Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

60. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 16:06:03 (2643)


[16:06]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Þegar þetta frv. barst inn á borð okkar þingmanna varð ég nokkuð undrandi að sjá þá breytingu sem hér er lögð til. Ég tók þátt í þeirri umræðu sem fór hér fram á sínum tíma þegar umhvrn. var stofnað og taldi þá og tel enn að ákveðnir þættir stofnunarinnar geti mjög illa heyrt undir umhvrn. Ef litið er á fagsvið Hollustuverndar ríkisins, þá er ekki hægt að segja að stærsti hlutinn falli undir þau svið sem eðlilegt væri að féllu undir umhvrn. Mengunarvarnir heyra nú undir faglega yfirstjórn umhvrh. og tel ég það vera mjög eðlilegt. Af fjórum fagsviðum, þ.e. heilbrigðiseftirlit, rannsóknastofu, eiturefnaeftirlit og mengunarvarnir, þá má telja að heilbrigðiseftirlit og rannsóknastofa hafi þau verkefni með höndum sem alls ekki er hægt að segja að geti fallið undir þau málefnasvið sem ég tel eðlilegt að falli undir umhvrn.
    Einnig ef tekið er tillit til þess að 2 / 3 hlutar starfsmanna sem starfa við stofnunina starfa innan þessara sviða, þá er mjög vandséð af hverju lagt er til núna að öll starfsemi Hollustuverndar ríkisins eigi að falla undir heilbrrn. Þessi tvö svið, þ.e. heilbrigðiseftirlit og rannsóknastofa, fjalla að mestu leyti um matvælaeftirlit, matvælarannsóknir og matvælaráðgjöf. Stofnunin vinnur að því að tryggja almenna hollustuhætti og hún sér um upplýsingar til neytenda um samsetningu matvæla og ýmislegt fleira. Sem dæmi má nefna rannsóknir og forvarnir vegna matareitrana og matarsýkinga, tengsl mataræðis og langvinnra sjúkdóma, ofnæmi, óþol og önnur dæmigerð heilbrigðismál. Ég á ákaflega erfitt með að sjá af hverju einmitt þetta geti fallið undir umhvrn. eða þau svið sem umhvrn. fer með nú eða þau svið sem ég tel eðlilegt að umhvrn. fari með. Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann viti til þess að slík svið séu undir umhvrn. og þá er ég að tala um t.d. Norðurlöndin eða önnur lönd sem við lítum mjög gjarnan til vegna lagasetningar. Mér er ekki kunnugt um það að svo sé.
    Ég veit t.d. að í Danmörku féll matvælaeftirlit, ef ég man rétt, undir umhvrn. í upphafi en þegar heilbrrn. var stofnað þar í landi var matvælaeftirlitið flutt undir heilbrrn. Þetta var það eina sem ég veit um í fljótu bragði en það má vel vera að hæstv. forsrh. viti um dæmi um það hvernig það hefur reynst erlendis eða annars staðar þar sem t.d. matvælamál og aðrir hollustuhættir falla undir umhvrn.
    Ég vil einnig spyrja hvernig þetta er hugsað í framhaldinu. Er t.d. ætlunin að umhvrh. fjalli þá um öll mál á matvælasviði? Mér er það ekki alveg ljóst, það kemur ekki fram í frv. eða í grg. með frv. hvernig þetta er hugsað í framhaldinu.
    Ég vil minna á að fyrir nokkrum árum, þ.e. 19. maí 1989, var samþykkt á Alþingi þál. um manneldis- og neyslustefnu sem að einhverju leyti kemur inn á það svið að því er ég held sem Hollustuvernd ríkisins er falið og þar segir í lokin, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi felur heilbrrn. að sjá um framkvæmd þessarar stefnu í samvinnu við aðra hlutaðeigandi og gera þinginu grein fyrir stöðu málsins eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.``
    Ég spyr þá hvort meiningin sé að framkvæmd þessarar þál. og þetta svið falli undir umhvrn. í framhaldi málsins. Það þætti mér fróðlegt að vita í ljósi þess sem þessi brtt. gerir ráð fyrir.
