Landbúnaðarþáttur GATT-samkomulagsins

58. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 15:23:01 (2629)


[15:23]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þegar við ræðum hér um frjálsan innflutning og útflutning landbúnaðarvara þá held ég að við verðum að athuga það að við höfum nokkra sérstöðu hvað varðar útflutning landbúnaðarvara þar sem við erum búin að afleggja allar útflutningsbætur. Við munum að vísu geta nýtt okkur tollaígildi fyrstu árin við innflutning landbúnaðarvara, en það er aðeins tímabundið, kannski fimm til tíu ár. Og hvað tekur þá við? Síðan mun flæða yfir okkur óheftur innflutningur landbúnaðarvara frá þeim löndum sem geta framleitt þessa vöru með minnstum tilkostnaði. Frá löndum þar sem veðurfarið er hagstæðara þannig að við höfum ekki möguleika á að keppa við þær. Hins vegar höfum við möguleika á að keppa við þær í gæðum, ekki í verði en ég held að það verði mjög erfitt að koma þeirri vitneskju á framfæri við markaðinn. Það er auðvitað spurning líka hvort hinn almenni neytandi sem verður að horfa í hverja krónu við matarinnkaup getur leyft sér að taka mið af hollustu vörunnar. Við höfum getað stýrt þessum málum með því að framleiða fyrir innanlandsmarkað og með ákveðinni verðstýringu, en það mun breytast með þessum samningi.
    Og nú þegar fallið er frá magntakmörkunum sem voru fyrirhugaðar þá tel ég að við þurfum líka að skoða það að bara 5% markaðsaðgangur mun þýða fækkun starfa um a.m.k. 1.500 í landbúnaði og tengdum störfum og er það það sem við þurfum nú þegar við horfum fram á vaxandi atvinnuleysi?