Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 15:49:02 (2555)


[15:49]
     Jón Helgason (andsvar) :

    Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. svörin. Ég vil fyrst spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé þá ljóst að skólagjöld verði ekki hækkuð frá því sem hann segir að þau hafi verið, þannig að óhætt sé að treysta því að eingöngu sé verið að staðfesta það sem hefur verið en ekki bæta þar neinu nýju við.
    Í öðru lagi vil ég ekki fallast á að það hljóti að vera eðlilegt að leggja nýjan 2% skatt á öll tæki til landbúnaðar miðað við þá aðstöðu sem er í landbúnaðinum og ég rakti hér áðan.
    Í þriðja lagi finnst mér svar hæstv. ráðherra um GATT-tilboðið ekki nægjanlega skýrt. Ég hygg að það hafi átt að svara nú fyrir kl. 4 í dag um það hvort ríkisstjórnirnar stæðu á sínum tilboðum eða gæfu eitthvað eftir. Hæstv. ráðherra hlýtur að vita það nú hvort eitthvað verði eftir gefið eða hvort staðið verði á þessu. Hvort ætlunin sé að gefa eitthvað eftir í samræmi við það sem Norðmenn gera þá er ég auðvitað jafnnær um hvað það er, þar sem mér er ekki kunnugt um að þeir séu búnir að tilkynna það.