Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 03:57:09 (2502)


[03:57]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af síðustu orðum hv. ræðumanns vil ég eingöngu minna á að við megum ekki gleyma genginu, hvernig það hefur þróast. Raungengi íslensku krónunnar hefur aldrei verið hagstæðara samkeppnis- og útflutningsatvinnugreinunum en nú. Tryggingargjald ferðaþjónustunnar verður lækkað. Aðstöðugjaldið, sem hann títt ræddi, hefur horfið úr sögunni. Allt þetta hefur komið til móts við þessa atvinnugrein. Auðvitað er ljóst að það verður einhver hækkun í greininni, en við verðum að taka þá með hvernig gengið hefur þróast.
    Númer tvö, og það skiptir miklu máli, er að átta sig á því að það er ekki bara hægt að tína til skattahækkanirnar sem urðu á yfirstandandi ári. Það má ekki gleyma því að það varð lækkun skatthlutfalls hjá fyrirtækjum og á því tapaði ríkið 800 millj. á heilu ári, en á móti kom breikkun á stofni sem svaraði til hækkunar upp á 400 millj. Samtals tapaði ríkið á heilu ári um 400 millj. Það má ekki gleyma því heldur að það hefur orðið breyting á vörugjöldum sem lækkuðu tekjurnar um 300 millj. og gjaldeyrisskattur var lagður á upp á 100 millj. Þannig að það voru breytingar í hina áttina líka á yfirstandandi ári. Það er hins vegar alveg rétt að skattar hækkuðu nokkuð, en munu lækka verulega á næsta ári.
    Við skulum fara yfir reikninginn hvernig hann lítur út. Ríkið lækkar tekjuskatt um 1,5% vegna aðgerðanna í sambandi við sveitarfélögin. Við fellum niður skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði upp á 470 millj. og framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verður 500 millj. Þessu má ekki gleyma. Þetta er tekjutap ríkisins. Það nefndi hv. ræðumaður ekki nokkurn skapaðan hlut og þetta rennur að sjálfsögðu til sveitarfélaganna. Menn verða að sjá alla myndina fyrir sér í einu.