Meðferð EES-mála á Alþingi og framtíð þingmannanefndar EFTA

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 10:30:43 (2509)

[10:30]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Þó að Evrópskt efnahagssvæði hafi gengið í gegnum mjög erfiðar fæðingarhríðir, þá virðist nú fátt geta komið í veg fyrir að það verði að veruleika í janúar nk. Í því sambandi hlýtur sú spurning að vakna hvernig Alþingi sé í stakk búið til að takast á við ný verkefni á Evrópsku efnahagssvæði, þ.e. til að hafa áhrif á nýjar gerðir, nýjar tilskipanir sem munu gilda á Evrópsku efnahagssvæði og fyrir Ísland eins og aðra. Hvernig Alþingi sé í stakk búið til þess að tryggja þingræðislegt eftirlit með framkvæmdarvaldinu í þessu máli þegar farið verður að semja um þær nýju tilskipanir sem eiga að gilda á öllu þessu svæði.
    Þegar ég spyr mig þeirrar spurningar, þá hlýtur svarið að vera að Alþingi sé mjög illa í stakk búið til að takast á við þetta og hér hafi ríkt ákveðinn sofandaháttur í þessum málum því það er ekkert form komið enn þá á samráðið á milli ráðherra og þings í þessum málum, þ.e. með hvaða Alþingi ætlar að hafa þetta þingræðislega eftirlit með þeim samningaviðræðum sem ráðherrar munu verða í núna eftir áramót um tilskipanir og gerðir sem gilda munu á Evrópsku efnahagssvæði. Ég hef ekki séð neinar tillögur um þetta efni hérna og ekki orðið vör við að það hafi farið fram sérstök umræða.
    Og þá vil ég geta þess líka að framtíð þingmannanefndar EFTA er mjög óráðin og eins hvernig hagað verður þingmannanefnd á Evrópsku efnahagssvæði. Þingmannanefnd EFTA, Íslandsdeildin, er að fara á fund í Vín 16. des. og þar er á dagskránni að gera grein fyrir því hvernig þjóðþing EFTA-ríkjanna ætla að standa að þessum málum og haga þessu samráðsferli. Og þá er skemmst frá því að segja að við getum ekkert sagt á þessum fundi vegna þess að við vitum ekki hvernig þessum málum verður háttað. Þess vegna sný ég mér til forseta, nú og formanns utanrmn. þess vegna, og formanns þingflokks Sjálfstfl. sem mér finnst að eigi að vera ákveðnir frumkvæðissaðilar í þessu máli og spyr: Hvað er að gerast og hvernig hyggjast menn halda á þessum málum?