Landbúnaðarþáttur GATT-samkomulagsins

58. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 15:38:06 (2636)


[15:38]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég er kurteis maður og ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. landbrh. fyrir að koma í ræðustólinn og taka þátt í þessari umræðu. Mér fannst hann hins vegar fara hálfgerða erindisleysu. Það var auðvitað enginn misskilningur í mínu máli. Það kom í einn stað niður, Kjartan Jóhannsson fékk umboð til
þess á föstudaginn var að gefa eftir magntakmarkanirnar og það var samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Þjóðhagsstofnun er líka á villigötum. Þjóðhagsstofnun gefur sér vitlausar forsendur, hún gefur sér þær forsendur að ríkisstjórnin í landinu starfi með öðrum hætti en sú ríkisstjórn sem starfar núna. Hún gefur sér það að þessi ríkisstjórn verði ekki við völd næstu 6--7 árin, þ.e. að í landið komi ríkisstjórn sem stendur á rétti landbúnaðarins og reynir að tempra innflutning en það gerir þessi ríkisstjórn ekki.
    Og hvers vegna var hæstv. landbrh. að rembast við að reyna að halda inni magntakmörkunum fram á síðustu stundu, alveg fram á síðasta klukkutíma ef þær voru einskis virði? Sannleikurinn í málinu er auðvitað sá að hæstv. landbrh. hefur verið svínbeygður af hæstv. utanrrh. og félögum hans. Þetta er óskaniðurstaða utanrrh. og hæstv. viðskrh. En hæstv. landbrh. svaraði ekki spurningu minni um það hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera til þess að reyna að gera það skásta úr hlutunum. Skaðinn er skeður, landbúnaðarstefnu verður að breyta. Landbúnaðarstefna okkar núna rímar ekki við það viðskiptaumhverfi sem við erum komnir inn í. Búvörusamningur og framleiðslutakmarkanir passa ekki lengur. Við verðum að hugsa málið upp á nýtt og það þarf ríkisstjórnin að hafa forustu um ef hún á annað borð vill reyna að standa sig í stykkinu eða bjarga því sem bjarga verður. Við erum að sigla hröðum skrefum aftur inn í niðurgreiðslu- og útflutningsuppbótakerfi eins og aðrar þjóðir hafa í kringum okkur. (Forseti hringir.) Hæstv. landbrh. --- frú forseti, ég er að ljúka máli mínu --- virðist vera áhyggjulaus enda kannski skilur hann bara ekki málið. Þessi samningur er ekki áhyggjuefni manna á Seltjarnarnesi nú um stundir. Ekki enn þá. En bændur sem sjá atvinnu sína tekna frá sér og eignirnar gerðar verðlausar og fólkið sem lifir með einum eða öðrum hætti á landbúnaðinum, það er fólk sem hefur áhyggjur af stöðunni í dag.