Meðferð EES-mála á Alþingi og framtíð þingmannanefndar EFTA

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 10:37:59 (2512)


[10:37]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það hefur ítrekað verið vakin athygli á því í umræðum hér á þessum vetri hvernig ríkisstjórnin stendur að málum sem tengjast samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og hversu andvaralausir þeir virðast vera sem bera ábyrgð á þessum samningi að því er Ísland varðar. Þetta var m.a. rætt hér sl. nótt í umræðum um fjárlagafrv. Það er mjög eðlilegt að hv. 10. þm. Reykv., Ingibjörg Gísladóttir, hafi áhyggjur af þessu máli eins og aðrir, enda ber hún ásamt meiri hluta hér á Alþingi ábyrgð á því að þetta mál er þar statt sem raun ber vitni. En auðvitað verða menn að taka samningi sem þessum eins og hann liggur fyrir og það hefur ríkisstjórnin og þinglið hennar sem studdi samninginn sannarlega ekki staðið í ístaðinu. Fyrir utan það sem nefnt hefur verið almennt, þá hafa safnast upp á fjórða hundrað samþykktir hjá Evrópubandalaginu frá því 31. júlí 1991 sem hafa verið afgreiddar og lögfestar þar eða með þeim hætti sem það gerist innan EB. Þessi pakki mun liggja á borðum EES-ráðsins væntanlega á fyrsta fundi og það er algerlega ósamið um þetta á fjórða hundrað atriði sem þarna eru á dagskrá.
    Hæstv. utanrrh. fullyrðir að samningurinn verði í höfn 1. jan., hann verði staðfestur næsta mánudag. Það má vera. Í blöðum, m.a. Dagens Nyheder frá 7. des., eru menn að gera því skóna að það kunni að verða um seinkun að ræða vegna fyrirstöðu hjá Frakklandi að leggja inn staðfestingarskjöl. Um það skal ég ekki dæma. Það mun reynslan leiða í ljós, en það hefur gerst alloft í þessu máli að það hafa komið sker sem það hefur steytt á.