Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

58. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 14:24:23 (2619)

[14:24]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil þakka meiri hluta efh.- og viðskn. og hv. formanni nefndarinnar fyrir þá vinnu sem lögð hefur verið í þetta mál og ég lýsi því yfir að ég styð það frv. sem hér er flutt og er sáttur við þann flutning enda kom fram í ræðu formanns nefndarinnar að nefndin er að vinna í þeim viðamiklu athugunum sem felast í skoðun þess frv. sem var lagt fram fyrr í haust. Eins og hann sagði réttilega þá eru ýmis álitamál þar sem þarfnast nánari skoðunar og meiri tíma, sérstaklega hvað varðar fjárfestingu erlendra aðila í ýmsum atvinnuvegum eins og sjávarútvegi og frumframleiðslu þar sem nauðsynlegt er að setja skýrari reglur heldur en nú eru. Ég fagna því einnig að í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því að 3. gr. laganna orðist nokkuð opnar en var í því frv. sem ég mælti fyrir um. Mér finnst það til bóta því ekki er nokkur vafi á því að það sem okkur helst skortir er áhættufjármagn í atvinnurekstri. Það áhættufjármagn er ekki til í okkar eigin landi nema í litlum mæli og það er að sjálfsögðu miklu betri kostur að taka erlent áhættufjármagn ef það fæst fremur en erlend lán. Að draga úr þeim takmörkunum fyrir erlendri fjárfestingu sem voru í upphaflegu frv. og orða það eins og gerist í 1. gr. frv. er spor í rétta átt.
    Ég ítreka þakkir mínar til meiri hluta nefndarinnar og endurtek að ég styð þetta frv. eins og það kemur frá henni.