vestf. viðvart að ég ætli að víkja hér að máli sem snertir Vestfirði og hv. 3. þm. Suðurl. einnig varðandi mál sem nokkuð hafa borið hér á góma og snerta Suðurlandskjördæmi, nánar tiltekið Vestmannaeyjar. Ég ætla ekki að fara að vekja upp hv. 5. þm. Austurl. þó að ég víki aðeins að því ásteytingarefni sem hann hefur gefið tilefni til nú síðustu sólarhringana, en ekki hef ég neitt á móti nærveru hans hér fremur en annarra hv. þm.
    Ég tek eftir því að á málasviði umhvn. sem ég á sæti í eru tillögur um nýja liði og það situr ekki á mér að fjargviðrast út af því eða hafa á móti því að inn á þann málaflokk komi nýir liðir og sjálfur er ég að gera tillögur þar að lútandi og tel að það beri allt að athuga vel og vandlega sem þar eru gerðar tillögur um. Ég tók eftir því að hér er komin tillaga um sérstaka fjárveitingu, að vísu ekki hár liður upp á 800 þús., um Náttúrugripasafn á Vestfjörðum. Satt að segja fannst mér birta aðeins til þegar ég sá að hér var komin tillaga um náttúrugripasafn á Vestfjörðum, því ég hef satt að segja lengi verið að horfa eftir því og sjálfur unnið að þessum málum hér á árum, að koma upp slíkri stofnun hinum megin á landinu, og leitaði þá einmitt á náðir hv. Alþingis. Ég held að fyrsta bónarbréfið til þingsins hafi verið um lítinn styrk á móti heimaframlagi, að vísu óverulegan styrk sem við nutum í náttúrugripasafninu í Neskaupstað um lengri tíma að nafn þeirrar stofnunar bar hér á góma. Síðar vann ég að frumvarpssmíð í nefnd sem hv. fyrrv. menntmrh. Svavar Gestsson setti á laggir vegna Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofa í landshlutunum sem eru hugsaðar sem framhald eða frekari uppbygging á rannsóknastarfsemi sem sums staðar hefur farið fram á vegum náttúrugripasafna. Þá leituðum við einmitt upplýsinga um það á þeim tíma, líklega 1989, hvað væri að gerast sem víðast á landinu, fá það kortlagt. Þá kom í ljós að á Vestfjörðum var ekki að finna vísi að náttúrugripasafni, við fundum hann ekki, það gaf sig enginn fram þó leitað væri. En nú virðist vera að rofa þarna til og ég vil biðja hv. formann fjárln. að skýra okkur frá því og aðra í meiri hluta fjárln. sem bera þetta fram, hvaða góðu tíðindi hafa hér orðið í þessum efnum, hvaða stofnun er þarna risin sem á að veita stuðning um 800 þús. kr. Ekki efa ég að þar liggi fyrir stofnsamningur og menn séu komnir eitthvað áleiðis, því yfirleitt hefur það verið skilyrði fyrir slíkum fjárveitingum, og þarna sé um mótframlag að ræða. Væri æskilegt að fá upplýst í hvaða samhengi þessi tillaga er gerð. Hefði hún legið fyrir, skrifleg umsókn um þennan stuðning í umhvn., þá hefðum við að sjálfsögðu getað skoðað málið þar, en þetta hefur komið hér inn á milli umræðna og því er eftir þessu spurt. Þá ætla ég ekki að eyða frekari orðum að þessu, en ég óska Vestfirðingum til hamingju ef þeir eru að fá stofnun á þessu sviði þarna hjá sér og vona að vel megi farnast. En þar sem ekki er um að ræða stuðning samkvæmt fjárlagafrv. til annarra hliðstæðra náttúrugripasafna, þá er um sérstakt mál að ræða sem hlýtur að byggja á sérstökum aðstæðum eða slíku, því ella hljóta þeir að spyrja sem fyrir slíkum rekstri standa hvort ekki sé í þessa matarkistuna að leita fjárveitinga á nýjan leik, því um skeið nutu nokkur náttúrugripasöfn stuðnings á fjárlögum.
