Landbúnaðarþáttur GATT-samkomulagsins

58. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 15:34:34 (2634)


[15:34]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil fyrst beina orðum mínum til hæstv. viðskrh. og benda honum á að það landbúnaðarkerfi, sem við höfum búið við síðustu árin var framleiðsluhvetjandi og byggðist á útflutningsbótum og verulegum styrkjum, það var skilgetið afkvæmi viðreisnaráranna, svo við höfum það alveg hreint á hreinu.
    En, virðulegi forseti. Það líður senn að því að gengið verður frá nýju GATT-samkomulagi. Það hefur alla tíð verið skýrt í mínum huga að við Íslendingar ættum engra annarra kosta völ en að vera þátttakendur í starfi Alþjóðatollamálastofnunarinnar GATT. Við eigum einfaldlega það mikilla hagsmuna að gæta sem útflutningsþjóð. Varðandi landbúnaðarþátt samningsins og hvernig hann kemur við okkur Íslendinga hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar að þar sé miklu frekar um að ræða innanríkismál heldur en utanríkismál. Það ráðist af því hvernig íslensk stjórnvöld eru tilbúin til þess að standa á okkar rétti. Áhyggjur bænda í dag snúast að því hvað ríkisstjórnin sé að hugsa, hver er hennar þáttur í því að skapa sátt um framkvæmd þessa mikilvæga málaflokks, landbúnaðarmálanna. En það er það sem við þurfum á að halda í dag, breið samstaða um framkvæmd þessa málaflokks. Það er skemmst frá því að segja að hvað þetta varðar hefur núv. hæstv. landbrh. algjörlega brugðist. Í hans huga virðist það vera aðalatriðið að viðhalda stöðugu stríði um málið sem síðan smitar út í allt þjóðfélagið íslenskum landbúnaði til stórtjóns. Það getur hins vegar verið að hæstv. ráðherra telji að hann hafi af þessu tímabundinn pólitískan hag en meðan svona er haldið á málum þá komast engin mál landbúnaðarins í gegn á Alþingi eins og við vitum nú. Ég hlýt því að spyrja hæstv. landbrh.: Hvað líður framlagningu frv. um breytingu á búvörulögunum sem tryggir það að við stöndum við okkar milliríkjasamninga (Forseti hringir.) --- virðulegi forseti, ég er að ljúka máli mínu, og tryggir það að við getum nýtt okkur okkar rétt m.a. gagnkvæmnisrétt til jöfnunargjalda við útflutning? (Forseti hringir.) Nú spyr ég hæstv. ráðherra ákveðið: Hvar er þetta mál statt í kerfinu núna? Hvers vegna er það ekki komið fram?