Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

60. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 16:35:53 (2646)


[16:35]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Þessar umræður sem hér hafa þegar átt sér stað um flutning á Hollustuvernd ríkisins yfir til umhvrn. hafa verið fróðlegar og þingmenn hafa bent á ýmis atriði sem e.t.v. þyrfti að skoða betur. Hins vegar er það svo að mér finnast þau málefnalegu rök sem hér hafa verið færð gegn þessum flutningi alls ekki veigamikil.
    Ég tek heils hugar undir með hæstv. forsrh. þegar hann segir að þau verk sem unnin eru af Hollustuvernd ríkisins falli öll að umhverfismálum í víðasta skilningi þess orðs. Og ég hygg að ef maður lítur á hinn stjórnsýslulega þátt þá hafi hv. þm. Finnur Ingólfsson komist að kjarna þess þáttar þegar hann sagði að það hlyti auðvitað að skapa viss vandamál þegar um væri að ræða stofnun þar sem fagleg stjórnun einnar tiltekinnar vaxandi deildar væri undir einu ráðuneytinu en fjármálalegt vald og ákvarðanir undir öðru ráðuneyti. Það er auðvitað ljóst að þetta hefur skapað vissa óskilvirkni og vissa óvissu í starfi þessarar stofnunar. Þegar menn réðust í þessa sjóferð í upphafi þá var ákveðið að hafa þennan hátt á. Nú hafa menn reynsluna af því og hún er því miður ekki nægilega góð.
    Þegar við veltum því fyrir okkur hvort hér sé farið með réttum hætti að málefnum stofnunarinnar þá er auðvitað sjálfsagt að þingmenn og ráðherrar hafi sínar skoðanir sem í mörgum tilvikum byggjast á þekkingu og menntun sem tengist viðkomandi málaflokkum. En hverjir skyldu það vera sem væntanlega eru bestir dómarar í þessu máli? Ætli það séu ekki þeir menn sem hafa verið valdir til þess að stýra stofnuninni og gjörþekkja út í hörgul hennar vandamál. Það er auðvitað stjórn stofnunarinnar sem menn hljóta að taka verulega mikið tillit til. Þess vegna langar mig, virðulegi forseti, að lesa hér ályktun stjórnar Hollustuverndar ríkisins um stöðu stofnunarinnar í stjórnkerfinu, með leyfi forseta:
    ,,Á fundi stjórnar Hollustuverndar ríkisins þann 14. apríl sl. var m.a. fjallað um yfirstandandi endurskoðun laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Í umræðunum komu fram áhyggjur margra stjórnarmanna vegna óvissu í skipulagsmálum stofnunarinnar. Í því sambandi var lögð áhersla á að fyrrgreindri endurskoðun verði hraðað og línur skýrist sem fyrst varðandi stöðu stofnunarinnar. Ítrekaðar voru fyrri samþykktir og álitsgerðir stjórnar Hollustuverndar ríkisins þar að lútandi þar sem lögð er áhersla á að í stað þess að kljúfa stofnunina verði hún sett öll undir umhvrn. Ákveðið var að árétta þessa afstöðu stjórnar bréflega til heilbrrh. og umhvrh. og er það hér með gert.``
    Undir þetta ritar fyrir hönd stjórnar Hollustuverndar ríkisins Hermann Sveinbjörnsson þannig að það er alveg ljóst að þeir menn sem þekkja þetta mál gerst, sem eru að vinna að málefnum stofnunarinnr frá degi til dags eru þeirrar skoðunar að það sé farsælast fyrir framtíð hennar að hún sé með þessum hætti flutt.
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir dró fram ákveðna þætti sem hún taldi gefa tilefni til þess að menn stöldruðu við og íhuguðu hvort verið gæti að þetta skapaði ef til vill meiri vandamál en það leysti. Hún