    Þá ætla ég aðeins að víkja nokkrum orðum að máli sem hefur orðið umræðuefni fyrr í þessari umræðu, virðulegi forseti, sem er uppbygging á aðstöðu í Vestmannaeyjum vegna sjávarútvegsrannsókna. Kemur hér inn milli umræðna tillaga um nýjan lið í því efni og þar hefur orðið tilefni talsverðrar umræðu og spurninga. Ég ætla að bæta hér örfáum orðum við umræðuna sem orðið hefur um þetta. Ég vil taka skýrt fram að mér finnst að öll mál sem varða þetta svið, þörfina á rannsóknum á sviði sjávarútvegsmála, verðskuldi alla athygli. Hér hefur verið á það minnst að Alþingi samþykkti þáltill. sl. vor um sérstaka áherslu á eflingu sjávarútvegsrannsókna á Eyjafjarðarsvæðinu. Hér liggur fyrir tillaga um nýjan lið, fjárveitingu upp á 13,8 millj. kr., vegna rannsóknaraðstöðu í Vestmannaeyjum. Þegar svo ber við að fjárln. tekur slíkan lið upp, þá er eðlilegt að spurt sé hvernig standi nú á því að það birti til í þessum efnum og við sjáum fjárveitingu upp á þó þetta myndarlega upphæð, án þess að málið hafi mikið verið kynnt áður eða mikið verið í umræðu. Mér sýnist að málið liggi þannig nokkuð ljóslega. Það hefur verið unnið starf heima fyrir til þess að undirbúa þetta mál í samvinnu við ákveðnar deildir í Háskóla Íslands. Það liggur fyrir samningur eða drög í formi viljayfirlýsingar um þetta samstarf Háskóla Íslands og Vestmannaeyjabæjar sem er undirstaðan undir þessa fjárveitingu og hér er ýmislegt athyglisvert á ferðinni. En hitt er líka nokkuð ljóst að þetta mál hefur borið býsna skjótt að og hefur ekki orðið mikið samráð út fyrir veggi þeirra sem hér standa að málinu. Það er nokkuð ljóst að menntmrn. hefur lítið að þessu máli komið, sem yfirmaður Háskóla Íslands, og það liggur jafnframt fyrir eða ég tel mig hafa upplýsingar um það að Hafrannsóknastofnun hafi ekki verið spurð einu orði um þetta mál og þá á ég við aðalstöðvar Hafrannsóknastofnunar. Hér er látið að því liggja að útibúið í Vestmannaeyjum verði þátttakandi og þurfi á húsnæði að halda, en ekkert hefur verið spurst fyrir um málið hjá Hafrannsóknastofnun, a.m.k. liggur ekkert fyrir frá þeirri stofnun hvernig henni lítist á þetta sambýli og samvinnu, sem hér er verið að efna til. Þetta segi ég til viðbótar við það sem komið hefur fram, sem ber vott um það að menn hafa flýtt sér mikið í málinu og það ber nokkuð nýrra við þegar tillaga af þessum toga fær þennan byr og það er ekkert minna en svo að orðið er við beiðninni að fullu. Það er beðið um 13,8 millj. kr., þær eru veittar. Það ber eitthvað nýrra við. Það er eitthvað annað en það sem hin gróna Hafrannsóknastofnun má búa við þegar hún sendir inn erindi sín varðandi hin mestu alvörumál og rannsóknir. Við þurfum í rauninni á því að halda í þessum málum að stilla vel saman. Við þurfum á því að halda. Og við þurfum auðvitað að stíga á stokk saman til þess að tryggja margfalt aukið fjármagn í sambandi við sjávarlífsrannsóknir og vistfræðilegar rannsóknir á hafsvæðum við Ísland. Það er lífsnauðsyn fyrir þessa þjóð að þar verði öðruvísi staðið að málum. Við erum á mikilli hættuslóð stödd varðandi aðalauðlind landsmanna, sjávarauðlindirnar. Og það er tækniþróunin og veiðiaðferðirnar sem eru auðvitað að gera þetta æ brýnna. Það er slík bylting í veiðum og veiðitækni að líkurnar á stórslysum hafa margfaldast fyrir utan það að lífsskilyrðum sjávar, uppeldisskilyrðum botndýra, er verið að raska því það hlýtur að vera öllum áhyggjuefni hvað hlýst af því að hleypa botnvörpunni um allar slóðir í kringum landið, eða mjög víða, með þeim hætti sem raun ber vitni og umbylta lífsskilyrðum á botni. Þetta er nú undirstaðan undir okkar þjóðarbúskap svo að ég bið menn að horfa hér vel í kringum sig í þessum efnum og reyna að stilla sem best saman í sambandi við rannsóknastarfsemi á þessum sviðum. Það er verið að stofna fyrsta prófessorsembættið, er mér tjáð, í fiskifræði held ég að það sé nú kallað, eða á þessu sviði við Háskóla Íslands. Sá prófessor sem á að nota aðstöðuna í Vestmannaeyjum að sagt er, það er ekki búið að ráða hann. Ég veit ekki hvort nokkur getur svarað því hvort sá prófessor muni hafa áhuga á því að stunda rannsóknir í Vestmannaeyjum, en það er eitt af grunninum undir þessu. (Gripið fram í.) Sá ágæti þingmaður sem er hér aðaltengiliður, samkvæmt þessum samningi, og stjórnin á að hafa samráð við, er náttúrlega yfirumsjónarmaður alls sem tengist þessu máli, það er alveg ljóst. Og ég vil segja það að þessi hv. þm. á allt gott skilið fyrir áhuga sinn og dugnað í sambandi við þetta mál, allt gott skilið fyrir það. Mér dettur ekki í hug að kasta steini til hans vegna þess að hann hefur lagt sig fram um það sem þingmaður Suðurl. að ná í peninga og hjálpa til að skapa þarna samstarf og annað, en ég set svolítið spurningarmerki við það að fjárln. sé á örfáum dögum búin að skrifa upp á fjárveitingarbeiðnina óskerta á sama tíma og fjölmargt annað er skorið niður við trog. Það er svona ákveðið spurningarmerki sem ég set við þau vinnubrögð, en ég er ekki þar með að vísa málinu frá, það er langt frá því. En menn þurfa líka að hugsa til þess, hvað hefur Alþingi sagt og hvað hefur Alþingi ályktað nýverið og hafa eitthvert samhengi í málsmeðferð.
