Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

60. fundur
Þriðjudaginn 14. desember 1993, kl. 16:51:18 (2653)


[16:51]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa átt sér stað og að ýmsu leyti bærilegar undirtektir við málið. Varðandi spursmál um það hvers vegna málið er flutt þá kom það aðeins fram í minni stuttu framsögu og í máli hæstv. umhvrh. rökin fyrir því að menn vilja í fyrsta lagi hafa þetta málasvið á einni hendi og í annan stað hjá umhvrn. en vilji hefur staðið til þess að efla það ráðuneyti og ég tel að það geti farið vel á því að þessi þáttur eigi þar heima.
    Hæstv. umhvrh. las upp og kynnti sjónarmið stjórnar Hollustuverndar ríkisins. Ég get út af fyrir sig líka tekið undir ummæli Heilbrigðisfulltrúafélags Íslands þar sem þeir sögðu á sínum tíma, með leyfi forseta:
    ,,Jafnframt er fagnað þeirri tillögu að kljúfa ekki stofnun eins og Hollustuvernd ríkisins, enda er stofnunin í heild umhverfismálastofnun.``
    Ég hygg að þessi rök starfsmanna sem reyndar eru kenndir við heilbrigði, heilbrigðisfulltrúar, eigi mjög vel við.
    Varðandi það atriði hvort þetta mál heyri undir allshn. eða ekki þá tel ég að það sé nokkuð einboðið að málið skuli ganga þangað. Málið lýtur að lögum um Stjórnarráðið og stjórnarskrána reyndar og skipan stjórnarmálefna undir einstök ráðuneyti lýtur að þremur ráðuneytum, forsrn., umhvrn. og heilbrrn. og þegar á sínum tíma þegar málasviðinu var skipt þá var þessu máli vísað af þingsins hálfu til allshn. og ég tel eðlilegt að halda þeirri skipan áfram og engin rök til annars.
    Varðandi það sem spurt var um eftirlitsnefndirnar og þátt þeirra þá er það sjálfstætt mál. Nefndin sem er að athuga eftirlitskerfið hér á vegum fulltrúa ráðuneytanna er í starfi og hefur reyndar skilað áfangaþætti til ríkisstjórnar og það starf heldur áfram í raun óháð þessari breytingu þó að verkefni nefndarinnar tengist auðvitað þeim þætti sem hér er um að ræða.