Heilbrigðisþjónusta

58. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 13:43:50 (2606)


[13:43]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. Finnur Ingólfsson beindi til mín fjórum fyrirspurnum. Í rauninni er eitt og hið sama svar við þeim öllum, eins og raunar kom fram í hans orðum, að um þessi mál hefur ekki náðst eins víðtæk samstaða og vonir stóðu til um. Og m.a., eins og hann gat um og raunar spurði einnig, þá hafa verið skiptar skoðanir um það, annars vegar hér í höfuðborginni og hins vegar úti um land, hvort Heilsuverndarstöðin í Reykjavík ætti að gegna miðlægu hlutverki fyrir landið allt og vera eins konar miðstöð heilsugæslunnar á landsvísu ellegar að hún ætti fyrst og síðast að vera hér kjarninn í starfsemi heilsugæslunnar í Reykjavík, eins og raunar var komið inn á í þriðju spurningu hv. þm.
    Það er alveg hárrétt sem hv. þm. nefndi að meðal þeirra atriða sem mjög hafa verið til skoðunar er hvort núverandi starfsemi Heilsuverndarstöðvarinnar, sem lýtur að hluta til heilsugæslu í Reykjavík, eigi þar heima, nefni ég þar heimahjúkrun sem dæmi, ellegar hvort það eigi með skipulegum hætti að færa þá stafsemi í auknum mæli og raunar algerlega í náinni framtíð út á heilsugæslustöðvarnar. Í því samhengi hafa menn auðvitað líka rætt um sjálfstætt starfandi lækna í heilsugæslunni hér í Reykjavík og sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðinga og spurt sig þeirrar grundvallarspurningar hvort ekki sé tími til kominn að taka þau mál svipuðum tökum og gerist og gengur í sveitarfélögum út um landið allt. Þar gegna heilsugæslustöðvarnar sem slíkar þessari víðfeðmu þjónustu sem Heilsuverndarstöðin hér í Reykjavík gegnir að hluta til, sem sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðingar ráðnir hjá Tryggingastofnun ríkisins og sjálfstætt starfandi læknar sömuleiðis hafa með höndum að hluta til hér í Reykjavík. Þetta kann út af fyrir sig ekki að öllu leyti að tengjast því frv. sem hér um ræðir, en er þó auðvitað náskylt viðfangsefni. Því vil ég segja það eitt til þess að svara spurningum hv. þm. að það álit sem fram kemur árið 1991 er auðvitað meðal þeirra atriða sem nú er verið að fara yfir. Ég bind vonir við að um þetta geti náðst allþokkalegt samkomulag, þannig að fyrir þinglok í vor geti komið hér fram frv. sem þingið geti tekið afstöðu til og vonandi afgreitt. Ég nefni fleiri álitamál sem uppi hafa verið í þessu sambandi og vafalaust hafa verið rædd hér í þinginu sl. vor, án þess að ég geti fullyrt um það. Það er hlutverk landlæknis í þessu samhengi, hvar hann komi inn í bæði stjórnsýslu þessarar stofnunar og efnislega starfsemi hennar. Þannig að hér erum við kannski að ræða um fleiri þætti heldur en eingöngu form og stjórnun þessarar stofnunar þegar grannt er skoðað. Þessi álitamál vakna a.m.k. og ýmis önnur mjög hratt og ákveðið til lífsins þegar menn setjast yfir málefni Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík og vilja reyna að marka henni framtíðarsess í íslensku heilbrigðiskerfi.