Fjárlög 1994

61. fundur
Miðvikudaginn 15. desember 1993, kl. 13:41:52 (2668)


[13:41]
     Jón Kristjánsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Hér hefur verið skýrt frá vinnubrögðum í fjárln. og er litlu við það að bæta öðru en því að auðvitað eru vissar áhyggjur af því hvar starfsáætlun þingsins er komið vegna þess að hér átti að ljúka á laugardag. Við höfum verið öll af vilja gerð, minni hluti fjárln., til þess að greiða fyrir störfum, en höfum lítið gert annað en að bíða eftir ákvörðunum meiri hlutans og ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.) Ég segi að við höfum áhyggjur af framvindu mála hér fram að jólum vegna þess að það heyrist alltaf að það sé von á fleiri og fleiri frumvörpum um stórmál sem á að afgreiða fyrir jól og við fréttum af því í fjölmiðlum. Í gærkvöldi fréttum við af því að það ætti að leggja hér fram frv. til breytinga á búvörulögum og afgreiða það fyrir jól. Ég vil því gera athugasemd við þetta þó að það flokkist nú kannski undir störf þingsins. En við höfum áhyggjur af því að hér klárist ekkert mál, hvorki fyrir jól né fyrir áramót með þessu áframhaldi.