Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 14:23:35 (2542)


[14:23]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. fyrri ræðumaður beindi til mín nokkrum fyrirspurnum og gerði að umtalsefni þau álitamál sem uppi eru og lúta að mínu ráðuneyti og Atvinnuleysistryggingasjóði sem raunar flyst um næstu áramót í ráðuneyti félagsmála. Þar staldraði hún við 16. gr. sem tekur til þess að þegar fyrirtæki hafa dregið saman starfsemi sína þá hafa starfsmenn fengið atvinnuleysisbætur sem nemur skerðingu dagvinnutíma. Greiðslur þessar hafa þó verið bundnar við hámark 30 bótadaga á almanaksári. Þess hefur orðið vart í nokkrum tilvikum að fyrirtæki hafa í raun og sanni spilað á þessa grein, að orði kveðnu dregið saman seglin, en ekki í raun og þannig hefur Atvinnuleysistryggingasjóðurinn greitt að hluta til laun viðkomandi starfsmanna. Ég vil hins vegar almennt um þær breytingar sem þar eru tilgreindar árétta að þar er um að ræða lagfæringar og endurbætur á rétti þeirra aðila sem þangað þurfa að leita, ekki síður en hitt að tekið er þar á ýmsum misvísunum sem upp hafa komið.
    Varðandi ekkjulífeyri þá er það alltaf undanskilið í þessari umræðu að hér er verið að fara þá leið sem þekkt er í almannatryggingakerfinu í fjölmörgum bótaflokkum að tekjutengja, og er ekki nýtt. Það var umdeilt á sinni tíð en ég hygg að á seinni tímum hafi verið almennari samstaða um það þegar minna fjármagn er milli handa en áður var að beina því takmarkaða fjármagni sem til ráðstöfunar er til þeirra sem mest þurfa á því að halda en síður til hinna sem rýmri fjárráð hafa.