Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 14:25:46 (2543)


[14:25]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. svörin. Við erum sammála um að það á að tekjutengja lífeyri. Þetta er bara spurning um það við hvaða upphæð sé byrjað og líka að það sé skoðað hvaða framfærslubyrði sé á bak við. Það kom sérstaklega fram áðan í máli mínu í sambandi við öryrkja að það sé skoðað t.d. hvað það kostar aukalega að vera öryrki, þannig að t.d. þegar til atvinnuleysisbóta komi þá byrji skerðingin ekki hjá þeim eins og hjá öðrum.
    Hæstv. ráðherra svaraði einnig spurningu minni varðandi 16. gr. þar sem hann telur að það hafi verið mjög spilað á það að fólk sem hafi misst hluta af sinni vinnu hafi nýtt þennan sjóð eða bara hætt, að mér skildist, að vinna nema hluta úr degi til þess að nýta sér þessar bætur. En ég sagði áðan í fyrri

ræðu minni að ég tel að það eigi frekar að auka eftirlit með því að þessar bætur séu ekki misnotaðar. Því að fyrirtæki í dag eru verulega að draga saman seglin og það eru fleiri og fleiri að missa hluta af sinni vinnu þannig að það er alls ekki rétti tíminn til að skrúfa algjörlega fyrir þessa möguleika.