Sjálfbær atvinnuþróun í Mývatnssveit

58. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 14:03:23 (2610)


[14:03]
     Frsm. umhvn. (Kristín Einarsdóttir) :
    Frú forseti. Fyrst vil ég segja það að ekki var ætlun umhvn. að renna þessu máli óræddu í gegn frekar en öðrum málum, því umhvn. fjallaði mjög ítarlega um þessa tillögu á síðasta þingi og nokkuð á þessu þingi. Á síðasta þingi voru ýmsir kallaðir til viðræðna --- og ég vil leyfa mér að lesa hér upp úr bréfi umhvn. til allshn. frá því í fyrra. En þeir sem komu til fundar við nefndina í fyrra voru Jón Pétur Líndal sveitarstjóri, Stefán Thors skipulagsstjóri, frá Skipulagi ríkisins, Ingvi Þorsteinsson og Unnsteinn Gíslason, Þóroddur F. Þóroddsson framkvæmdastjóri, frá Náttúruverndarráði, og Arnþór Garðarsson. Þetta mál var hins vegar flutt á 115. löggjafarþingi og svipuð tillaga flutt áður, þannig að það var bæði sent til umsagnar þá og haft samráð við bæði sveitarstjóra og aðra og reyndar sveitarstjórn.
    En það sem ég ætla aðallega að tala um varðandi það sem hv. þm. sagði hér áðan, að þá felst ekki í þessari tillögu afstaða til hvorki Kísilgúrverksmiðjunnar eða þeirrar starfsemi sem er í Mývatnssveit. Það sem kemur fram í tillögu nefndarinnar er að það verði höfð hliðsjón af skýrslu Skipulagsins um umhverfismat og ég vænti þess að hv. þm. hafi lesið hana. En ég ætla til upprifjunar að benda á að þar er gert ráð fyrir fjórum tillögum. Ein tillagan gerir ráð fyrir nánast óbreyttu fyrirkomulagi, þ.e. að engar stórvægilegar breytingar verði á fólksfjölda það verði rúmlega 500 manns og það verði óbreytt. Önnur tillagan gerir ráð fyrir að íbúar hreppsins verði í lok skipulagstímabilsins 1.000 manns, þannig að það verði verulegar breytingar þar á, iðnaðarsvæðum fjölgað og Kísilgúriðjan verði starfrækt áfram. Þriðja tillagan gerir ráð fyrir að það verði u.þ.b. 700 íbúar í lok skipulagstímabilsins. Í þeirri tillögu er gert ráð fyrir að það verði breytingar á atvinnuháttum og m.a. sú að Kísiliðjan hætti í áföngum, annar atvinnurekstur verði tekinn upp.
    Ég vil lesa hér upp, með leyfi forseta,     ,,Atvinnutækifærum fjölgar í ýmsum smáiðnaði, verslun, þjónustu og ferðaþjónustu.`` Þetta er tillaga c.
    Svo er þriðja tillagan. Hún er að það verði fækkun fólks í Mývatnssveit og rekstri Kísiliðjunnar verði strax hætt. Umhvn. hefur ekki tekið afstöðu til neinnar af þessum tillögum. Síðan gengur skýrslan út á það að meta áhrif þessara tillagna á ýmsa þætti. Þar er tekið fyrir, landbúnaður, atvinnuvegur, opinber þjónusta og ýmislegt fleira. Það er reynt að meta og vega áhrif á hina ýmsu þætti, bæði mannlífs, umhverfis og fleira og fleira.

    Þannig að þetta er eingöngu grunnur til að reyna að byggja á og við í umhvn. tökum enga afstöðu til hvorki eins eða annars af þessu. Hvorki hvort það eigi að halda áfram því sem er núna, breyta eða taka upp nýtt. Þó held ég að flest okkar vilji efla atvinnulíf í Mývatnssveit og auka, en við ræddum það ekki út frá því að taka afstöðu til einnar eða annarrar tillögu sem hér koma fram. Við töldum það ekki vera okkar hlutverk heldur ætti það að vera hlutverk Byggðastofnunar í samvinnu við Skipulag ríkisins, Náttúruverndarráð og sveitarstjórn Skútustaðahrepps.
    Að verið sé að tala um sjálfbæra atvinnuþróun er auðvitað svo sjálfsagt, vegna þess að öll atvinnuþróun á að vera það hér á landi og reyndar alls staðar. Við göngum út frá nýtingu auðlinda, við ætlum ekki að ganga á höfuðstólinn heldur einungis taka renturnar eins og venjulega er sagt. Auðvitað verðum við að ganga að einhverju leyti á óendurnýjanlegar auðlindir, en við verðum þá að meta það hversu langt við ætlum að ganga í þeim efnum og það er alltaf mat. Það verður auðvitað að taka inn í það mat sem hér er verið að gera alla mögulega þætti bæði umhverfið, mannlífið og hvaðeina sem menn telja sig þurfa að taka tillit til þegar verið er að fjalla um þessa tillögu.
    Þegar tillagan var flutt á 116. löggjafarþingi þá var vitnað til álits ýmissa aðila sem létu álit sitt í ljós að því er varðaði atvinnuþróun í Mývatnssveit. Ég gleymdi því miður að taka það með mér í stólinn, en ég skal að sjálfsögðu fúslega veita hv. þm. aðgang að þeim upplýsingum. Tillagan var sem sagt ekki send til umsagnar á þessu þingi. Það var ekki gert, en það var eitt af því sem þingmaðurinn spurði um.