Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 15:46:07 (2554)


[15:46]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er auðvitað laukrétt hjá hv. þm. að þetta frv. felur það í sér annars vegar að taka upp innritunargjöld, skólagjöld í búnaðarskólunum. Þau hafa nú verið í líkingu við það sem hér er. Nemendur hafa greitt efnisgjöpld, pappírsgjöld o.s.frv. þannig að hér er einungis staðfesting á þessu og eðlilegt að hafa þetta hreint og beint. Skólagjöldin eru alls ekki ný. Þau hafa viðgengist hér mjög lengi en á hinn bóginn ekki vakið athygli hér á Alþingi fyrr en eftir að þessi ríkisstjórn tók við völdum. (Gripið fram í.) Þetta er rétt hjá mér.
    Í öðru lagi vil ég segja það um bútæknideild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins á Hvanneyri að hér er gert ráð fyrir því að landbrh. sé heimilt að leggja nokkurt gjald á landbúnaðarvörur til þess að standa straum af kostnaði við vinnu- og verktæknirannsóknir og tilraunir með búvélar og prófanir á þeim hjá bútæknideild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Það hefur verið byggt mjög myndarlegt húsnæði fyrir þessa starfsemi þar efra. Það er auðvitað eðlilegt að þeir sem nota vélarnar standi undir þeim rannsóknum og tilraunum sem rétt þykir að gera og nauðsynlegar eru. Það má vera að sú stund komi að menn telji að óþarfi sé að standa fyrir slíkum tillögum og þá kemur náttúrlega ekki til gjaldtökunnar.
    Varðandi GATT vil ég aðeins ítreka það sem ég hef áður sagt. Við höfum í grófum dráttum fylgt Norðmönnum í sambandi við okkar GATT-tilboð og það hefur verið tekin ákvörðun um að við munum gera það einnig nú.