Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

58. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 14:45:02 (2622)


[14:45]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla bara í örfáum setningum að gera grein fyrir ástæðum þess að ég kaus að standa að flutningi þessa máls með meiri hluta nefndarinnar. Í mínum huga er það tvennt. Í fyrsta lagi ber okkur að gera þær breytingar á íslenskum lögum sem nauðsynlegt er vegna þeirra samninga sem við gerum á alþjóðavettvangi. Í öðru lagi er ég þeirrar skoðunar að við þurfum aukna erlenda fjárfestingu í okkar atvinnulíf og ég vil að Alþingi geri það ljóst með sínum störfum að slíkir aðilar eru velkomnir til starfa hér með okkur í okkar atvinnulífi.
    Ég vil hins vegar taka fram til þess að forðast allan misskilning að þar eru ákveðnir hlutir sem við þurfum og eigum að standa vörð um og þess vegna m.a. er ég ánægður með þá málsmeðferð að fresta meginefni frv. þannig að það geti fengið vandaða umfjöllun í nefndinni á vorþingi.
    Það er nú einu sinni svo, virðulegi forseti, að það sem er áhyggjuefni í okkar atvinnulífi á þessum árum er ekki það að hér standi útlendingar í biðröðum og vilji fjárfesta. Það sem er áhyggjuefni er að það eru engir aðilar sjáanlegir eins og nú er sem eru tilbúnir til þess að hætta fjármagni í íslenskt atvinnulíf og gildir það einu hvort um er að ræða stóriðju sem núv. ríkisstjórn er búin að taka miklar leikfimiæfingar í við að reyna að laða til eða hvort um er að ræða fjármagn til uppbyggingar á almennum iðnaði eða þjónustu. Það er auglýst eftir aðilum sem vilja koma, en þeir hafa ekki enn gefið sig fram.