Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

57. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 18:24:47 (2589)


[18:24]
     Jón Helgason :
    Herra forseti. Ég ætla að vita hvort hæstv. landbrh. er hér viðstaddur.
    ( Forseti (PJ) : Forseti mun gera ráðstafanir til þess að leita eftir því að hæstv. landbrh. gangi í salinn. Það er óskað eftir hæstv. landbrh.)
    Herra forseti. Ég lýsti yfir andstöðu minni á þeim nýju álögum á landbúnaðinn sem eru lagðar á samkvæmt þessu frv. og ræddi sérstaklega um 5.--7. gr. Ég taldi að það væri aldrei síður en nú að leggja nýjar álögur á landbúnaðinn vegna þess hve aðstæður væru erfiðar og einnig vegna alþjóðasamninga og innti hæstv. ráðherra þá eftir hvernig staða væri í GATT-málum þar sem nú væri verið á lokaspretti samninga. Þá kom það fram hjá hæstv. ráðherra að ríkisstjórnin hefði fallið frá magntakmörkunum við innflutning búvara og þar með eru að engu orðnar þær kröfur sem ríkisstjórnin gerði um það að tekið yrði tillit til þess að hér hafa allar útflutningsbætur verið afnumdar og það hefur hvergi verið gert í öðrum löndum. En ég vil til viðbótar því sem ég sagði áðan spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það hafi verið metið hvaða afleiðingar það hefði fyrir íslenskan landbúnað annars vegar að hækka lágmarksprósentu fyrir aðgang að búvörum og hins vegar að fella niður magntakmarkanir og þá jafnframt hvaða afleiðingar hæstv. ráðherra telji að það hafi fyrir íslenskan landbúnað ef svo fer að samningur verði gerður án þess að magntakmarkanir verði okkur heimilar. Jafnframt vil ég láta í ljós undrun mína á því að þarna hafi ríkisstjórnin í svo veigamiklu atriði fallið frá skilyrðum sínum án þess að hafa neitt samband eða samráð hvorki við hagsmunaaðila, utanrmn. né landbn. Alþingis.
    Ég gagnrýndi það í umræðum fyrr á þessu þingi að verið væri að taka ákvarðanir án þess að þess væri gætt að hafa slíkt samráð en þá sagði hæstv. landbrh. í ræðu sinni, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,En ég held að hitt sé alveg ljóst að eins og landbn. hefur haldið á þessum málum frá öndverðu hefur ekki svo mér sé kunnugt verið gerð nein tilraun til að leyna upplýsingum, hvorki fyrir hagsmunaaðilum`` --- ég tek það svo að þar sé átt við bændastéttina --- ,,né stjórnarandstöðu.``
    Er hér ekki verið að leyna hlutum þegar svo örlagaríkar ákvarðanir eru teknar án þess að þessum aðilum sé sagt það fyrir fram að stefnubreyting hafi orðið hjá hæstv. ríkisstjórn? Og af hverju var ekki hægt að láta þessa aðila fylgjast með málum og fá þá afstöðu þeirra? En ég tel að ef það hefði fengist hefði það verið styrkur fyrir hæstv. landbrh. Og þá sýnist mér nú eftir að þetta er farið að harla lítið sé eftir af því sem sagt var að hæstv. landrh. hefði verið að togast á við hæstv. utanrrh. um áður en tilboðið var sent út á sl. hausti.