Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 14:27:31 (2544)


[14:27]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðeins örstutt. Ég vil leiðrétta að ég hafi talað um að þetta væri í miklum mæli, ég sagði að þess þekktust dæmi og það er mat manna þó að óvíst sé að þarna kunni að vera einhverjar 5--10 millj. kr. sem hafa verið greiddar vegna þess arna sem mundu þá sparast við þessa breytingu. Eftirlit, jú, vissulega væri það hin æskilega leið en það er ákveðnum takmörkunum háð einfaldlega vegna eðli málsins eins og ég gat um áðan því þegar það er kannski að undirlagi vinnuveitandans að svona skuli gengið til verka og að hann setji launþegann í þau spor að þurfa að fá greidd launin sín með þessum tvískipta hætti, þá eru náttúrlega möguleikar eftirlitsaðila sjóðsins og opinberra aðila ákaflega takmarkaðir. Það er kannski sá þáttur málsins sem menn horfast í augu við og hafa því gripið til þessara ráða.
    Ég skal ekki útiloka það að í einhverjum tilvikum og kannski nokkrum þá komi sér þetta illa þar sem um raunverulegan samdrátt hafi verið að ræða og fólk hafi verið keyrt niður og fyrirtæki þurft að draga saman í rekstri með þeim afleiðingum að vinnumagn starfsmannsins hafi dregist saman en á hinn bóginn hefur þetta líka gerst og það er matið að ekki verði öðruvísi á því tekið en með þeim hætti sem hér um ræðir.
    Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar með ekkjurnar, við munum auðvitað gæta þess að þeirra hagur verði tryggður sem þurfa mest á þessum bótagreiðslum að halda. Það er eðli almannatryggingakerfisins og þess verður auðvitað gætt við úrfærslu reglugerðar í þessu sambandi.