    Ég vil einnig minna á að hér er til meðferðar í þinginu í hv. heilbr.- og trn. frv. til laga um matvæli. Ég á ekki sæti í heilbr.- og trn. og veit ekki hvernig sú nefnd hefur tekið á málinu en velti því fyrir mér hvort það sem þar á við ætti e.t.v. að falla undir umhvrn. með sama hætti og þau svið Hollustuverndar ríkisins að því er varðar matvælaeftirlit og rannsóknir á því sviði. Þetta vildi ég spyrja um til fróðleiks vegna þess að mér er ekki ljóst hvernig ætlunin er að haga þessum málum í framtíðinni. Það er nauðsynlegt að fá það upplýst þegar verið er að fjalla um þetta lagafrv.
    Ég átti ekki von á því að lagt yrði til að Hollustuvernd ríkisins yrði lögð í heilu lagi til umhvrn. Á sínum tíma lagði Kvennalistinn til að mengunarvarnasvið Hollustuverndar og e.t.v. hluti eiturefnasviðsins og mengunarvarnadeild Siglingamálastofnunar yrðu allar fluttar undir eina stofnun eða það yrði stofnuð sérstök mengunarvarnastofnun, hún þyrfti kannski ekki endilega að heita það, en stofnun sem sæi um mengunarvarnir og það yrði allt flutt á einn stað. Sýnist mér ef þetta frv. nær fram að ganga þá muni það frekar hefta framgang þeirrar hugmyndar sem ég held að væri mjög til bóta, þ.e. að mengunarvarnir yrðu allar undir einni stofnun til þess að gera þau mál auðveldari í meðförum en nú er mengunarvarnadeild Siglingamálastofnunar undir Siglingamálastofnun, eiturefnasvið og mengunarvarnasvið eru undir Hollustuvernd og það er e.t.v. hægt að líta svo á að hluti Geislavarna ríkisins ætti einnig þar heima. Ég tel að það hefði átt að líta frekar á þann þátt málsins, þ.e. að taka allar mengunarvarnirnar og setja undir eina stofnun frekar en að gera þetta með þessum hætti. Ég sé alla vega ekki í fljótu bragði, virðulegur forseti, tilganginn með því að flytja þetta mál nú þar sem mér finnst svo mörgum spurningum ósvarað að því er varðar þá hugmynd sem ég held að miklu fleiri séu hliðhollir, þ.e. að mengunarvarnir fari á einn stað.
    Mér er kunnugt um að á vegum forsrn. vinnur nefnd sem er að skoða framkvæmd opinbers eftirlits og hafði ég haldið að starfsemi Hollustuverndar ríkisins ætti að koma þar til meðferðar líka og vildi spyrja hæstv. forsrh. hvort það sé ekki meiningin að starfsemi Hollustuverndar komi þar undir, hvað líði störfum hennar og hvort hún sé e.t.v. búin að ljúka störfum og þetta sé ein af þeim tillögum sem þar að koma fram. Ég vildi gjarnan fá að vita nokkuð um það hvernig þeim málum háttar. Ég hefði haldið að starfsemi Hollustuverndar ríkisins ætti að koma þar til meðferðar.
    Ef ég vík aðeins að sjálfu frv. þá er í 1. gr. lagt til að umhvrn. fari með yfirstjórn þessara mála en auk þess er lagt til að landlæknir sé ekki lengur ráðgjafi ráðherra og ríkisstjórnarinnar um það sem lýtur að hollustuháttum og heilbrigðiseftirliti. Ég átta mig alls ekki á því af hverju þetta er lagt til þó að málasviðið heyri ekki lengur undir heilbr.- og trmrn. Ég hefði haldið að það ætti frekar að reikna með því að landlæknir sé ríkisstjórninni til ráðgjafar. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna lagt er til að landlæknir verði ekki lengur til ráðgjafar ríkisstjórninni því málaflokkurinn breytist ekkert þó hann flytjist frá einu ráðuneytinu til annars.
