Landbúnaðarþáttur GATT-samkomulagsins

58. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 15:14:53 (2627)


[15:14]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það var viss misskilningur í ræðu hv. þm. sem óhjákvæmilegt er að leiðrétta. Það er ekki rétt að á sl. föstudegi hafi ríkisstjórnin fallið frá fyrirvara sínum um magntakmarkanir, það er á misskilningi byggt, eins og raunar kom fram hjá mér í ræðu minni hér á Alþingi sl. föstudag. Staðreyndin er sú að í morgun, eftir að samningar höfðu tekist milli Bandaríkjamanna og Evrópubandalagsins um einstaka þætti GATT-samningsins og samið hafði verið og önnur þjóðlönd höfðu fallið frá fyrirvörum um magntakmarkanir eða samið um þær, eins og Japan og Suður-Kórea sem sömdu um 4--8% lágmarksaðgang í staðinn fyrir 3--5% lágmarkasaðgang gegn því að fá að halda magntakmörkunum, þá voru ekki aðrir eftir en Norðmenn og Íslendingar. Þeir voru þeir síðustu sem eftir voru. Sutherland hafði þá samband við Norðmenn og síðan Íslendinga og þá lá alveg ljóst fyrir að Norðmenn mundu falla frá sínum fyrirvörum um magntakmarkanir þegar hér var komið sögu. Spurningin var þá um það hvort við Íslendingar ætluðum einir að standa utan Gatt-samninga eða hvort við ætluðum að falla frá magntakmörkunum eins og Norðmenn og raunar aðrar þjóðir. Ég hygg að við séum allir sammála um það sem erum í þessum sal að þeir hagsmunir sem við höfum af því að vera innan GATT eru miklu ríkari en svo að við getum fórnað þeim fyrir þann fyrirvara sem við erum hér að tala um, magntakmarkanir, líka vegna þess að eins og sakir stóðu þá höfðu ekki verið gerðar athugasemdir um útreikninga á þeim tollígildum sem við höfum gert eða um aðra þætti. Raunar voru samningarnir ekki endanlega frágengnir þegar ég hafði samband við Kjartan Jóhannsson sendiherra upp úr klukkan tvö í dag, þannig að ég þori ekki að fullyrða hvernig endanlegur frágangur verður, einfaldlega vegna þess að endanlegum frágangi var ekki lokið, en það höfðu ekki verið gerðar athugasemdir um einstök skilyrði af okkar hálfu að öðru leyti.
    Það hittist svo á að ég bað Þjóðhagsstofnun í ársbyrjun 1992 að gera athugun á því hvaða áhrif GATT-samningar hefðu á íslenskan landbúnað ef ekki yrði fallist á magntakmarkanir og ég held að það sé óhjákvæmilegt að lesa niðurstöðurnar hér. Það er síðan rétt í kjölfar GATT-samninganna nú að endurskoða þær niðurstöður og útreikninga sem liggja fyrir frá Þjóðhagsstofnun. Helstu niðurstöður eru þessar segir þar:
    ,,1. Innflutningur á landbúnaðarvörum hingað á aðlögunartíma GATT-samningsins verður mjög takmarkaður umfram lágmarksinnflutning. Markaðshlutdeild erlendra búvara í neyslu landbúnaðarvara innan lands er talin verða 3--4% á fyrri hluta aðlögunartímans en hækka smám saman í 5--6% undir lok hans.`` --- Ég endurtek að það er talið að markaðshlutdeild erlendra búvara í neyslu landbúnaðarvara sé talin 3--4% á fyrri hluta aðlögunartímans og 5--6% undir lok hans.
    ,,Landbúnaðarafurða er neytt hér á landi fyrir um 24 milljarða kr. á ári. Í fjárhæðum svarar markaðshlutdeildin því til um u.þ.b. 700 millj. til 1 milljarð kr. á ári framan af aðlögunartímanum og 1.200--1.400 millj. kr. undir lok hans.
    2. Raunverð á búvöru til neytenda er talið lækka að jafnaði um 1% á ári á aðlögunartímanum. Þessi

lækkun er innan við markmið búvörusamningsins um lækkun raunverðs á landbúnaðarvörunum á samningstímanum. Verð mun lækka mismikið eftir vörutegundum, líklega mest á þeim vörum sem leyft verður að flytja inn, en þeim mun minna sem vörutegundirnar eru betur varðar fyrir samkeppni við erlendar búvörur.
    3. Að öllu samanlögðu má búast við að verð til framleiðenda lækki um 7% á öllum aðlögunartímanum. Þá er gert ráð fyrir því að vinnslustöðvar í landbúnaði auki framleiðni sína ekki minna en bændur. Ef ekki kemur til útflutnings landbúnaðarvara, eins og miðað er við í þessum útreikningum, er óhjákvæmilegt að störfum fækki í landbúnaði á aðlögunartímanum, e.t.v. um 2%.
    4. Sé gengið út frá því að markmið búvörusamningsins um að lækkun raunverðs á sauðfjárafurðum náist og svipuð markmið varðandi aðrar búvörur, virðast GATT-samningsdrögin ekki fela í sér verulega röskun í landbúnaði umfram það sem ella hefði orðið á næstu árum. Þetta stafar af því að stefnt er að meiri raunlækkun á verði landbúnaðarvara í búvörusamningnum en GATT-drögin leiða af sér. Ljóst er hins vegar að ýmis atriði búvörusamningsins þarf að endurskoða og samræma við hugsanlegt GATT-samkomulag, eins og nánar er fjallað um síðar í þessari skýrslu.``