Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 17:00:58 (2569)


[17:00]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Menntmrh. staðfestir hér sem sagt að þetta nál. sé til og það hafi verið lagt inn til útvarpslaganefndar. Ég vil þá minna á það að stjórnarandstaðan á enga fulltrúa í þessari útvarpslaganefnd sem situr nú og er að endurskoða útvarpslögin og ég spurði ráðherra hvort við gætum fengið þetta álit upp í hendurnar. Ég vil ítreka þá spurningu vegna þess að ráðherra svaraði henni ekki áðan. Ég held að það geti skipt máli að stjórnarandstaðan viti um nál. þessarar innanhússnefndar sem ráðherra skipaði þó það væri að beiðni útvarpslaganefndar og gæti gefið okkur ýmsar upplýsingar um það hvað menn eru að velta fyrir sér í þessum efnum. Þess vegna spyr ég: Getum við fengið þetta álit?