Landbúnaðarþáttur GATT-samkomulagsins

58. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 15:29:44 (2632)


[15:29]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Nú á lokaspretti er það grímulaust hverjir ráða ferðinni í GATT-viðræðunum, stóru ríkin og ríkjasamsteypurnar og þær gæta hagsmuna sinna á kostnað annarra. Þetta merkir það m.a. að hagsmunir íslensks landbúnaðar hafa orðið útundan. Þetta merkir einnig að þrátt fyrir að látið sé liggja að öðru þá eru það ekki hagsmunir fátækra ríkja sem á endanum ráða ferðinni heldur tryggja þeir ríku og sterku sitt og skipta með sér heimsmarkaðnum en reyna að láta í það skína að allt sé þetta í þágu annarra. Reynslan mun sýna hvert hin nýja skipan leiðir okkur en ég bendi m.a. á vaxandi gagnrýni í þessa veru í umfjöllun erlendra blaða um málið.
    Ég gef mér það að almennt sé fólk jákvætt gagnvart íslenskum landbúnaði, jafnvel alþýðuflokksmenn láta í veðri vaka að þeir vilji landbúnaði allt gott þótt þeir velji oft sérkennilegar leiðir til að tjá það. Kannanir sýna þetta jákvæða viðhorf einnig og það er í takt við heilbrigða skynsemi. Það er heilbrigð skynsemi að vilja tryggja að fersk og ómenguð landbúnaðarframleiðsla hér á landi geti haldið áfram. Vaxandi vitund er um það um allan heim að það skiptir máli að neyta hollra afurða en ekki afurða hormóna- og

lyfjafulls búfjár sem beitt er á þrautpínt og illa mengað land. Tíminn vinnur með okkur en við verðum að nýta hann vel og verja okkar framleiðslu á meðan þessi hugsunarháttur er að verða almennari. Eftir það ætti okkur að verða allir vegir færir með ferska og ómengaða vöru. Frændur vorir Danir eiga sér ágæta reglu, TTT-regluna, ,,Ting ta'r tid``, hlutirnir taka tíma, og við verðum að muna það.
    Það hefur verið rakið hér vel hvers vegna fullyrt er að hagsmuna íslensks landbúnaðar sé ekki gætt sem skyldi. Magntakmarkanir væntanlega úr sögunni í dag, ekkert gefið fyrir þá staðreynd að við höfum verið fremst í flokki að fella niður útflutningsbætur og óljóst hvað lækkun tollígilda á árabilinu 1995--2001 mun skila.
    Þetta þýðir það einfaldlega að við gætum ekki hagsmuna íslensks landbúnaðar, ekki atvinnu og ekki íslenskra neytenda heldur.