Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

57. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 19:00:32 (2595)



[19:00]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir upplýsingar sem hann gaf hér til viðbótar því sem áður var. Það er ekki staður né stund til þess að ræða þetta öllu ítarlegar núna og allra síst í stuttu andsvari, en ég held að það hafi komið glöggt fram í hans fyrri orðum hér í umræðunni í dag að það hefði verið um tvo kosti að velja, annaðhvort að halda magntakmörkunum og þá ekki nema í sex ár og þá að hækka lágmarksaðganginn eða hækka ekki lágmarksaðganginn og halda magntakmörkunum. Ég gat a.m.k. ekki skilið það á annan hátt og það hafi verið ákveðið að velja þá leið að hækka ekki lágmarksaðganginn. Ég er út af fyrir sig ekkert að dæma um það hér að það hafi verið rangt, en það sem ég gagnrýni enn og það sem kom fram í andsvörum hæstv. ráðherra nú síðast er að hafa ekki samráð við hagsmunaaðila

eða nefndir þingsins. En væntanlega verður þetta mál rætt frekar hér áður en langt um líður og þá í betra tómi.