Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 02:40:59 (2493)


[02:40]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég læt mér nú í léttu rúmi liggja skæting eins og þann sem hv. þm. flutti varðandi mín störf hér, m.a. það að ég hefði ekki verið viðstaddur ræðu formanns fjárln. Málið liggur ekki þannig að það sé nein mætingarskylda á mönnum í þeim efnum. Auk þess er til aðferð sem heitir Sýn.

(Fjmrh.: Hefur hv. þm. ekki mætingarskyldu?) Í sjálfu sér hef ég mætingarskyldu en eins og hæstv. ráðherra veit, þá er það ekki þannig að þingmenn sitji hér yfir framsöguræðum í einstökum atriðum. Auk þess var ég að sinna starfi fyrir Alþingi nákvæmlega á þessum tíma þannig að ég kann satt að segja ekki við skæting af þessu tagi sem ég held að ég hafi ekki sýnt með mínum störfum hér á Alþingi að ég eigi skilið. Það þætti mér mjög sérkennilegt ef það væri.
    Í öðru lagi varðandi iðnn. fannst mér það einnig óskaplega ómerkilegt hjá hv. þm. af því að iðnn. skilaði til hans núna snemma í þessari viku, af því að ég lagði í það vinnu að ná fullri samstöðu allra nefndarmanna, líka stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar, í þessari nefnd. Ég skora á hv. þm. að kynna sér hvernig þessum málum víkur við, m.a. með því að ræða við hv. varaformann iðnn., hv. þm. Gísla Einarsson.
    Ég endurtek svo spurninguna frá því hér áðan. Stendur til að loka meðferðarheimilinu á Staðarfelli á næsta ári? Þetta var eina spurningin sem ég bar fram fyrir þingmanninn en hann svaraði ekki.