Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

58. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 14:26:23 (2620)


[14:26]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli frsm. meiri hlutans þá vinnur efh.- og viðskn. nú að frv. um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi og eins og fram kom í 1. umr. um það mál þá er margt sem athuga þarf. Okkur hafa borist allnokkrar umsagnir um það frv. og í þeim kemur fram að það eru ríkjandi mismunandi sjónarmið varðandi fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi og nefndarmenn voru sammála um að þar væri á ferðinni svo alvarleg og veigamikil umræða að það væri ekki ástæða til þess að hraða meðferð þessa máls heldur þyrfti að gefa því allan þann tíma sem þyrfti.
    Á sl. vetri þegar samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði var til umfjöllunar í þingsölum þá marglýsti ég yfir andstöðu minni við þann samning og hún hefur ekkert breyst en mér er það auðvitað ljóst eins og öðrum þingmönnum að þegar samningurinn gengur í gildi þá verður að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru þannig að íslensk löggjöf standist samninginn. En það breytir ekki þeirri skoðun minni að ég tel ekki rétt að standa að flutningi frv. um jafnveigamikil atriði og fjárfestingu erlendra aðila á meðan samningurinn er ekki genginn í gildi. Mér finnst ekki eðlilegt að ég sem andstæðingur þessa samnings sé að flytja mál sem honum tengjast meðan samningurinn er ekki genginn í gildi þó að ég geri ekki efnislegar athugasemdir við það frv. sem hér er á ferð. Ég tel rétt að sú stund renni upp að samningurinn verði hluti af okkar veruleika og þá munum við skoða málin eftir því sem þau berast í þingsali en ég ítreka þá skoðun mína að auðvitað ber að styðja þau mál sem horfa til góðs en einnig að gagnrýna það sem ég tel vera andstætt íslenskum hagsmunum og á eftir að koma inn í okkar sali vegna þessa samnings.