Lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir

58. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 14:55:28 (2625)


[14:55]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég hef fyrirvara á stuðningi mínum við þetta mál og meðflutning að brtt. við það. Það er eitt efnisatriði frv. sem ég vil áskilja mér fyrirvara gagnvart og það er sú fortakslausa kvöð í 3. gr., sem reyndar er hnykkt á með brtt. á þskj. 349, eða ítrekuð sú regla að lánastofnanir verði einungis stofnaðar sem hlutafélög. Nú hef ég í sjálfu sér ekkert á móti þessu ágæta hlutafélagaformi sem slíku og það er margt til í því sem sagt er að með því er tryggt fast skipulag og samræmdar reglur um tilurð slíkra lánastofnana, ef til verða á grundvelli þessara laga, og án þess þá að um þau gildi sérlög. Slíkt er að sjálfsögðu hugsanlegt og mundi þá þessi rammi nægja. En ég vil ekki fyrir mitt leyti að það misskiljist sem einhver sértækur stuðningur við það að lánastofnanir í framtíðinni, á komandi árum, þurfi endilega, án tillits til aðstæðna og tilefnis, að vera á forminu hlutafélög. Það er að vísu alveg ljóst og kom inn eftir umræður um þetta mál í efh.- og viðskn. að frv. gerir ekki ráð fyrir neinum breytingum að því er varðar lánastofnanir sem þegar starfa. Með þessu er engin afstaða tekin til þess hvort skipulagi þeirra verði á nokkurn hátt breytt eða það sé óheppilegra en það sem hér er lagt til, þannig að í raun felst ekki afstaða gagnvart ríkjandi ástandi í þessum málflutningi hér, samanber nefndarálitið sjálft. En ég vildi engu að síður ítreka þennan fyrirvara minn vegna þess að ég tel að þetta hljóti auðvitað að þurfa að ráðast af efnum og aðstæðum og ég tel að margt sem gert hefur verið í skjóli hlutafélagalaganna af hæstv. núv. ríkisstjórn orki mjög tvímælis, hin svokallaða ýmiss konar einkavæðing sem í raun og veru hefur þrengt mjög stjórnun viðkomandi fyrirtækja. Þannig að í stað til að mynda þingkjörinna stjórna, þar sem allir eða flestir flokkar hafa átt aðild að, þá hafa nú nokkur ríkisfyrirtæki færst yfir í hlutafélagaform með þeim afleiðingum að viðkomandi fagráðherra eða ráðherra sem fer með viðkomandi fyrirtæki í Stjórnarráðinu, velur einhendis og án tillagna nokkurs staðar alla menn í stjórn viðkomandi hlutafélags. Hann fer með eignarhlut ríkisins sem er þá 100% og velur þannig menn inn.
    Þessi fordæmi sjáum við t.d. í skipun stjórnar Sementsverksmiðju ríkisins sem nú mun vera komin með þetta fína ,,hf.`` fyrir aftan og SR-mjöls og fleiri slíkra fyrirtækja. Fyrir mér er þetta ekki framför heldur afturför og þrenging í stjórnunarlegu tilliti, fráhvarf frá lýðræðis- og valddreifingarsjónarmiðum sem ég styð ekki. Ég læt það þess vegna koma hér fram að fyrirvari minn við þessa oftrú á hlutafélög er m.a. tengdur þessari meðferð hæstv. ríkisstjórnar á málefnum þeirra fyrirtækja sem breytt hefur verið í hlutafélagaformið. Enn fráleitara væri auðvitað ef menn kysu að meðhöndla opinbera sjóði með sambærilegum hætti, en samkvæmt þessum lögum væri ekki hægt að slá loku fyrir það að valin yrði sú leið að stofna opinberan sjóð, opinbera lánastofnun sem hlutafélag á grundvelli þessara laga, laga um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, láta ríkið eiga 100%, eða svo til 100% eignarhlut í þeim sjóði og láta viðkomandi ráðherra einn handvelja þess vegna flokkssystkini sín, samanber mýmörg dæmi að undanförnu, til þess að stýra þeim sjóði. Er það heilbrigt? Er það skynsamleg stjórnsýsla? Ég segi nei.
    Nú er ég ekki eingöngu að setja upp tilbúin dæmi um það gæti gerst og olli því að ég kaus að hafa hér á fyrirvara og gera grein fyrir honum. Út af fyrir sig mætti einnig nefna það að þetta frv. tengist með tilteknum hætti samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, en þar sem það hefur sjálfstætt gildistökuákvæði og ég tel að efnisþættir þess séu í sjálfu sér ágætir og eðlilegir sem almenn löggjöf um þetta mál hér á landi, þá hefði það í sjálfu sér ekki eitt og sér kallað fram neinn fyrirvara af minni hálfu.