Landbúnaðarþáttur GATT-samkomulagsins

58. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 15:20:28 (2628)


[15:20]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það var verulegt áfall að fá þær fréttir að ríkisstjórn Íslands hefði gefið heimild til að falla frá þeirri kröfu Íslands, sem verið hafði uppi í samningaviðræðunum um GATT frá upphafi ásamt með allmörgum öðrum þjóðum, að við hefðum heimild til þess í samningagerðinni að viðhalda hér magntakmörkunum á ákveðnum mikilvægum tegundum innlendrar framleiðslu. Svo virðist sem það sé að verða niðurstaðan í þessari samningalotu að Ísland fái í raun og veru ekkert út úr því að hafa boðið fram meiri lækkun útflutningsuppbóta heldur en flestar ef ekki allar þjóðir. Og það eru næsta sérkennileg skilaboð sem borin eru af hálfu samningamanna Íslands, að þær þjóðir sem frá upphafi viðræðnanna höfðu haldið til haga kröfu um magntakmarkanir hafi einfaldlega mátt falla frá þeim kröfum án þess að fá nokkuð í staðinn. Það eru mjög sérkennileg skilaboð. En í reynd er það sem hér er verið að segja, að mönnum hafi verið settir þeir úrslitakostir í lokin að falla frá kröfunni án þess að fá nokkuð í staðinn. Hér hafa a.m.k. engar upplýsingar verið gefnar um það að Íslendingar, Norðmenn eða aðrar slíkar þjóðir hafi átt þess kost að fá þá önnur úrræði, svo sem eins og minni lágmarksmarkaðsaðgang eða hærri jöfnunargjöld eða eitthvað annað í staðinn til að mæta því að falla einfaldlega frá kröfunni um magntakmarkanir. Ég tel að þarna hafi verið haldið linkulega á hagsmunum Íslands. Það vekur athygli mína að ekki er að sjá að neinir íslenskir sérfræðingar eða embættismenn hafi verið né séu viðstaddir lokafrágang samningagerðarinnar til þess að starfa þar með sendimönnum Íslands á vettvangi.
    Ég óskaði eftir upplýsingum frá ríkisstjórninni um það hvað hún er að gera eða hyggst gera til að bregðast við þessari niðurstöðu. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef t.d. frá Noregi þá eru menn þar á fullri ferð að kanna stöðu sína í ljósi þessarar niðurstöðu og hvað unnt sé að gera, svo sem eins og með því að færa til eða breyta um form styrkja til landbúnaðarins og mæta þannig þessari niðurstöðu.
    Ég vil að lokum segja það að ég tel að óhjákvæmilegt sé að ríkisstjórnin bjóði bændasamtökunum til viðræðna. (Forseti hringir.) Forseti, ég er að ljúka máli mínu, bjóði bændasamtökunum til viðræðna nú þegar í ljósi þessarar niðurstöðu. Auðvitað hefði stjórnin átt að hafa samráð við þá um hvert einasta skref í þessu máli.