Fjárlög 1994

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 13:39:01 (2666)


[13:39]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Á mínum stutta þingferli hef ég ekki öðlast mikla reynslu í átökum við ríkisstjórnir, en ég hygg þó að þau vinnubrögð sem við höfum verið að upplifa hér á undanförnum dögum í hv. efh.- og viðskn. eða það sem komið hefur í ljós þar, er svo makalaust að það tekur auðvitað engu tali. Við erum að fjalla um stórfelldar breytingar á skattkerfinu þar sem um er að ræða lækkun á virðisaukaskatti á matvælum úr 24,5% í 14% og það kemur í ljós að þeim gögnum sem okkur hefur tekist að kría út eftir einhverjum leynilegum leiðum, ber engan veginn saman við það sem haldið er fram. Við erum einfaldlega búin að vera að reyna að átta okkur á því hvað felst í þessari breytingu, hvaða áhrif hún hefur og hvað hún kostar. Þrátt fyrir mikil fundahöld er einfaldlega ekki komin niðurstaða í það mál. Þetta er því makalausara þegar hugsað er til þess að gerðir voru kjarasamningar í maí á þessu ári þar sem fyrir lá að ríkisstjórnin ætlaði að gera þessa breytingu á skattalögum og það er óskiljanlegt hvers vegna ekki var lögð vinna í að kanna þessar breytingar og að leggja fyrir þau gögn sem nauðsynleg eru, þó ekki hefði verið nema að þessi hluti skattalagabreytinganna lægi fyrir nú í upphafi þings, þannig að þingið hefði tíma til þess að fara almennilega ofan í þetta mál. Þetta er svo makalaust að það tekur engu tali.
    Ég vil taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar, að efh.- og viðskn. er einfaldlega ekki byrjuð að fjalla um tekjuhlið fjárlaganna og það er auðvitað vegna þess annars vegar að það er ekki búið að loka skattadæminu og við vitum ekki enn þá hver niðurstaðan verður þar. Það er enn þá verið að ræða um vörugjöld og fleira. En síðan bætist það við að mat á tekjuhlið fjárlaga felst ekki eingöngu í því hver skattheimtan verður heldur líka að kanna allar forsendur fyrir tekjuöflun ríkisins. Við þurfum að fara ofan í forsendurnar og við erum einfaldlega ekki byrjuð á þessu verki.