Skuldastaða heimilanna

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 13:31:17 (2530)

[13:31]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að ræða þá miklu fjárhagserfiðleika sem steðja að einstaklingum og heimilum vegna skuldastöðu þeirra sem sífellt fer vaxandi og hefur keyrt úr hófi síðustu ár. Þannig er talið að heildarskuldir heimilanna séu í dag um 260 milljarðar kr. Hér er um ógnvekjandi tölur að ræða sem valda því að sá hornsteinn sem heimilið er riðar nú allt of víða til falls og því

miður verður að viðurkenna að sá válegi gestur sem fátæktin er og fylgifiskur hennar, angistin og vonleysið, knýja nú dyra á Íslandi að nýju eftir margra áratuga fjarvist.
    Tilgangur þessarar umræðu er að vekja athygli á þessu vandamáli og hvetja ríkisstjórnina til skjótra aðgerða. Það sem vekur athygli er að þrátt fyrir það hvernig komið er í þessum málum hefur engin markviss athugun farið fram á þessu máli hér á landi og stjórnvöld láta sig þetta því miður litlu varða. Við þekkjum það erlendis frá hvernig aðrar þjóðir bregðast við hliðstæðum vanda hjá sér en það eitt nægir ekki hér. Það er í þessu sem öðru frumskilyrði þess að leysa vandann að þekkja hann og greina rétt. Ríkisstjórnin verður að sveigja af þeirri leið sinni sem vörðuð er því miður allt of mörgum mistökum.
    Ég beini þeirri eindregnu áskorun til ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega hæstv. forsrh. að hann, án tafar, komi á fót starfshópi er skoði þessi mál og skili markvissum tillögum til lausnar í þessu mjög svo alvarlega máli.
    Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja um 11 milljarða í nýjum sköttum á einstaklinga, eins og gert var, er auðvitað fásinna á sama tíma og tekjumöguleikar þessa fólks hafa verið stórlega skertir, m.a. með styttingu vinnutíma og meira atvinnuleysi en mælst hefur á Íslandi. Á meðan skattbyrðin er að sliga hinn almenna launamann liggja um 70 milljarðar á einkareikningum í bönkum án þess að af þeim séu greiddir skattar og um 12 milljarðar liggja óinnheimtir vegna skattsvika.
    Hér er rekin sú stjórnarstefna að gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari. Alþfl. er sem bandingi hjá frjálshyggjuliði Sjálfstfl. og sameinaðir veitast þeir nú af fullum þunga gegn því velferðarkerfi sem hér hefur verið byggt upp og heimilin fara ekki varhluta af þeirri stefnu. Alþfl. hefur brugðist grundvallarhugsjónum sínum, jafnaðar- og félagshyggju.
    Á sl. sex árum sem Alþfl. hefur farið með málefni fjölskyldunnar í ríkisstjórn hafa skuldir heimilanna vaxið hvorki meira né minna en um 125--130 milljarða kr. Krafa hins almenna launamanns í dag um skilning á auknu réttlæti bergmálar um þjóðfélagið allt. Heimilin, sá hornsteinn sem þjóðfélagið byggir öðrum fremur á, er allt of víða að sundrast vegna ranglátrar stjórnarstefnu og fjárhagslegra erfiðleika. Þau sár sem af því hljótast munu seint gróa, til mikils tjóns fyrir þjóðfélagið allt.
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að sú stutta umræða sem hér fer fram verði til þess að ríkisstjórn og alþingismenn allir verði þess betur meðvitaðir en fyrr hversu nauðsynlegt það er að hér verði strax gripið til varnaraðgerða og þá er tilgangi þessarar umræðu náð.