gerði því til að mynda skóna að stærsti hlutinn af starfsemi Hollustuverndarinnar gæti mjög illa heyrt undir umhvrn. Þetta er alls ekki rétt.
    Í dag er það svo að stofnunin skiptist í fjögur verkefnasvið: Heilbrigðiseftirlitssvið, sem er að verulegu leyti farið að snúast um matvæli og það sem ég kalla mengunareftirlit með matvælum, mengunarvarnasvið, eiturefnasvið og síðan er rannsóknastofa sem á að styðja þessa þrjá aðra þætti. Hvert er mat þeirra sem stýra þessari stofnun á því hvoru megin hryggjar meiri hlutinn af verkum stofnunarinnar liggur? Það er svo að yfirmenn stofnunarinnar telja að í dag falli yfir helmingurinn af starfsemi stofnunarinnar í farveg sem er ekki hægt að segja annað en teljist til umhverfismála og það er þessi þáttur sem er vaxandi. Og það er alveg ljóst að þau verkefni sem bíða Hollustuverndar á næstu árum og tengjast t.d. ákveðinni eftirlitsstarfsemi í tengslum við samning okkar um EES munu einmitt auka vægi þessarar starfsemi. Þannig að ef menn velta því fyrir sér hvort þetta eigi að vera hjá umhvrn. eða heilbrrn. þá er það svo að mati yfirmanna stofnunarinnar að í dag er meira en helmingur verksins á sviði sem fellur undir umhvrn. Þróunin hnígur í þá átt að vægi þessa eykst þannig að ég get ekki fallist á þessa skoðun hv. þm.
    Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir velti fyrir sér svipuðum spurningum og sagði að þó að þetta leysti vissan stjórnsýslulegan vanda þá gæti þetta skapað faglegan vanda. Ég fæ nú ekki alveg séð það. Heilbrigðiseftirlitssviðið er í vaxandi mæli að færast yfir í eftirlit með matvælum, t.d. með innfluttum matvælum, og við vitum öll eftir tíðindi dagsins að það verkefni hlýtur að stóraukast á næstu árum, fylgjast með merkingum, fylgjast með ýmsum aðskotahlutum í matvælum og einmitt það sem ég sagði áðan, virkt mengunareftirlit með matvælum.
    Nú er það svo að ég skil efasemdir þegar menn segja: Hvers vegna ætti það að vera undir umhvrn.? En það er nú samt sem áður svo að í dag er eftirlit sem tengist matvælaframleiðslu undir öðrum ráðuneytum. Ég bendi á það að yfirdýralæknir hefur ákveðna eftirlitsskyldu. Ég bendi líka á að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hefur ákveðna eftirlitsskyldu með fiskafurðum þannig að ég tel ekki að þetta séu mjög gild rök. Þetta eru hins vegar rök sem rétt er að staldra við og íhuga, ég fellst á það. Ég hef íhugað þetta. Fyrir mér er þetta ljóst.
    Það var spurt hér, virðulegi forseti, um landlækni og hvers vegna breytt er ráðgjafarhlutverki hans. Almennt má segja að það skipti ekki máli hvort sett er í lög að landlæknir eigi að vera ákveðinn ráðgjafi stofnunar eins og þessarar vegna þess að það er auðvitað alveg ljóst að landlæknisembættið hlýtur ávallt hverju sinni að vera ráðgjafi ríkisstjórnar. Ríkisstjórn hlýtur ávallt að geta leitað til landlæknis um ráðgjöf en þar fyrir utan er líka ákveðin tæknileg skýring á þessu. Hún er sú að landlæknisembættið nú þegar samkvæmt gildandi lögum tilnefnir mann í stjórn stofnunarinnar. Það út af fyrir sig ætti að tryggja flæði sem þarna er á milli.
    Menn hafa bent á að það kunni vel að vera að þessi breyting samrýmist ekki ýmsum gildandi lögum og það er vafalaust rétt. En það þarf að koma ákveðin reynsla á það. Menn þurfa auðvitað að fara yfir sviðið og sjá með hvaða hætti er rétt að breyta öðrum lögum.
    Það hefur lengi verið mín skoðun að eftirlit með aukefnum í matvælum og eftirlit með innra ástandi matvæla sé umhverfismál, og falli því undir umhverfisvernd og umhverfiseftirlit. Ég hef verið þessarar skoðunar mjög lengi og reyndar verð ég var við það að þegar maður les ýmsa pappíra sem berast frá þeim félagasamtökum sem eru að véla um þessa hluti að þau eru svipaðrar skoðunar.
    Hvers vegna eru menn að fara í þetta verkefni núna? Ég hef rakið það hérna talsvert. Þegar umhvrn. var stofnað á vordögum 1990 var ákveðið að taka bara eitt verkefni á sviði Hollustuverndar, þ.e. mengunarvarnasviðið undir umhvrn. og þá voru gerðar lágmarksbreytingar á þessum lögum. Menn hugðust líka athuga hvernig reynsla kæmi á þetta í framvindunni. Þegar síðan var skipuð sérstök nefnd af þáv. heilbrrh. í desember 1991 til þess að endurskoða lögin um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit þá var það niðurstaða hennar að hún taldi það ekki vera sitt hlutverk að leggja til að það yrði breyting á stjórnskipulaginu, þ.e. um vistun málaflokksins. Hún komst hins vegar að þeirri niðurstöðu og gat þess í greinargerð sinni að það væri slæmur kostur við óbreyttar aðstæður að kljúfa stofnunina og skipta starfseminni á milli ráðuneyta. Og ég tel að það sé afar slæmur kostur. Ég skil það svo á máli sumra þeirra sem hér hafa talað að það sé kostur sem viðkomandi þingmenn telji a.m.k. íhugunar virði. Það má vera en það er alla vega ljóst að það er álit bæði nefndarinnar sem fjallar um þessa endurskoðun að það á ekki að gera og það er líka ljóst að það er álit stjórnar Hollustuverndar margítrekað til viðkomandi stjórnvalda að það beri að flytja stofnunina yfir til umhvrn. Það er líka ljóst að í dag er meira en helmingurinn af verkum stofnunarinnar á því sviði sem hægt er að segja að falli undir umhvrn. og það er alveg deginum ljósara að þróunin hjá stofnuninni mun færast yfir í þessa átt, ekki síst vegna breytinga sem verða á okkur högum að því er varðar skolp og sorp þar sem gerðar eru miklu, miklu meiri kröfur til okkar einmitt vegna aðildar okkar að EES og þar sem við þurfum að sinna miklu meira eftirlitshlutverki heldur en hingað til. Það er einmitt þess vegna sem ég tel að þetta sé lausn á ákveðnum stjórnsýslulegum vanda sem hefur hrjáð þessa stofnun og ég vona að hv. þm. geti fallist á það eftir að hafa skoðað þetta að afgreiða þetta mál fljótt og vel.