    Virðulegur forseti. Það er rétt að ég dragi hér senn í land með mitt mál, þó hér sé auðvitað af mörgu að taka ef farið væri að ræða þessa fjárlagagerð og margt sem tengist henni, ég tala nú ekki um ef aðeins er skimað út fyrir mörk þess árs sem hér er horft til og margt í þróuninni sem þörf væri á að ræða. Satt að segja er það með fádæmum, virðulegur forseti, að við skulum ekki hafa haft umræðu um atriði eins og þennan samning sem ég minntist á í upphafi, sem sumir eru að vona að skelli á, verði að veruleika innan skamms, og samninganna sem kenndir eru við GATT, sem sumir virðast halda að muni veita heldur fjöri í heimsviðskipti og heimsbúskapinn. Það skyldi nú ekki vera að það fari eitthvað líkt um það eins og vonirnar með þennan EES-samning, en ég ætla ekki að fara að efna til þeirrar umræðu í sambandi við frv. til fjárlaga. Það er hins vegar umræða sem þörf væri á að fram færi hér núna þegar menn eru hugsanlega á

vegamótum að þessu leyti. Ég hef reyndar nýlega í öðru samhengi mælt nokkur aðvörunarorð úr þessum ræðustól að því er snertir þennan margumrædda GATT-samning sem reynt er að mála upp í rósrauðum litum og gylla, en er nú e.t.v. ein varðan í svona heldur óglæsilega slóð sem þjóðir heims eru að feta um þessar mundir.
    En það var aðeins í lokin þetta litla mál þarna austan að sem ég vildi nefna, virðulegur forseti. Ég ætla að vona að það verði ekki mönnum að vinslitum, hvorki þingmönnum Austurlands né milli þingflokka, sú brtt. sem ég á hlut að ásamt þremur öðrum þingbræðrum að austan. En ég ætla ekki að efna til sérstakrar umræðu um það núna, aðeins geta þess að það eru algerlega órannsakanlegar leiðir sem hafa orðið þar til að skilið hefur á milli þingmanna Austfirðinga út af því máli og er sérstakt athugunarefni hvernig það má verða að menn fari að skipta sér upp í þeim efnum að fenginni reynslu sem við höfum þarna úr kjördæminu frá því fyrir tveimur árum, sem ætti nú ekki að hvetja til þess að fara í ágreining út af þessu efni. En það fær væntanlega niðurstöðu fyrir jólahátíð sem nálgast óðum.
    Ég vildi að lokum, virðulegur forseti, ítreka hvatningu mína til fjárln., forsætisnefndar þingsins, og raunar okkar allra, að láta verða af því sem fyrst upp úr jólum að endurmeta störf þingsins að því er varðar fjárlagagerð og allt sem henni tengist. Ég held að kominn sé tími til að svo verði og okkur auðnist að láta umræðu og athugun mála í tengslum við fjárlagagerðina verða að öðrum og gildari þætti en hún raunverulega er hér í okkar störfum og sérstaklega að umræða um þessi efni geti orðið til að lyfta okkur svolítið upp úr hjólförum. Hún leiði til bæði bættrar, efnislegrar meðferðar á þeim fjármunum sem við höfum úr að spila og við náum þeim árangri sem hugur þorra þingmanna og allra stefnir í raun að, þó að ágreiningur sé um leiðir að marki og hversu djúpt skuli seilst og hvar skuli seilst í vasa þegnanna í landinu og um ráðstöfun þess fjár sem við öflum í sameiginlegan sjóð.