Svör við fyrirspurnum

58. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 13:30:22 (2599)

[13:30]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hér hljóðs um stjórn þingsins er að í upphafi þessa þings lagði ég fram fsp. á þskj. 51, sem var til menntmrh., um afleiðingar útboðs á ræstingu í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu. Það leið nú og beið og eins og sést á númerinu, þetta er 48. mál þingsins, þá hefði ég ekki átt að fá svar svona löngu síðar, en ég fékk það fyrir u.þ.b. viku síðan. Og það verður að segjast eins og er, virðulegur forseti, að ég er afskaplega ósátt við þetta svar, enda er það mjög ófullkomið. Þannig kemur t.d. fram í svari við 3. lið fyrirspurnar minnar --- en þar er beðið um að fá upplýsingar um þær breytingar sem hafa orðið á tímamælingu á ræstingu í einstökum skólum í kjölfar verklýsingar frá verktaka. Svarið er það að fyrir útboð voru greiddar um 500 klst. á dag vegna ræstingar í skólunum 13 sem var boðið út, en upplýsingar frá verksala um fjölda greiddra stunda á dag eftir að samningar voru gerðir eru ófáanlegar. Þannig er svarið og það er ekkert útskýrt nánar hvernig á því stendur að þessar upplýsingar eru ófáanlegar.
    Í 5. lið fyrirspurnar minnar er ég að spyrja um það hversu margir einstaklingar hafi orðið fyrir tekjuskerðingu vegna breytinga á fyrirkomulagi ræstinga. Svarið þar er í rauninni stutt og laggott. Upplýsingar um tekjubreytingar einstaklinga eru ófáanlegar er sagt þar líka og er engin útlistun nánar á því eða upplýsingar gefnar hvernig á þessu stendur.
    Það verður að segjast eins og er, virðulegur forseti, að þegar svarið við tveimur meginliðum þessarar fyrirspurnar er það að upplýsingar séu ófáanlegar, þá er í rauninni ekkert svar komið við fyrirspurninni og engar ályktanir hægt að draga af þessu máli, eins og ég auðvitað ætlaði mér. Og ég ætlaði að fá nánari upplýsingar um það hverju þetta útboð hefði skilað, ekki síst hvaða áhrif það hefði haft á stöðu og kjör þeirra sem vinna í skólunum.