Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 14:09:16 (2541)

[14:09]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég get hafið ræðu mína þó að hæstv. heilbrrh. sé ekki hér á staðnum því að ég átti við hann orðastað í gærkvöldi en ég sakna þess að hæstv. félmrh. skuli ekki vera hér á svæðinu og spyr forseta hvort hæstv. félmrh. sé væntanlegur.
    ( Forseti (KE) : Forseti getur upplýst að hæstv. félmrh. er í húsinu samkvæmt töflu hér og munu nú þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til að láta hana vita að hennar sé óskað í salinn.)
    Þá hef ég ræðu mína sem verður ekki löng því að eins og ég sagði kom margt fram í gær sem er einmitt í þessu frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Hér hefur verið mikið rætt um það að skólarnir verði látnir bíða enn um sinn með nauðsynlegar umbætur og er það mjög slæmt. Hér kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að það þyrfti aðeins 160 millj. til þess að koma grunnskólamálum í sæmilegt lag. Það er ekki stór upphæð en það er sorglegt á þessum tíma þegar svo erfiðlega horfir í þjóðfélaginu og mörg samfélagsvandamál eru alvarleg að skólunum sé ekki gert kleift að sinna hlutverki sínu eins og lög gera ráð fyrir. Fleiri orð ætla ég ekki að hafa um það, en mér finnst það vera mjög í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar, allt þetta frv.
    Það á að styrkja verkmenntun í landinu, það er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Og það er gert með því að setja sérstök skólagjöld á alla verkmenntaþætti. Það hefur verið talað hér um Tækniskólann og það á að styrkja verkmenntun með því að setja sérstakt skólagjald á Bændaskólann á Hvanneyri, Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal og Garðyrkjuskólann á Reykjum í Ölfusi. Nú kostar það nemanda t.d. að fara á Bændaskólann á Hvanneyri lágmark, bara uppihaldið yfir veturinn 230 þús. kr. Við bætist svo skólagjald. Hér hefur komið fram að það er ekki hátt en það er of hátt fyrir marga.
    Það er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að styrkja atvinnulífið í landinu og það kemur fram á ýmsa vegu. Eins og hv. síðasti ræðumaður gat um áðan er verið að styrkja atvinnulífið t.d. með því að verið er að setja sérstakan skatt á eftirlilt með búvélum sem enginn mun greiða nema náttúrlega bændur. Það eru engir aðrir sem greiða það. Og í 8. gr. þessa frv. finnst mér vera um nokkra réttarbót að ræða, eitt jákvætt atriði. Það er það að þeim sem missa vinnuna vegna þess að fyrirtæki fer á hausinn verði örugglega greitt orlof ofan á laun. Nú er gert ráð fyrir þessari orlofsgreiðslu innan sjóðsins.
    En hvernig er þessi tekjustofn fundinn hér í 8. gr.? Þeir sem greiða sem sé laun og orlof þeirra sem missa vinnuna vegna þess að fyrirtæki missir fótanna, það eru þau fáu fyrirtæki sem enn þá eru lifandi. Þetta er sérstakur skattur á þau fyrirtæki sem enn þá eru lifandi. Það er trúlega til að styrkja og efla atvinnulífið í landinu.
    Síðan kem ég að IX. kafla sem ég hefði gjarnan viljað spyrja hæstv. félmrh. aðeins nánar út í. Mér er sagt að hæstv. ráðherra sé í húsinu. Það er bara örlítil spurning. Virðulegi forseti.
    ( Forseti (KE) : Hæstv. félmrh. er kunnugt um að hennar sé óskað í salinn og ég vænti þess að hún komi innan tíðar, en ég skal ítreka óskina.)
    Það er óþarfi í bili því að ég get haldið áfram ræðu minni og geymt þennan IX. kafla.
    Í gær ræddum við um 10. gr. þessa frv. varðandi ekkjulífeyrinn og kom í ljós að ekkjulífeyrir mun skerðast ef ekkja hefur 70 þús. kr. eða meira. Ég hefði talið skynsamlegra að farið væri eftir framfærslubyrði þeirra sem þessa lífeyris eiga að njóta. Nú er framfærslubyrði mjög mismunandi. Þetta getur verið einstaklingur með mörg börn t.d. og þungt heimili þannig að mér finnst að það eigi að reiknast inn í framfærslubyrði þegar verið er að tekjutengja slíka hluti. Og það er eins með 11. gr. svo að ég haldi áfram með þetta frv. eins og það kemur fyrir af kúnni, þá var það líka rætt hér og kom fram að það er enginn bilbugur á hæstv. ríkisstjórn að reyna að innheimta 25 millj. kr. af áfengissjúklingum í landinu. Að vísu kom það fram hjá hæstv. ráðherra í gær, eða mér fannst koma vissar efasemdir hjá honum um að það væri hægt að innheimta þetta, og reyndar mjög miklar efasemdir og taldi að þá yrðu bara stofnanirnar sem þessir sjúklingar liggja inni á að taka þá skerðingu á sig og hafa þó þurft að taka á sig 500 millj. kr. skerðingu á undanförnum 3--4 árum.
