Meðferð EES-mála á Alþingi og framtíð þingmannanefndar EFTA

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 10:40:29 (2513)


[10:40]

     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég vil þakka hv. 10. þm. Reykv. fyrir að vekja máls á þessu máli sem hér er til umræðu nú undir þessum lið. Ég vil skýra frá því að á vegum utanrmn. í samræmi við ákvörðun sem tekin var innan vébanda hennar á síðasta vetri hefur verið unnið varðandi undirbúning þessa máls og ég á von á því að á mánudaginn kemur, sama dag og formlega verður væntanlega gengið frá því að EES-samningurinn taki gildi frá og með 1. jan. nk. verði lögð fram í nefndinni álitsgerð frá starfsmanni nefndarinnar, forstöðumanni nefndadeildar Alþingis, um þetta mál sem verði grundvöllur viðræðna milli þingflokkanna í nefndinni og vafalaust á milli þingflokkanna um það hvernig haga skuli aðild Alþingis að framgangi mála eftir að EES-samningurinn tekur gildi. Það má auðvitað segja að æskilegt hefði verið að menn hefðu fyrr hafið umræður um þetta á vettvangi þingsins, en það var ekki fyrr en 22. nóv. sl. sem síðasta þjóðþingið afgreiddi þetta mál frá sér og enn á eftir að ganga formlega frá skjölum þannig að samningurinn taki gildi 1. jan. nk. En í þessu máli þurfa menn að taka afstöðu til ýmissa álitaefna og vonandi tekst okkur að gera það með skipulegum hætti á þeim tíma sem við höfum til stefnu á grundvelli þeirrar álitsgerðar sem verður kynnt í utanrmn. á mánudaginn ef svo fer fram sem horfir.