Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 17:18:52 (2573)


[17:18]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst varðandi ekkjulífeyrinn margnefnda. Ég held að ég og hv. 10. þm. Reykv. séum um margt sammála í þeim efnum. Það hefur sem betur fer margt breyst í atvinnusamsetningu þjóðar okkar og frá því að þessi bótaflokkur var á settur hefur atvinnuþátttaka kvenna aukist stórlega sem betur fer og að því leytinu til, sem betur fer, eru ekkjur nú á tímum virkari þátttakendur í atvinnulífi en áður var. Ég held ég muni það rétt að úttektir sem gerðar hafa verið á bótaþegum í þessum flokki sýni að atvinnuþátttaka sé í kringum 40%, en nú tala ég þó eftir minni.
    En allt að einu. Hér er verið að færa þennan bótaflokk til samræmis við það sem gerist og gengur orðið í almannatryggingakerfinu okkar og í hinni félagslegu þjónustu, að líta til hinna tekjulegu þátta. En vissulega er það hárrétt líka að við þurfum að færa þetta út í auknum mæli með því að eignatengja og skoða fjármagnseign og væntanlega verður styttra í það en ekki.
    Varðandi síðan sértekjur vegna áfengismeðferðar. Ég held að það sé ekki hafsjór á milli mín og hv. þm. í þessum efnum og ég er alveg tilbúinn að skoða það í meðferð nefnda milli umræðna hvernig lagatexti verði með þeim hætti að taki af öll tvímæli því að hér er ekki verið að opna flóðgáttir, ég vil árétta það. Hér er verið að ræða þessa sértæku aðgerð vegna þessarar sértæku meðferðar sem er, eins og hv. þm. sagði réttilega, á landamærum lækninga og félagslegrar meðferðar og það er kannski þetta sértæka í málinu.
    Varðandi Atvinnuleysistryggingasjóðinn, þá vil ég segja það eitt, og kannski getur félmrh. bætt þar um betur, að hér er um það talað við verkalýðshreyfingu að taka upp þráðinn í janúarmánuði og fara yfir sviðið og skoða möguleikana á aukinni hagræðingu og sparnaði í rekstri sjóðsins. Það er út af fyrir sig ekkert hægt að fullyrða um lyktir þeirra mála, en menn hafa tekið höndum saman um það að fara í þær viðræður.