Skuldastaða heimilanna

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 13:57:15 (2539)


[13:57]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Þetta voru út af fyrir sig ágætar umræður um þessi atriði en ég verð þó að segja alveg eins og er að mér fannst holur hljómur í því hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. þegar hann nefnir að það sé sú ríkisstjórn sem ég veiti forstöðu sem beri mesta sök í því hvað skuldir heimilanna hafa aukist. Þegar plöggin liggja fyrir sem sýna að frá 1980 til 1991, þegar Framsfl. er í stjórn allan tímann, þá fjórfaldast skuldir heimilanna. Það er á þeim tíma sem mest af þessu gerist. (Gripið fram í.) Það kom fram í mínu svari að nú hefur hins vegar hægt á þessari skuldasöfnun, en hún fjórfaldaðist á tíma Framsóknar. Þannig að það var ansi billegt hjá hv. þm. Framsóknar að reyna að klína þessu aðallega á þá ríkisstjórn sem ég veiti forstöðu. En vegna þess hversu skuldirnar eru háar á heimilunum sem við öll tökum eftir, þá er það sú aðgerð sem mestu skiptir gagnvart þeim að vextir fái lækkað. Hv. þm. Framsfl. hafa mjög talað um vaxtalækkun en þeir gerðu ekkert í því. Þeir höfðu að vísu falska tölu á veggnum þar sem vextir voru skráðir en lutu engum lögmálum á markaðnum og vextir fengust ekki á þeim kjörum sem framsóknarmenn trúðu á og horfðu á á veggnum. En núna hins vegar hafa vextir lækkað. Menn töluðu um það hér í umræðum á dögunum að vextir væru ekki að lækka á óverðtryggðum kjörum. Ég sagði þá að það mundi gerast ekki síðar en upp úr áramótum, en sparisjóðirnir hafa þegar tilkynnt að þeir muni lækka nafnvaxtakjörin verulega. Og auðvitað munu aðrir bankar koma í kjölfarið. Það er núna um að ræða verulega raunvaxtalækkun, bæði á verðtryggðum og óverðtryggðum kjörum, og það er sú aðgerð sem best gagnast skuldugum heimilum í landinu.