Meðferð EES-mála á Alþingi og framtíð þingmannanefndar EFTA

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 10:32:57 (2510)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Forseti vill byrja á því að þakka hv. 10. þm. Reykv. fyrir að gera fyrir fram aðvart um að hún mundi taka þetta mál upp hér í upphafi fundar og gefa forseta tækifæri til að undirbúa svarið frá sinni hendi. En vegna þessarar fyrirspurnar vill forseti taka fram að hún hefur fylgst vel með þeim málum sem hv. þm. hefur vakið athygli á og gerir sér grein fyrir að mikilvægt er að hér á Alþingi náist samkomulag um þau mál fyrir jólahlé. Hér er að dómi forseta í meginatriðum um tvö mál að ræða, annars vegar hvernig haga skuli meðferð EES-mála á Alþingi og hins vegar hvernig haga skuli þátttöku Alþingis í þingmannastarfi EES-ríkjanna.
    Hvað varðar meðferð EES-mála á Alþingi þá er forseta kunnugt um að utanrmn. á von á greinargerð á næstu dögum frá skrifstofu þingsins um meðferð EES-mála á Alþingi og sérstaklega umfjöllun um

EES-mál á mótunarstigi og samráð Alþingis og ríkisstjórnar í þeim efnum. Forseti væntir þess að á grundvelli þeirrar greinargerðar muni utanrmn. sem hefur haft með EES-málið að gera móta sína afstöðu til þess hvernig um EES-mál verður fjallað á Alþingi þegar samningurinn hefur tekið gildi 1. jan. nk.
    Hvað hitt málið varðar þá liggur fyrir forsætisnefnd tillaga frá Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA um tilhögun á þátttöku Alþingis í væntanlegri þingmannanefnd EES. Á fundi forsætisnefndar 15. nóv. sl. var ákveðið að fresta afgreiðslu þeirrar tillögu, þó ekki væri efnislegur ágreiningur um það mál, þar til fyrir lægi jafnframt tillaga um meðferð EES-mála á Alþingi. Hér er um tengd mál að ræða og því eðlilegt að gengið sé frá skipan beggja málanna á sama tíma. Forseti verður að viðurkenna að niðurstaða um þetta efni hefði þurft að liggja fyrir í byrjun þessa mánaðar en það hefur því miður ekki tekist. Forseti væntir þess hins vegar að þessi mál muni skýrast á allra næstu dögum og vonast til að um þau megi nást víðtækt samkomulag milli þingflokkanna. Hér er vissulega um mikilvægt mál að ræða sem varðar störf þingsins og því eðlilegt að formenn þingflokka fjalli um það í samráði við forseta og forsætisnefnd þegar heildartillögur liggja fyrir.