Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

57. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 19:02:22 (2596)


[19:02]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Þetta verða aðeins örfá orð. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir lýsti áhyggjum sínum af þróuninni í málefnum grunnskólans. Hv. þm. er ekki ein um það að hafa áhyggjur af grunnskólanum og ég trúi því ekki að þær áhyggjur hafi allt í einu komið upp núna á síðasta ári eða svo. Ástæðan fyrir því að ég setti grunnskólalögin og framhaldsskólalögin reyndar líka í endurskoðun var einmitt sú að ég deili þessum áhyggjur með þingmanninum og fleirum. Það hefur nefnilega komið í ljós að við höfum ekki verið alveg á réttri leið í þessum efnum og vitneskjan um það er alveg nægileg til þess að setja þessi mál í ítarlega endurskoðun.
    Ég er alveg sammála því að það þarf að kanna áhrif aðgerða undanfarinna ára og ekki bara aðgerðanna í fyrra á grunnskólann. Það er sjálfsagt að gera það og af mistökum eigum við að læra. En ég bendi á það að þótt ég hafi sett þessi mál í endurskoðun, þá sýndist ekki öllum að það væri tímabært eða yfirleitt nokkur ástæða til þess. Það var mjög harðlega gagnrýnt í byrjun að þessi lög skyldu sett í endurskoðun. Ég heyri að vísu minna þær gagnrýnisraddir núna.
    Hv. þm. minntist á Lánasjóð ísl. námsmanna og í því sambandi upplýsi ég það að þótt það hafi lítillega verið kannað af starfsmönnum lánasjóðsins sjálfs hver áhrif nýju laganna hafi orðið, þá er ætlunin að setja ítarlegri athugun af stað og ég hef boðið stúdentum, samtökum þeirra, aðild að þeirri könnun. Það hefur ekki verið gengið endanlega frá því með hvaða hætti aðild þeirra verður, en ég tel alveg sjálfsagt að þeir fái að koma sínum sjónarmiðum að og það verði ákveðin samvinna og samstarf á milli lánasjóðsins og samtaka stúdenta um athugun á áhrifum þessara lagabreytinga.
    Um skólagjöldin skal ég ekki segja mikið. Ég geri mér alveg grein fyrir því að við erum ekki sammála um hvað eru skólagjöld og heldur ekki hvort þau hafi tíðkast áður. Ég er hérna með skrá um innheimtu skólaárið 1992--1993, bæði í það sem kallað er hér dagskólar og svo í öldungadeildum sem við skulum ekki vera að blanda inn í þetta því að það er allt annað mál, en þar er það sem kallað er innritunargjöld og getur verið samheiti yfir öll þessi gjöld sem eru innheimt í skólakerfinu. Þau er mjög misjöfn. Ég hef séð þau hæst hér --- og þá ætla ég ekki að telja iðnskólana því að þar er þetta hærra, 16 þús. kr. þar --- en í sumum framhaldsskólanna eru innritunargjöldin allt upp í 10 þús., upp í 11 þús. raunar, og þau skiptast milli skólasjóða og nemendafélaga. Mér er alveg ljóst að það sem hefur runnið til skólanna sjálfra, skólasjóða sem svo er kallað, hefur áreiðanlega verið nýtt til hinna mikilvægustu málefna og þar á meðal til þess að styrkja ýmsa starfsemi nemendanna. Það eru sem sagt ekki eingöngu nemendasjóðirnir sem hafa styrkt starfsemi nemendanna. Það er hluti af þeim fjármunum sem hefur runnið til skólans sjálfs. Það sem hefur hins vegar vantað, og er ekki til enn en eru til drög að í menntmrn., er að það hefur aldrei verið sett reglugerð á grundvelli laganna frá 1991 og raunar heldur ekki eldri grunnskólalaga um innheimtu þessara svokölluðu innritunargjalda. Við þurfum að koma þessu í fastara form og það gerist áreiðanlega með nýrri löggjöf um grunnskólann.
    Um fjárframlögin til Tækniskólans og lækkun þeirra hef ég svo sem engu við að bæta það sem segir í greinargerðinni með fjárlagafrv. og hv. þm. las hér upp, að það verði reynt að ná lækkun á rekstrargjöldum með almennri hagræðingu eins og þar segir og svo er hér bætt við: t.d. með samdrætti í kennslumagni. Þetta hefur ekkert verið afráðið en verður að sjálfsögðu farið fram á það við skólann að hann geri það sem unnt er til þess að halda sig innan þess ramma sem fjárlögin ákvarða honum. En bein fyrirmæli koma ekki frá ráðuneytinu í þeim efnum fremur en gagnvart öðrum skólum.
    Hv. þm. sagðist ekki átta sig á því hvernig fræðsluskrifstofurnar gætu komið inn í hugmyndir um sparnað og samdrátt, það var í sambandi við þennan 100 millj. kr. sparnað sem um getur í greinargerð með fjárlögunum. Fræðsluskrifstofurnar koma þannig inn í þetta --- ég er ekki að tala beint um þó að það sé auðvitað hluti af því, sparnaður í beinum rekstri fræðsluskrifstofanna, þá koma fræðsluskrifstofurnar mjög sterkt inn í allt skipulag skólahalds í grunnskólum fræðsluumdæmanna. Það var það sem ég átti við þegar ég nefndi þær.
    Svo að lokum um skólamáltíðirnar. Hv. þm. sagðist ekki skilja hvers vegna löggjafinn gæti ekki gefið sveitarfélögunum frelsi í þeim efnum. Það má raunverulega segja að með því að ákvæði þessa frv. um skólamáltíðirnar verði samþykkt, þá hafi sveitarfélögin einmitt fullt frelsi. (Gripið fram í.) Jú, þau hafa þá frelsi til þess að koma á skólamáltíðum eins og þau höfðu áður. Það var hins vegar lögð á þau skylda. Árið 1991 var lögð á þau skyldan til þess að koma á skólamáltíðum. Við erum að létta af þeim þeirri skyldu á meðan svona árar því að það árar ekkert verr hjá þeim en hjá ríkinu. Það er eingöngu það sem við erum að gera, en við erum ekki að leggja bann við því. Það má ekki túlka þetta ákvæði þannig að það sé verið að leggja bann á sveitarfélögin að þau komi á skólamáltíðum. Ef þau treysta sér til þess, þá gera

þau það, að sjálfsögðu.
    Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.