Stjórn fiskveiða

55. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 17:41:36 (2580)


[17:41]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Við þingmenn Alþb. í sjútvn. stöndum að flutningi þessa frv. Við teljum það sjálfsagt mál að grípa til þeirra ráðstafana sem enn er hægt að gera og vonandi geta haft einhver áhrif á það að tryggja betur en ella væri að það sem óveitt er af síldarkvóta yfirstandandi vertíðar fari eins og nokkur kostur er allt til að vinna síld til manneldis. Það ber að vísu að harma það að svo seint skuli gripið til ráðstafana sem ég tel að ljóst hafi verið í ljósi reynslu síðustu vertíðar og strax þegar líða fór á þessa að það stefndi í nákvæmlega sama farið og á síðasta ári og á þetta hafði verið rækilega bent. Ég minni í því sambandi á ágætar og miklar umræður sem urðu um till. til þál. um nýtingu síldarstofna sem hér fór fram fyrir nokkrum vikum síðan. Þetta er 139. mál þessa þings á þskj. 154. Þá var á það bent og það kemur

fram í fylgiskjölum með þeirri tillögu að það væri þegar orðið ljóst að veruleg óvissa væri um það ef svo héldi sem horfði að það tækist að fylla upp í alla sölusamninga sem fyrir lægju hvað þá ef nýir bættust við.
    Reynslan frá síðustu vertíð liggur fyrir og hefur þegar verð gerð hér að umtalsefni. Það verður að segja það alveg eins og er að það er náttúrlega ekki við það unandi, það er ekki nokkur leið að kyngja því að það þurfi að ganga þannig til vertíð eftir vertíð að við verðum af stórkostlegum útflutningsverðmætum og atvinnusköpun vegna þess að hráefnið fari til bræðslu og það berist ekki nóg til þeirra fyrirtækja sem eru að vinna síldina til manneldis.
    Menn ræddu mikið um það hér á undangengnum árum þegar saltsíldarmarkaðirnir miklu voru að lokast í Austur-Evrópu og einkum Sovétríkjunum sálugu hvílíkt áfall það væri fyrir okkur og yfirleitt gekk sú umræða öll út á eitt og hið sama og það var að vandamálið væri að þar með misstum við markaði fyrir síld til manneldis og það mundi skapa hér mikla erfiðleika. En ég held að fæstum hafi þá dottið í hug að svo mundi fara þrátt fyrir það að okkur tækist síðan ekki einu sinni að fylla upp í þá sölusamninga sem eftir stæðu eða tækist að gera á öðrum mörkuðum, en sú hefur orðið reyndin á, því miður, og stefnir í það sama á þessu ári þó vonandi takist a.m.k. að bjarga því svona að verulegu leyti, m.a. með þessu frv. og með því að vel gangi hjá þeim fyrirtækjum sem enn eru að vinna síld til manneldis af fullum krafti. Það þarf auðvitað ekki að fara hér yfir þær röksemdir fyrir því að gera þetta. Það liggur fyrir og er ítarlega rökstutt, m.a. í gögnum frá Þjóðhagsstofnun sem komu fram á síðasta vetri, hvernig söluandvirðið margfaldast við það að vinna síldina í verðmætari manneldisafurðir og ljóst líka að mikil atvinna fylgir því að þannig sé að málunum staðið.
    Ég vil svo láta það koma hér fram með svipuðum hætti og síðasti ræðumaður að ég stend að þessum frumvarpsflutningi og við alþýðubandalagsmenn í trausti þess að málunum verði fylgt eftir. Hér er eingöngu gripið á þeim með þeim þætti að flutt er ákvæði til bráðabirgða sem mun gefa sjútvrh. heimildir til að hafa á þetta áhrif á yfirstandandi vertíð. Ég trúi ekki öðru fyrr en ég tek á því að það sé ekki ætlunin að reyna með einhverjum varanlegum hætti að setja reglur sem tryggja að hægt sé að stýra hráefninu nægjanlega í manneldisvinnsluna og slíkar reglur liggi fyrir vel fyrir upphaf næstu síldarvertíðar. Það er algjörlega nauðsynlegt að það gerist. Því það er ekki hægt annað en viðurkenna að það er viss ágalli á þessu frv. og því að grípa inn í málin svo seint á vertíðinni að það getur leitt til þess að ráðstafanirnar komi nokkuð mismunandi niður á þeim aðilum sem þarna eiga hlut að máli. Sumar útgerðir og margar eru þegar búnar að ráðstafa og nýta allan sinn kvóta en aðrar eiga hann kannski að einhverju leyti eftir og þetta getur vissulega valdið ákveðnu misræmi. Þarna væri miklu æskilegra að almennar reglur lægju fyrir strax við upphaf vertíðar þannig að allir stæðu jafnfætis gagnvart þeim, hvort sem það verður í því formi að samþykkja tillögu okkar þingmanna Alþb. eða með einhverjum öðrum hætti að tryggja að þessi mál verði vandlega skoðuð á næstu mánuðum og síðan lögfestar eða settar þær reglur sem þarf til þess að stjórnvöld hafi þarna nægjanleg úrræði eða hvernig sem að því verður nú staðið og hver sem með það verkefni fer. Auðvitað væri æskilegast að þetta gæti verið sem mest á hendi þeirra sem starfa í greininni sjálfri að sjá um þessa framkvæmd en það virðist alveg ljóst í ljósi reynslunnar að undanförnu að það þarf að grípa þarna í taumana ella einfaldlega valda aðstæður því að allt of mikið af hráefninu fer beint í bræðslu á fyrri hluta vertíðar og þegar líður á hana sitja menn uppi með þessa stöðu ár eftir ár. Það er ekki undir nokkrum kringumstæðum hægt að horfa upp á það að þjóðarbúið verði af þeim sökum af umtalsverðum verðmætum. Hið gagnstæða á auðvitað að vera okkar keppikefli, að ná að færa aukinn hluta af þessum stofni í verðmætari afurðir. Menn binda ekki síst vonir við síldarstofninn, bæði þann sem er hér við land og eins hugsanlega norsk-íslenska stofninn þegar hann --- eða ef sem vonandi verður --- fer að ganga hér aftur upp að landinu. Þá getur það skipt sköpum fyrir þjóðarbúið að við höfum gert allt sem hægt er og í okkar valdi stendur til þess að reyna að byggja upp verðmætari markaði fyrir þessar afurðir.
    Með tilliti til aðstæðna, hæstv. forseti, ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þetta þótt margt mætti um það segja. En ég get fyrir mitt leyti a.m.k. vísað í þá ágætu umræðu sem hér varð um þetta mál þegar þáltill. um nýtingu síldarstofna var til umræðu og þær jákvæðu undirtektir sem það þá fékk að tekið yrði á þessum málum.