    Ég velti því einnig fyrir mér, ef þetta er talið eðlilegt, hvort ekki sé rétt að líta á aðrar greinar laganna. Ef litið er t.d. á 9. gr. laganna um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit þá er reiknað með því að heilsugæslulæknar skuli vera faglegir ráðunautar heilbrigðisnefnda. Það segir einnig að héraðslæknar, hver í sínu læknishéraði, segi fyrir um og skipuleggi þjónustu heilsugæslulækna við heilbrigðisnefndir. Ég velti því fyrir mér hvort ekki þyrfti þá að skoða þessar greinar einnig, hvort ekki sé rétt að skoða hvort það sé eitthvað frekar eðlilegt að héraðslæknar og heilsugæslulæknar séu til ráðuneytis ef á að fella burtu hlutverk landlæknis.
    Í 11. gr. er einnig talað um að héraðslæknir í Reykjavík gegni þessu hlutverki.
    Í 13. og 14. gr. eru einnig ákvæði um ráðgjöf landlæknis og yfirdýralæknis reyndar líka þannig

að þarna sýnist mér ekki algjörlega gæta samræmis á milli þessara tillagna sem fram koma í frv. og vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta sé gert af ásettu ráði, hvort þarna sé einhver sérstök hugsun að baki, það kemur ekki fram í greinargerð eða athugasemd með frv. Þess vegna finnst mér eðlilegt að fá það upplýst hvað þarna liggur að baki því mér þykir þarna vera nokkuð ósamræmi. Vil ég kannski ekki síst spyrja um ástæður þess og endurtek það hvers vegna þetta er lagt til, mér fannst það ekki vera nægjanlega rökfært af hálfu hæstv. ráðherra hvers vegna ríkisstjórnin hefur ákveðið að færa hollustuþáttinn yfir til umhvrn. nema að því er varðaði það sem ég er raunverulega sammála, ég tel að auðvitað eigi að leggja aukna áherslu á mengunarþátt Hollustuverndar. Ég er alls ekki ósammála því. En ég tel bara að það hefði verið eðlilegra að kljúfa þá stofnun upp úr því að verið er á annað borð að leggja til breytingar á þessu sviði.
    Varðandi 5. gr., þ.e. um gildissviðið, þá tel ég að sú grein sé ekki sett fram af nokkru raunsæi því þetta frv. þarf nákvæmrar skoðunar. Hæstv. ráðherra lagði til að frv. yrði sent til allshn. og ætla ég út af fyrir sig ekki að gera tillögu um neitt annað, en ég hefði talið eðlilegt að heilbr.- og trn. og umhvn. þingsins fengju einnig þetta frv. til athugunar þar sem þetta kemur mjög við málasvið þessara tveggja nefnda þingsins.
    Virðulegur forseti. Ég vil að lokum taka það fram að ég tel að það þurfi að efla og styrkja umhvrn. í hvívetna og vil í því sambandi minna á þáltill., sem lögð var fram af hálfu Kvennalistans á þinginu 1988--1989 en þar kemur greinilega fram hvaða skoðun kvennalistakonur hafa á þessu og ég held að þær hafi ekkert breyst í tímans rás, en þar leggjum við til að því er varðaði mengunarmálin ef ég má, með leyfi forseta, vitna þar í einn lið:
    ,,Eiturefnanefnd er lögð niður en starfsemi hennar sett undir mengunarvarnadeild, þ.e. deild með númer 5a hér að ofan, en þangað flytjast líka mengunarvarnadeildir Hollustuverndar ríkisins, Siglingamálastofnunar og Geislavarna ríkisins. Þessi deild umhvrn. tekur líka að sér samskipti við erlenda aðila varðandi mengun en utanrrn. hefur haft með það að gera.``
    Ég ætla bara að vitna til þessarar tillögu sem er á þskj. 159 á þinginu 1988--1989, en ætla ekki frekar að gera þá tillögu að umtalsefni en vil ítreka, virðulegi forseti, að ég tel að þetta frv. áður en samþykkt verður þurfi ítarlegrar og nákvæmrar skoðunar við.