    Það er margsinnis búið að skerða öryrkja gagnvart atvinnuleysistryggingabótum og það er greinilegt að í þessu frv. er áfram höggvið í sama knérunn. Það er ekki tekið til þess aukakostnaðar sem fatlað fólk þarf að greiða vegna fötlunar sinnar.
    Síðan kemur hérna í 16. gr. sem ég tel þurfa miklar skýringar við og kannski getur hæstv. heilbrrh. gefið þær skýringar fyrst hæstv. félmrh. er ekki í salnum. Nú á að hætta að greiða atvinnuleysisbætur til þeirra sem eru í hlutastarfi. Það hefur verið þannig að ef maður er í 100% starfi en svo þrengir að hjá fyrirtækinu --- það er m.a. mjög algengt í fiskvinnslufyrirtækjum vegna minnkandi afla, þá fær fiskvinnslukona t.d. aðeins hálfsdagsvinnu en hefur síðan fengið greiddar atvinnuleysisbætur til að uppfylla þessi 50% sem skerðingin verður á atvinnu. Nú sýnist mér að menn ætli að taka þessa möguleika af og er það afar misráðið, ekki síst í framhaldi af því sem hér var rætt um áðan, hvernig staðan er almennt hjá hinu almenna verkafólki í landinu. Mig langar því til að spyrja hæstv. ráðherra, en það kemur hér fram í greininni að þetta hafi verið misnotað verulega, og ég spyr: Er ekki hægt að hafa betra eftirlit með þessu þannig að þeir sem þurfa á þessu að halda, fái þetta áfram, fái greiddar atvinnuleysisbætur fyrir þessa hálfsdagsvinnu sem þeir tapa?
    Í 20. gr. gert ráð fyrir því að sveitarfélögin leggi áfram 600 millj. kr. til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það er ekkert sérstaklega kveðið á um það í þessu frv. til hvaða verkefna þetta muni síðan vera nýtt, en mér skilst að það sé samkomulag um þetta milli sveitarstjórnanna í landinu og ríkisstjórnar þannig að ég geri ekki ágreining um það.
    En þar sem ég ætla ekki að hafa langt mál, þá er ég farin að sakna verulega hæstv. félmrh. sem ekki er í salnum. Það er lagt til í 9. gr. um hlutverk Framkvæmdasjóðs fatlaðra að á árinu 1994 verði ekki ráðist í nýframkvæmdir. Þessar 330 millj. í Framkvæmdasjóð fatlaðra, sem er upphæð eyrnamerkt Erfðafjársjóði, fari til stoðþjónustu og rekstrar. Út af fyrir sig finnst mér eðlilegt að hluti af þessari upphæð fari til þess, en mig langaði að spyrja hæstv. félmrh., það kann að vera að hún heyri mál mitt --- og eru nú mjög miklar hvíslingar í gangi um hæstv. félmrh. Ég fæ kannski upplýsingar um það innan tíðar hvar hæstv. ráðherra er staddur.
    ( Forseti (KE) : Hæstv. ráðherra er í húsinu og er verið að athuga hvort hún geti ekki komið til fundar nú þegar ef hv. þm. gæti haft örlitla biðlund.)
    Já, þingmaðurinn hefur biðlund. En þar sem þetta er nú alveg í blárestina af minni ræðu, þá mun ég bara standa hér og bíða eftir ráðherra. --- Nú sé ég að hæstv. félmrh. er komin í salinn. Ég er hér að ræða bandorminn, um ráðstafanir í ríkisfjármálum og er að ræða 9. gr. og mig langaði að spyrja hæstv. félmrh. varðandi þá grein og um Framkvæmdasjóð fatlaðra. Það er ekki ráðlagt á þessu ári að fara í neinar nýframkvæmdir ef marka má frv. til fjárlaga fyrir 1994 þrátt fyrir það að í lögum um Framkvæmdasjóð fatlaðra sé ætlast til að sjóðurinn standi fyrir uppbyggingu. Ég viðurkenni að það hefur orðið mikil og myndarleg uppbygging í landinu á sambýlum, en nú á greinilega aðeins að doka við og hluti Framkvæmdasjóðs fatlaðra fer til rekstrar og til stoðþjónustu og til endurbóta á húsnæði. En spurning mín til hæstv. ráðherra er þessi: Hvað líður flutningi vistmanna frá Kópavogshæli? Og eru engir peningar áætlaðir á næsta ári til að flytja fólk frá Kópavogshæli á sambýli? Mig langar líka að spyrja varðandi Sólborg á Akureyri. Mér skilst, alla vega stendur það í frv. til fjárlaga, að það eigi að selja Sólborg og þá reiknast okkur til að það þurfi a.m.k. þrjú ný sambýli fyrir þá einstaklinga sem eru nú á Sólborg. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort fyrirhugað sé að Framkvæmdasjóður greiði þessi þrjú sambýli eða hvort hugsunin sé sú að söluandvirðið fari til að kaupa sambýli og hvernig staðan sé varðandi sölumálin.
    Þetta eru þær spurningar sem mig langar að leggja fyrir hæstv. félmrh.