Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 03:59:26 (2503)


[03:59]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hvað varðar hið fyrra sem hæstv. ráðherra nefndi, þá er búið að reikna út áhrif þess að fella niður aðstöðugjaldið í því dæmi sem ég nefndi og ég vil einnig nefna það að þegar gengið er skráð, eins og hæstv. ráðherra vék að, þá kemur það auðvitað seljandum til góða, en á móti getur það líka þýtt að hinn erlendi ferðamaður þarf að borga meira. Þannig að auðvitað er þetta tvíbent.
    Hvað varðar áhrifin gagnvart sveitarfélögunum og breytingar í tengslum við tekjustofna þeirra, þá tók ég eftir því að hæstv. ráðherra mótmælti því ekki að við tilflutninginn á því sem menn gerðu í fyrra, hækkunina um 1,5% í tekjuskatti, lækkun persónuafsláttar og hátekjuskatturinn, sem menn tóku sér til þess að mæta aðstöðugjaldi og eru núna að flytja yfir til sveitarfélaganna, þá verða eftir um 1.100 millj. í ríkissjóði vegna þess að persónuafsláttur er lægri og þess að hátekjuskatturinn verður áfram og síðan þar að auki koma 1.125 millj. inn í ríkissjóð og til sveitarfélaganna í formi þess að menn taka hærra samanlagt í tekjuskatt og útsvar en áður.
    Hvað varðar það sem hæstv. ráðherra gat um, 500 millj. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, þá vil ég minna ráðherrann á að ætlunin er að ríkissjóður taki aukna skatta af bensíni til þess að vega á móti landsútsvari. Þannig að ríkissjóður ætlar ekki að gefa neitt á því. Og ég minni ráðherrann á að það á að hækka sérstakt framlag frá sveitarfélögum í Atvinnuleysistryggingasjóð úr 500 millj. í 600 millj. sem þýðir í raun 100 millj. kr. hækkun og þar er verið að framlengja skerðinguna á framlagi ríkissjóðs í Lánasjóð sveitarfélaga.