Stjórn fiskveiða

55. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 17:53:18 (2583)


[17:53]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Það er nú margt skondið sem rekur á fjörur manna hér í þingsal en ég held að þetta frv. sé nú satt að segja með því skrýtnara sem ég hef séð og það úr þeirri átt sem frv. er ættað þar sem höfuðstöðvar þessa málaflokks er nú að finna í Sjálfstfl. að sjá þar frv. sem byggir á þeirri hugsun að menn ætli að segja sjávarútveginum eða útgerðinni fyrir um það hvað þeir eigi að gera við sinn fisk. Það verður gaman að sjá þegar hæstv. sjútvrh. fer að flytja frv. sem skyldar togara til að landa þorski eingöngu til manneldis. Eða hvaðan í ósköpunum kemur hæstv. ráðherra og sjútvn. það til að fara að flytja frv. um það að skylda þá sem veiða síld til að sjá til þess að aflinn fari til manneldisvinnslu? Hafa menn ekki verið hér árum saman að tala um markað og markaðslögmál? Hafa ekki þeir flokkar sem standa að þessari ríkisstjórn verið að tala um að markaðurinn leysti öll vandamál og menn ættu að fara eftir flæðilínum markaðarins? Fara svo allt í einu að setja einhver lög sem segja mönnum hvað þeir eigi að gera. Ætti ekki frekar að spyrja: Hvers vegna hefur ekki síldin farið til manneldis? og leita orsakanna. Fyrsta spurningin sem vaknar er: Af hverju er þetta þá ekki flutt fyrr? Þarf þá ekki þetta ákvæði að gilda líka fyrir næstu síldarvertíð þannig að það verði alveg örugglega víst að þeir sem veiða síld þá muni gera það rétta við síldina sem hæstv. stjórnvöldum dettur í hug á hverjum tíma að sé best?
    Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að þetta finnst mér afar skrýtið. Þetta finnst mér afar skrýtið. Einhvern tímann hefðu menn talað um forræðishyggju ef aðrir hefðu kannski lagt þetta frv. fram.
    Ég vil líka segja að ég er ekki heldur sammála hinu atriðinu í frv. sem byggir á þeirri hugsun að menn eigi einhverja úthlutaða kvóta sem menn geti síðan yfirdregið frá ári til árs. Ég hélt að það væri að renna upp fyrir mönnum í sambandi við stjórn fiskveiða að það er ekkert víst í þeim efnum og að sú þekking sem hefur verið að koma á undanförnum árum á þessu sviði benti einmitt fremur til hins gagnstæða að menn gætu ekki gengið að fiskinum í sjónum eins og bankainnstæðu. Þannig að menn ættu enn síður en áður að vera að setja löggjöf sem byggði á þeirri hugsun. En ég geri nú ekki stórar athugasemdir við það atriði sem er að finna í 1. gr. frv. þó ég nefni þetta og láti það koma hér fram. En hitt finnst mér alveg með ólíkindum að sjá þetta ákvæði til bráðabirgða og ég efast um að ég nenni nokkuð að vera að styðja það.